Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 14:51:14 (2886)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal þegar hann segir að það sé í besta falli ósmekklegt að verið sé að væna menn sem sinna hlutverki sínu sem hv. þingmenn um að þeir vilji ekki rannsaka hvað gerðist í aðdraganda hrunsins. Menn velta eðlilega fyrir sér útgjöldum til þessarar stofnunar. Ég vona að enginn hv. þingmaður muni falla í þá gryfju þó að mér sýnist að sumir hafi gert það, líka utan þings. Ef hv. þingmenn spyrja sig ekki spurninga varðandi stofnun sem þrefaldað hefur veltuna frá árinu 2007 er eitthvað mikið að, þá eru hv. þingmenn fullkomlega vanhæfir til að sinna starfi sínu. Til að við setjum það í eitthvert samhengi og berum okkur saman við önnur lönd, er íslenska bankakerfið 3% af danska bankakerfinu. Íslenska fjármálaeftirlitið er hins vegar 43% af danska fjármálaeftirlitinu. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur margoft bent á að ef við miðuðum við Bandaríkin í þessu efni, en þar eru væntanlega mestu fjármálaumsvifin og stærstu fjármálafyrirtækin, væri það eins og 117 þúsund starfsmenn störfuðu nú í bandaríska fjármálaeftirlitinu og að farið væri fram á að þeir yrðu 150 þúsund. Þeir eru annars eitthvað í kringum fimm þúsund talsins.

Það er fullkomlega óhjákvæmilegt að fara yfir þessi mál, sérstaklega vegna þess að ég held að við séum öll sammála um að við viljum hafa sjálfstætt, öflugt fjármálaeftirlit. Ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra spurninga sem ég fékk ekki svör við um mál sem ég hef mjög miklar áhyggjur af, þ.e. sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins. Þær spurningar og fleiri tengdar þeim málum eru komnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að beiðni minni. Ég hef ekki fengið svar við spurningu minni um hvernig það megi vera að fjármálafyrirtæki sem voru í umsjón og vörslu hæstv. fjármálaráðherra brutu 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki og komust upp með það. SpKef gerði það í 23 mánuði, Byr og Byr hf. gerðu það í 29 mánuði, en í lögum um fjármálafyrirtæki er heimilt að veita undanþágu við mjög sérstakar ástæður í allt að 12 mánuði. Nú kynni einhver að spyrja: Skiptir það máli? Er það ekki fullkomið aukaatriði? En hér er fyrst og fremst um að ræða lög um fjármálafyrirtæki. Hér er eiginfjárhlutfall og það er grunnurinn að því að viðskiptavinir geti treyst því að fyrirtækin séu burðug, geti staðið við skuldbindingar sínar. En á sama tíma og uppfylltu þessi fyrirtæki ekki lagaskilyrði og FME gerði ekkert í því að opnað var útibú og innlánum safnað í samkeppni við önnur fyrirtæki sem svo sannarlega þurftu að uppfylla þessi skilyrði

Ég hlýt að spyrja: Hefur enginn áhyggjur af því að Fjármálaeftirlitið og hæstv. fjármálaráðherra hafi staðið svona að málum, að það muni hafa fordæmi í öðrum málum ef hæstv. fjármálaráðherra getur komist upp með að fara ekki að lögum um fjármálafyrirtæki, hvorki meira né minna? Því skyldi það ekki eiga við eitthvað af þessum aðilum sem verða hugsanlega sóttir til saka út af brotum á lögum um fjármálafyrirtæki ef hæstv. fjármálaráðherra getur komist upp með það að brjóta lögin? Af hverju má þetta fólk þá ekki líka komast upp með það? Ég gæti best trúað að þeim spurningum yrði velt upp í réttarsal.

Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Ég hef spurt hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann hafi ekki haft áhyggjur af því að Fjármálaeftirlitið, sem var með þessi fyrirtæki í gjörgæslu, fylgdist með öllu sem þar gerðist, skyldi ekki sjá til þess að lögum væri framfylgt.

Ég hef líka miklar áhyggjur af því, fyrst ég tala um sjálfstæði FME, að einn af þeim þáttum sem Fjármálaeftirlitið á að hafa með höndum er neytendavernd. Ég hef fengið það staðfest að Fjármálaeftirlitið hefur ekki gert neinar athugasemdir við endurreikning á erlendum lánum og hefur að mínu áliti sýnt þeim þáttum öllum lítinn áhuga, þessum gríðarlega stóru og miklu málum. Aðrir hafa borið kyndilinn í réttindabaráttu í neytendavernd lánþega, til dæmis hagsmunasamtök og aðilar úr háskólaumhverfinu, sérstaklega í Háskólanum á Bifröst. Það furðar mig að þessi öfluga stofnun sem svo sannarlega getur ekki borið fyrir sig fjárskorti hafi ekki gengið öðruvísi fram.

