Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 14:49:50 (2991)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að full ástæða sé til að treysta upplýsingum fjármálaráðuneytisins um þessi áhrif. Menn geta líka séð þau býsna vel einfaldlega með því að fara yfir breytingartillögur meiri hlutans. Þau gjöld og þær tekjur sem jafnast út plús- og mínusmegin eru til að mynda sóknargjöld sem hækka um 90 millj. kr. en þar er sambærilegur kostnaður á móti, og nefna má aðrar slíkar lítils háttar breytingar sem varða engu um þá stóru mörg hundruð milljarða króna mynd sem fjárlögin eru, ekki í þessu frumvarpi að minnsta kosti. En eins og ég segi hefur útfærslan í fjársýsluskattinum nokkur áhrif.

Ég var upplýstur um það fyrir nokkrum vikum að fjárlaganefnd hefði ekki fengið daglegan fundartíma eins og óskað hefði verið eftir og hún væri þess vegna ekki í aðstöðu til að uppfylla þetta ákvæði þingskapa að þessu sinni. Ég tel að forseti Alþingis hafi gert grein fyrir því á fundi forsætisnefndar þingsins og sömuleiðis hafi verið gerð grein fyrir því (Forseti hringir.) hjá formönnum þingflokka og þess vegna hafi bæði þingflokkar og forsætisnefndarmenn verið upplýstir um þetta atriði fyrir löngu. (Gripið fram í.)