Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 14:16:00 (2987)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við mál 195 á yfirstandandi þingi, ráðstafanir í ríkisfjármálum, stundum nefnt bandormurinn, og varðar ýmsar breytingar sem nauðsynlegt er að gera á mismunandi lögum í tengslum við fjárlög fyrir komandi ár.

Nefndarálitið finna þingmenn á þskj. 514 og breytingartillögur meiri hlutans á þskj. 515, en ég mun reifa þær nokkuð í máli mínu á eftir. Í upphafi er þó eðlilegt að fara nokkrum orðum almennt um þær breytingar sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir á tekjufrumvörpum þeim sem koma til afgreiðslu á haustþinginu og verða til umræðu á þessum þingfundi, bæði undir þessu máli og næstu málum á eftir. Þær munu sömuleiðis verða í málum sem koma til umfjöllunar á næstu dögum ef að líkum lætur.

Kjarninn í breytingum efnahags- og viðskiptanefndar er sá að auka skattlagningu á hagnað en draga úr skattlagningu á störf og úr neikvæðum áhrifum á sparnað. Það gerum við vegna þess að við þurfum störf, sparnað og fjárfestingu í þessu landi til þeirrar framfarasóknar sem við stefnum að. Hún mun skila okkur auknum hagnaði og um leið ríkissjóði tekjum og þakka ég oddvita stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir jákvæð orð um þær breytingar sem lagðar eru til þótt auðvitað vilji stjórnarandstaðan eðli málsins samkvæmt ganga nokkru lengra en meiri hlutinn gerir í ýmsum efnum.

Ég vil sömuleiðis þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir gott starf við vinnslu málsins og margar góðar tillögur. Þetta er mál sem jafnan þarf að leggja mikla vinnu í á skömmum tíma og kallar á að fundað sé ótt og títt. Sömuleiðis þakka ég þeim fjölmörgu gestum sem sótt hafa fundi efnahags- og viðskiptanefndar af þessu tilefni. Þær tillögur sem hér eru undir varða stóra hópa í samfélaginu og landsmenn alla meira og minna og hafa því fjölmargir gestir lagt mikla og mikilvæga vinnu í gerð umsagna fyrir nefndina og komið á framfæri margvíslegum ábendingum um það sem auka mætti við í frumvarpið í meðförum nefndarinnar. Hefur verið tekið tillit til sums af því og annars ekki eftir atvikum en þakka skal allt það góða starf.

Frumvarpið snýr að nokkrum meginþáttum og margir þeirra eru jákvæðir bæði fyrir atvinnulíf og almenning í landinu. Þannig er gert ráð fyrir að tryggingagjald lækki um 1,36% vegna minna atvinnuleysis á næsta ári. Það eru jákvæðar og góðar fréttir um atvinnustigið en ekki skiptir síður máli að geta dregið úr skattlagningu á störf því að skattar sem fylgja launum hafa tilhneigingu til að hafa neikvæð áhrif á fjölgun starfa en fjölgun starfa er einmitt það sem við þurfum á að halda í þessu samfélagi. Það er kannski stærsti óvissuþátturinn sem við horfum á á næsta ári varðandi tekjuhlið fjárlaganna, þ.e. þjóðhagshorfurnar á næsta ári og hvaða áhrif þær munu hafa á tekjuhlið fjárlaganna sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um. Við höfum rætt það við fjárlagaumræðuna og ræddum það við meðferð sama máls fyrir ári síðan.

