Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 14:48:38 (2885)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að ástæða er til athuga þetta kerfi. Ég er ekki sannfærður um að það eigi að kollvarpa því. Ég held að það skipti miklu að það sé ákveðinn hemill að eftirlitið sé algerlega undir fjárstjórnarvaldinu frá ári til árs. Ég held að það skipti miklu máli að einhver svona umgjörð, hvort það er nákvæmlega þessi eða einhver önnur skal ég ekki segja um, tryggi sjálfstæði eftirlitsins og þar af leiðandi að fjármagn til þess geti ráðist á efnislegum forsendum en það sé ekki algerlega undirselt fjárstjórnarvaldinu í þröngum skilningi, og sýnd fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins frá einu ári til annars.

Ég hef ákveðið að fá álit sérfræðinga á þeim þætti og fá tillögur frá þeim um hvort breyta skuli þessu. Kaarlo Jännäri kemur hingað til lands til að veita okkur ráðgjöf um ýmsa þætti varðandi stofnanauppbyggingu á fjármálamarkaðnum á nýju ári. Það verður meðal þeirra verkefna sem menn óska eftir að hann láti uppi álit á. Við höfum verið að fá úttektir á Fjármálaeftirlitinu. Sú forsenda er því ekki rétt sem fjármálaráðuneytið gefur sér í kostnaðarmati — það hefði alveg getað spurt efnahags- og viðskiptaráðuneytið satt að segja — en fjármálaráðuneytið gefur sér í kostnaðarmati að engin óháð efnisleg úttekt hafi farið fram á þörf fyrir aukið eftirlit. Það er margbúið að gera, fyrst með skýrslu Kaarlos Jännäris í upphafi árs 2009, síðan með úttekt Pierre-Yves Thoraval, sem ég nefndi áðan, og var gerð á útmánuðum á þessu ári. Mats Josefsson, (Forseti hringir.) sænski sérfræðingurinn, hefur verið hér að undanförnu að fara yfir stöðu mála á fjármálamarkaðnum og hefur líka staðfest þörfina á eflingu Fjármálaeftirlitsins (Forseti hringir.) og svo að síðustu er ljóst að fram mun fara óháð úttekt hjá Kaarlo Jännäri á nýju ári. Ég held því að fáar (Forseti hringir.) ríkisstofnanir, sem fara með mikilvæg hlutverk, hafi fengið jafnítarlega grandskoðun og óháðar úttektir og umrædd stofnun.