Ef við skoðum frumvarpið og umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er augljóst að þar er enn ein staðfestingin á því að samskipti hæstv. ráðherra innan þessarar ríkisstjórnar er ekki með eðlilegum hætti, því fer víðs fjarri. Ráðherrar taka umræðu inn í þingsalnum, í fjölmiðlum og annars staðar, sem menn í öðrum ríkisstjórnum afgreiða annars staðar og það er augljóst að fjárlagaskrifstofan er ekki sátt við hvernig gengið er fram. Í rauninni er hér um að ræða nokkur prinsippmál. Eitt prinsippið er stjórnarskráin. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Samkvæmt þeirri túlkun sem hér er í gangi og hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og jafnvel ríkislögmanni höfum við voðalítið um það að segja hver útgjöldin eru til Fjármálaeftirlits og í rauninni ekkert vegna þess að ef túlkun hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er rétt sem hér kemur fram hefur hann ekkert svigrúm til að endurmeta tillögur FME. FME er þá orðið algerlega sjálfstætt í störfum sínum og þarf þá væntanlega ekki að hlíta stjórnarskránni.

Ég er að vísu alveg hjartanlega ósammála hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þegar hann segir að þetta tengist ekki fjárveitingu til annarra málaflokka eins og t.d. velferðarmála. En fjármálafyrirtækin eru ekki endalaus auðlind til skattlagningar og gjaldtöku.

Til dæmis er sótt í sjóði fjármálafyrirtækjanna til að greiða embætti umboðsmanns skuldara. Þeir greiða sérstakar vaxtaniðurgreiðslur og sérstaka skatta. Nú er ný hugmynd um fjársýsluskatt upp á 4,5 milljarða sem nota á m.a. í velferðarþjónustuna og það segir sig sjálft að þessi fyrirtæki verða minna aflögufær eftir því sem gjöldin hækka. Ef allar þessar hugmyndir ná fram að ganga munu litlu fjármálafyrirtækin væntanlega ekki lifa það af frekar en litlu sparisjóðirnir, en það er kannski efni í aðra umræðu. En það segir sig sjálft að ekki er hægt að setja endalaus gjöld á fjármálafyrirtæki. Við höfum svo sem alltaf sett gjöld á fjármálafyrirtæki til að fjármagna samneysluna þannig að það ætti þá að vera meira svigrúm ef gjöldin til Fjármálaeftirlitsins eru lægri.

Þegar maður les frumvarpið, greinargerðina með því og gögnin, er ekki annað hægt að segja en að þar sé nokkuð um „fyrir-bankahrun-útgjöld“. Ég vek athygli að á bls. 6, þar sem talað er um húsaleigu og rekstur á húsnæði, kemur fram að Fjármálaeftirlitið undirritaði 20. maí 2011 samning til 15 ára um leigu á skrifstofuhúsnæði í turnbyggingunni á Höfðatorgi í Reykjavík. Um er að ræða 2.600 fermetra til 15 ára. Þó að Fjármálaeftirlitið geti skilað 400 fermetrum innan tveggja ára er þarna ansi vel í lagt. Húsnæðiskostnaðurinn er á ári um 88 millj. kr., eignakaup og tölvukaup eru 54 millj. kr., það eru um 400 þús. á hvern einasta starfsmann að því gefnu að fjölgun verði á starfsmönnum, og sérfræðikostnaður hækkar verulega. Hann er kominn í 155 millj. kr.

Ég er tilbúinn til að leggja mjög mikið á mig til að sjá til þess að hér sé öflugt sjálfstætt fjármálaeftirlit sem sinnir skyldum sínum. Við hljótum hins vegar að líta á kostnaðarþættina og ég vek athygli á því að eins og okkur finnst Fjármálaeftirlitið vera mikilvægt eru margar aðrar stofnanir þjóðfélagsins sem eru líka gríðarlega mikilvægar, kannski flestar. Ég nefni þar heilbrigðismálin. Velkist einhver í vafa um mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar? Tökum til dæmis Landspítalann. Þar er mönnum gert að spara í stóru sem smáu og það á við um alla heilbrigðisþjónustuna, en við lestur umsagnarinnar fær maður það ekki á tilfinninguna að sparnaður svífi yfir vötnum almennt.

Ég spurðist sérstaklega fyrir um stjórnina í Fjármálaeftirlitinu. Ég hef svo sem ekki fengið tölur eða ábendingar um aðrar sambærilegar stofnanir sem eru með svipuð launakjör og fólk í Fjármálaeftirlitinu. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segir að sú stjórn hafi sérstöðu, hún sé í raun úrskurðarnefnd, og fór hann yfir það áðan. Það eru örugglega málefnaleg rök í þessari umræðu en ég fylgist líka með og hef tekið málið, störf stjórnarinnar, upp á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar ásamt fleirum. Ég ætla ekki að fara í það nánar núna. Það verður rætt á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar. En ég hef af því áhyggjur að þessi óháða eftirlitsstofnun setji í besta falli kíki fyrir blinda augað á meðan hæstv. fjármálaráðherra fer ekki að lögum um fjármálafyrirtæki sem eru í umsjón hans og vörslu. Mér finnst þessi stofnun ekki sinna neytendavernd sem skyldi. Ýmislegt fleira mætti nefna en ég tek Fjármálaeftirlitið sérstaklega sem dæmi núna því að það er gríðarlega stórt mál og ég hef áhyggjur af fordæminu í þessum málum. Allt það sem gert er, sérstaklega á þessum vettvangi, skapar fordæmi og við þurfum að líta til þess. Við hljótum síðan að fara mjög gaumgæfilega yfir kostnaðinn hjá þessari stofnun af þeim ástæðum sem ég fór yfir þegar ég ræddi þau mál. (Forseti hringir.) Það er ábyrgðarhluti, virðulegi forseti, ef hv. þingmenn ætla ekki að gera það.