Ég ætla ekki að bæta miklu við þá umræðu sem við tókum um það efni í fjárlagagerðinni og fjárlagaumræðunni en ég undirstrika að nýjustu tölurnar frá Hagstofunni um hagvöxt á þessu ári og þróun ýmissa þjóðhagsstærða eru að ýmsu leyti til þess fallnar að auka mönnum bjartsýni. Við stóðum hér fyrir ári síðan og efuðust ýmsir um að spár mundu ganga eftir um hagvöxt og atvinnusköpun, aukningu einkaneyslu og aðra slíka þætti á þessu ári í forsendum fjárlaga yfirstandandi árs. Við getum sem betur fer staðið hér og sagt að þær áhyggjur stjórnarandstöðunnar einkum hafi sem betur fer reynst óþarfar. Auðvitað fólst ekki í því af hálfu stjórnarandstöðunnar að vara við því að hér yrði minni vöxtur eða minni einkaneysla eða nein sérstök ósk um að það gengi ekki vel, en ég held að við getum með nokkru öryggi sagt að þó að enn eigi eftir að gefa út endanlegar tölur fyrir fyrstu þrjá ársfjórðungana og að breytingar geti orðið á þeim tölum sem fram eru komnar eru tölur um hagvöxt á fyrstu þremur mánuðunum heldur umfram væntingar og ekki er síst ástæða til að vera ánægður með þær tölur sem þar birtast um atvinnusköpun á þriðja ársfjórðungi.

Eins og á síðasta ári snúa helstu áhyggjurnar af þjóðhagsforsendum tekjuhliðarinnar og þar af leiðandi afkomu þjóðarbúsins, atvinnulífs og heimila á næsta ári að þróun á heimsmörkuðum. Það er óhjákvæmilegt að við spáum í það þar sem að við byggjum á umtalsverðum útflutningstekjum og sölu á erlendum mörkuðum, við erum ekki eyland í þeim skilningi að neikvæð þróun á heimsmörkuðum mun fljótt hafa áhrif hér. Það er kannski helsti óvissuþátturinn um tekjuhliðina á komandi ári og það sem helst getur kallað á að gripið verði til nýrra aðgerða á næsta ári. Það munum við fara yfir á vorþinginu og við munum fylgjast grannt með framvindu tekjuhliðarinnar. Við áskiljum okkur allan rétt til að grípa til aðgerða inn á árinu ef tilefni er til en eins og allir vita lifum við á mjög viðsjárverðum tímum, ekki síst í fjármálakerfinu á þeim markaði sem við erum hluti af, þ.e. Evrópska efnahagssvæðinu.

En áfram um greinar frumvarpsins. Á móti lækkun á tryggingagjaldi vegna minni framlaga í Atvinnleysistryggingasjóð upp á 1,36% koma hækkanir upp á 0,45% meðal annars vegna tímabundins framlags í Ábyrgðasjóð launa þannig að nettólækkun á launatengdu gjöldunum verður 0,91%, en það munar talsvert um það fyrir margan launagreiðandann. Nefndin gerir ekki tillögu til breytinga á þeim þáttum frumvarpsins eða þeirri fyrirætlan að lækka um helming afdráttarskatta af vaxtatekjum sem renna úr landi. Sá skattur var settur á sem hluti af tekjuöflunaraðgerðum eftir hrun til að mæta þeim mikla vanda sem við var að fást í ríkisfjármálum og var töluvert gagnrýndur meðal annars fyrir það að hann yki fjárfestingarkostnað íslenskra fyrirtækja. Í ljósi þeirrar þröngu stöðu sem hér var í ríkisfjármálum hefur hann hins vegar gegnt mjög mikilvægu hlutverki og skilar milljörðum á milljarða ofan í skatttekjur sem ekki hafa lagst á almenning í auknum tekjuskattsálögum eða öðru slíku, hann hefur verið borinn af þeim sem tekið hafa vaxtatekjur úr landi. Það skipti miklu máli á þessum erfiðu tímum en nú treysta stjórnvöld sér til að lækka þann skatt um helming á komandi ári og hyggjast fella hann niður og taka upp nýtt fyrirkomulag að ári héðan í frá. Er það í samræmi við það samkomulag sem gert var í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins og er eðlileg eftirfylgni við þær yfirlýsingar sem þá voru gefnar. Gerir nefndin ekki neinar tillögur um breytingar.

