Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 15:03:50 (3002)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að skuldir í dag eru skattar á morgun og sem betur fer greiddum við niður skuldir ríkissjóðs á undanförnum áratugum undir forustu Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi tilhneigingu til að gleyma því. Því var öfugt farið hjá sveitarfélögunum og við þekkjum þá umræðu nokkuð, ég og hv. þm. Helgi Hjörvar. Við tókumst illilega á um það í borgarstjórn Reykjavíkur á sínum tíma en því miður fékkst ekki skilningur hjá þáverandi R-lista að fara þá leið.

Það þýðir lítið að ræða þann þátt núna. Ég ætla að vísu hv. þm. Helga Hjörvar að vilja gera þetta; auka störf og ýta undir fjárfestingu og sparnað. En með þessari efnahagsstefnu, þó svo að menn séu núna á elleftu stundu að reyna að bjarga einhverju fyrir horn, þá vitum við í raun ekki hvað við erum að gera. Við höfum unnið þetta svo hratt, við höfum ekki þær upplýsingar sem þarf, og ekki er búið að taka út hverjar afleiðingar þessara breytinga verða.

Ég skil vel að hv. þm. Helgi Hjörvar sé að reyna að bjarga því sem bjargað verður (Forseti hringir.) en þessar breytingar allar og þetta mál allt sýnir að efnahagsstefnan gengur ekki upp og ýtir ekki undir þá þrjá mikilvægu þætti (Forseti hringir.) sem hv. þm. Helgi Hjörvar minntist á.