Meðferð sakamála

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 17:28:48 (2915)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

meðferð sakamála.

289. mál
[17:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um meðferð sakamála. Í frumvarpinu er lagt til að frestað verði fram til 1. janúar 2014 að setja á fót embætti héraðssaksóknara.

Þann 1. janúar 2009 tóku gildi ný lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er leystu af hólmi lög um meðferð opinberra mála frá 1991. Í hinum nýju lögum er meðal annars mælt fyrir um að sett skuli á fót embætti héraðssaksóknara er vera skal nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Vegna sparnaðaraðgerða á útgjöldum ríkisins fyrir árið 2009 var því frestað fram til 1. janúar 2010 að setja embættið á fót. Vegna áframhaldandi sparnaðaraðgerða var því svo frestað að setja embættið á fót fram til 1. janúar 2012. Á fjárlögum næsta árs er ekki gert ráð fyrir fé til embættis héraðssaksóknara. Er því í frumvarpi þessu lagt til að enn á ný verði gildistöku þessara ákvæða er varða stofnun þessa embættis frestað og nú fram til 1. janúar 2014.

Ljóst er að taka þarf til skoðunar hvort rétt sé að hætta við að setja á fót embætti héraðssaksóknara. Verði niðurstaðan sú að ekki skuli setja embættið á fót þarf jafnframt að huga að öðrum breytingum sem slíkt hefði í för með sér á fyrirkomulagi ákæruvaldsins. Er gert ráð fyrir því að á þeim tíma sem frestun ákvæðanna tekur til verði þessi atriði tekin til skoðunar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.