Nefndin gerir hins vegar eina breytingu sem máli skiptir á þrepaskiptingu í skattkerfinu og ég hygg að sé nauðsynlegt að gera grein fyrir henni í nokkrum orðum því að þrepaskipt skattkerfi er sem kunnugt er nýtt fyrir okkur í seinni tíð. Það er skattkerfi sem við þekkjum frá nágrannalöndum okkar þar sem menn leggja áherslu á að tekjuskattskerfið gegni jöfnunarhlutverki, að þeir sem hafa meiri tekjur leggi meira í sameiginlega sjóði nú á þessum tímum til þeirra erfiðu verkefna sem við erum að fást við. Þar skiptir hins vegar miklu máli að þrepin og mörkin á milli þeirra, rétt eins og þróun persónuafsláttarins, haldist nokkuð í hendur við þróun verðlags og vísitalna, a.m.k. yfir lengra tímabil, þannig að þeir tekjuhópar sem tiltekið tekjuskattsþrep á upphaflega að ná til séu þar áfram eftir því sem árin líða, en að hærri skattprósenta fari ekki að bíta sífellt á lægri og lægri tekjuhópa þannig að lágtekjuhóparnir séu komnir inn í millitekjuþrepið og millitekjuhóparnir inn í hátekjuþrep. Í frumvarpinu eins og það lá fyrir var gert ráð fyrir því að þrepamörkin hækkuðu um 3,5%, bæði hið neðra og hið efra, en gert er ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um verðlagsforsendurnar, sem ekki er fyllilega komið fram hvað verður nákvæmlega en reikna má með að það verði um 5,1% miðað við þær forsendur sem nú liggja til grundvallar. Má þá miða við liðlega 2.000 kr. hækkun á persónuafslætti á mánuði fyrir launþega.

Breytingin á neðri mörkunum sem efnahags- og viðskiptanefnd leggur til er sú að þau hækki ekki um 3,5% heldur 9,8% og hækki þá í 230 þús. kr. en að efri mörkin hækki um 3,5% í rúmlega 704 þús. kr. Hvað þýða þessar breytingar? Þær þýða að neðra þrepið, sem kemur auðvitað öllum til góða, bæði þeim sem eru á mörkum þess og eins þeim sem eru fyrir ofan það, hækkar umtalsvert meira en gert er ráð fyrir að verðlag hækki á næsta ári og lítið eitt meira en gert er ráð fyrir að launavísitala hækki. Það þýðir að manneskja með meðaltekjur, um 380 þús. kr. á mánuði, má vænta þess að greiða rétt um 600 kr. minna í tekjuskatt á mánuði af þeirri sömu krónutölu á næsta ári. Það þýðir að samanlagt er manneskjan með 380 þús. kr. sem eru um það bil meðaltekjur í landinu, þá eykst annars vegar persónuafslátturinn um liðlega 2.000 kr. og síðan hafa þrepamörkin þau áhrif að skattgreiðslur viðkomandi launamanns lækka um 600 kr. þess vegna. Síðan bindum við vonir við að tekjur fólks aukist. Þær aukast samkvæmt kjarasamningum um 3,5% og þá kemur auðvitað skattur af þeirri hækkun, síðan er von til þess að launaskrið verði líka umtalsvert. Menn vænta þess jafnvel að launavísitalan geti hækkað á bilinu 8–9% á næsta ári, sem eru sannarlega góðar fréttir. Það er ljóst að hækki laun hlutfallslega umfram þær hækkanir sem hér er verið að gera getur skattbyrði þeirra aukist, en ég legg áherslu á að hér er verið að hækka bæði umfram forsendur verðlags og launavísitölunnar hvað varðar lág- og meðaltekjuhópana.

Ég tel líka mjög mikilvægt að fara með krónutöluna í 230 þúsund því að á launabilinu um og rétt yfir 200 þús. eru umtalsverðir hópar fólks sem eru á lífeyri almannatrygginga og hafa litlar tekjur aukalega eða eru á þessari svokölluðu lágmarksframfærslu. Þeir hafa tiltölulega lítið ofan á þá framfærslu til viðbótar úr lífeyrissjóði. Það er óhæfilegt að fólk með svo lágar tekjur greiði viðbótarálag í öðru þrepi tekjuskattsins og þess vegna er mikilvægt að hækka það nokkuð upp. Ég held að þeir sem eru í hærri endanum geti vel unað við 3,5% hækkun á þeim mörkum. Það er raunar ívið hærri krónutala fyrir þá á þrepamörkunum en krónutalan í neðra þrepinu og þeir njóta breytinganna á því og líka hækkunar persónuafsláttarins þannig að einstaklingur sem er með 750 þús. á mánuði í laun er með óbreyttar krónutölutekjur á næsta ári en lækkar líka í sköttum. Það gildir um hann eins og lágtekjufólkið að aukist tekjur hans dregur úr þessari lækkun og aukist þær umfram forsendur verðlags getur skattbyrði hans aukist. Það vildi ég segja um þrepin.

Nefndin leggur til varðandi auðlegðarskattinn að hann verði framlengdur um tvö ár. Hér er verið að leggja á nokkuð háan auðlegðarskatt. Það er tímabundin aðgerð til að mæta þeim miklu áföllum sem íslenskt þjóðarbú hefur orðið fyrir. Þar hefur verið farin sú leið að leggja sérstakar byrðar á þá sem mestar eignir eiga í landinu og eru í bestu færum til að leggja aukalega af mörkum tímabundið, en það er að okkar viti nauðsynlegt að endurskoða auðlegðarskattinn í tengslum við afnám gjaldeyrishaftanna því að við teljum að það sé skynsamlegt að endurmeta hann við afnám þeirra. Alþingi ákvað fyrr í vetur að takmarka gjaldeyrishöftin við árið 2013, þá rynnu þau út. Við teljum þess vegna ekki rétt að framlengja auðlegðarskattinn lengur en það.

Ýmis sjónarmið hafa verið uppi um auðlegðarskattinn hvað varðar tekjulágt fólk. Meðal annars hefur Hróbjartur Jónatansson lögmaður, sem mun raunar koma á fund nefndarinnar í fyrramálið og fjalla um sjónarmið sín í þessu, haft áhyggjur af tekjulágu fólki sem greiðir auðlegðarskatt vegna mikilla eigna. Til að mæta þeim sjónarmiðum gerir nefndin líka þá breytingartillögu að ónýttur persónuafsláttur geti nýst upp í auðlegðarskatt. Við vísum að öðru leyti til þess að skattstjórar hafa auðvitað almennar heimildir gagnvart slíkum tilfellum sem vinna má í skattalögum.

Þá er um að ræða breytingar á séreignarsparnaðarákvæðunum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að draga tímabundið úr skattfríðindum fyrir séreignarsparnað sem verið hafa 4% af launum, og lækka það í 2% af launum tímabundið í þrjú ár. Við teljum að í ljósi aðstæðna í ríkisfjármálum sé hægt að færa sterk rök fyrir því að við núverandi aðstæður sé ekki rétt að ganga lengra en að ívilna 2% vegna þess mikla kostnaðar sem slíkum skattívilnunum fylgir fyrir ríkissjóð og hann hefur lítil ráð á núna. Um leið er mikilvægt að fólk verði þá ekki óvart fyrir tvísköttun og haldi áfram að greiða um meira en skattleysið gefur tilefni til. Sömuleiðis er áhyggjuefni eftir þetta þriggja ára tímabil hvort fólk muni auka sparnað sinn á ný upp í 4%. Þess vegna leggur nefndin til að farin verði svipuð leið og í greiðslujöfnuninni sem gripið var til í framhaldi hrunsins gagnvart íbúðalánum þar sem hin almenna regla var sú að menn tækju þátt í greiðslujöfnuninni nema þeir segðu sig sérstaklega frá henni. Þá gerum við ráð fyrir því að iðgjöld verði lækkuð í 2% nema menn óski þess sérstaklega að halda þeim óbreyttum hærri. Það er gert með tilvísun til neytendaverndarsjónarmiða, við gætum þess að það lendi enginn óvart í tvísköttun. Það hefur þann kost fyrir kerfið í heild sinni að þá vex sparnaðurinn aftur að lokinni þessari tímabundnu aðgerð með sjálfvirkum hætti þannig að við ættum með því að lágmarka neikvæð áhrif á sparnað í landinu til langs tíma. Það eru hins vegar full rök fyrir því að draga lítið eitt úr sparnaði tímabundið við þær aðstæður sem við búum við í efnahagslífi okkar. Þrátt fyrir ýmsar hrakspár um m.a. þær heimildir sem við höfðum veitt fólki til að taka út úr séreignarsjóðunum til að nýta fé í greiðsluerfiðleikum og öðru slíku, er það samt þannig að Íslendingar hafa verið að leggja til hliðar í séreignarsjóðina. Eftir hrun hefur sparnaður þar verið að aukast og við teljum að það sé fyllilega forsvaranlegt tímabundið að draga lítils háttar úr honum á meðan staðinn er vörður um kerfið í meginatriðum.

Í ráðstöfunum í ríkisfjármálum er að venju nokkuð um ýmis krónutölugjöld, sem kölluð eru. Það eru þeir skattar sem lagðir eru m.a. á bensín, kolefnisgjald, gjöld á áfengi og tóbak og önnur slík gjöld sem eru í lögum tilgreind í krónutölu og ekki í hlutföllum, ekki prósentum. Þessi gjöld hækka því ekki um leið og innkaupsverð hækkar eða með verðbólgu heldur þarf Alþingi á hverjum tíma að taka sérstaklega ákvörðun um að hækka þau og þá að líta til þeirra ýmsu sjónarmiða sem hafa þarf við slíka ákvörðun. Krónutölugjöldin, að undanskildu blessuðu neftóbakinu, eru öll hækkuð í samræmi við verðlagsforsendur í áfengi og tóbaki en þó voru uppi nokkur sjónarmið í umfjöllun nefndarinnar um að ganga ætti að sumu leyti skemmra og að sumu leyti lengra. Þannig lagði ÁTVR til að sterkt áfengi yrði hækkað minna en reyktóbak meira til að lágmarka áhrif breytinganna á sölu fyrirtækisins og var undir það sjónarmið tekið í umsögn velferðarnefndar. Nefndin taldi ekki sérstaka ástæðu til að gera þær breytingar á frumvarpinu. Farið var í minni hækkun á sterku áfengi á síðasta ári að tillögu ÁTVR þannig að álagning á það rýrnaði að raungildi á þessu ári og var ekki stuðningur við að endurtaka það annað ár svo öll krónutölugjöldin eru eins og þau koma fram í frumvarpinu. Þar er að auki síðasti áfanginn í hækkuninni á kolefnisgjaldinu en einnig ákveðnar mótvægisaðgerðir í bensíni og dísil á móti því til almennings.

Hvað neftóbakið varðar var það tillaga frá ÁTVR, og var undir hana tekið af hálfu velferðarnefndar þingsins, að hækka gjald á neftóbak um 200%. Ástæður þeirrar tillögu eru að álagning á það tóbak hefur sætt öðrum lögmálum en álagning á annað tóbak og vildu fyrirtækið og velferðarnefndin færa álagningu á neftóbak til samræmis við þau viðmið sem höfð eru við álagningu á annað tóbak í landinu. Meiri hlutinn taldi þó að óhóflegt væri að ráðast í 200% hækkun á einu bretti þó að það séu vissulega lýðheilsusjónarmið vegna mikillar aukningar á notkun þessa tóbaks og þá kannski ekki endilega til töku í nefið, sem einnig liggja að baki þessum tillögum, en fallist var á að hækka gjaldið sjálft um 3/4 . Það mun leiða til liðlega 30% hækkunar á útsöluverði neftóbaks. Ástæða er til að taka fram að það er ekki í vísitölu og hefur það þess vegna ekki áhrif á skuldir heimilanna eða nokkurn slíkan hlut að grípa til þeirrar ráðstöfunar.

Hér voru fyrirætluð kolefnisgjöld á rafskaut o.fl. og sætti það talsverðri gagnrýni í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar og hefur verið í opinberri umræðu um margra vikna skeið. Sem betur fer liggur fyrir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að frá þeim verði fallið og við gerum þá breytingartillögu við lögin. Þó að eðlilegt sé að horfa til stóriðjunnar og kalla eftir því að hún greiði umhverfisskatta eins og allir aðrir í landinu þá verður ekki framhjá því horft að aðferðin við að gera það var þröskuldur í vegi nýrra fjárfestingarverkefna, m.a. kísilvers suður með sjó, erlendrar fjárfestingar, nýsköpunar í atvinnulífi, sem eru þeir þættir sem við Íslendingar þurfum hvað mest á að halda nú. Þó að það þýði nokkru minni skatttekjur leggjum við áherslu á að fallið sé frá þeim fyrirætlunum og greiðum með því fyrir nýfjárfestingum og atvinnusköpun enn frekar. Við treystum því að þau verkefni sem hér eru undir komist til framkvæmda í vetur og hjálpi til að skapa hér hagvöxt og afkomu þjóðarbúsins og fólks og fyrirtækja í landinu á næsta ári og um ókomin ár.

Auk þeirra þátta sem ég hef nú rakið er ýmis smærri mál að finna í tillögum nefndarinnar. Við gerum ráð fyrir því að úttektarheimildin í séreignarsjóðunum, sem nú er 6 milljónir og 250 þús. kr., renni ekki út í byrjun sumars heldur verði hún framlengd í þrjá mánuði. Við gerum ráð fyrir að sú framlenging muni skila ríkissjóði tekjum sambærilegum við þann tekjumissi sem hann verður fyrir vegna hækkunar á neðra skattþrepinu. Sömuleiðis eru framlengd mikilvæg ákvæði um skattaívilnun einstaklinga og fyrirtækja sem fá skuldaniðurfellingu og þurfa mjög á því að halda að þau ákvæði séu framlengd. Sömuleiðis eru lítils háttar breytingar sem lúta m.a. að sóknargjöldum. Það er skýrt kveðið á um tiltekna undanþágu í gistináttaskatti og þannig mætti áfram telja.

Þá var stuttlega fjallað um það á fundi nefndarinnar í gær að í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir því að í fjárlögunum sé fjármunum ráðstafað til þeirra verkefna sem markaðir stofnar af leigutekjum á vegum sjávarútvegsráðuneytisins hafa áður runnið til og í samræmi við þau fjárlög sem nú hafa verið afgreidd sé þess vegna nauðsynlegt að gera breytingar á lögum sem falla frá mörkun þeirra tekjustofna sem kveðið er á um í lögum. Það er hliðstætt við þær breytingar á ýmsum mörkuðum tekjustofnum sem jafnan er að finna í ráðstöfunum í ríkisfjármálum og eins og ég segi er fyrst og fremst verið að uppfylla það sem þegar er samþykkt í fjárlögunum og var afgreitt í síðustu viku. En um það atriði mun nefndin fjalla betur á milli 2. og 3. umr. áður en meiri hlutinn setur fram endanlega tillögu í því efni og við munum hafa áfram til skoðunar þær ábendingar sem kunna að koma fram nú þegar breytingartillögur okkar hafa verið lagðar fram og nefndarálit kynnt.

Þá voru uppi áform um að framlengja þau lög sem kolefnisgjald á rafskaut og þess háttar átti að byggja á, en í ljósi þess að fallið hefur verið frá þeim áformum er óþarfi að fjalla um framlengingu laga um kolefnisgjöldin núna fyrir jólin, enda gilda þau út næsta ár. Ég tel að það sé mikilvægt að efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir samspil umhverfis- og auðlindagjalda og þeirra Evrópukerfa sem við erum að ganga inn í, eins og ETS, og marki heildstæða stefnu um þau prinsipp sem eiga að liggja til grundvallar þessari skattlagningu á komandi tíð.