Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 15:10:23 (3007)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um fundarstjórn):

Forseti. Rétt um það atriði sem lýtur að samskiptum fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Það er alveg rétt sem var hér leiðrétt í andsvari að efnahags- og viðskiptanefnd ber ekki samkvæmt þingsköpum að veita fjárlaganefnd umsögn um tekjugreinina. Hins vegar var óskað eftir því við allar nefndir, þar með talið efnahags- og viðskiptanefnd, og hún var eina nefndin sem ekki veitti fjárlaganefnd umsögn um fjárlagafrumvarpið. Það þótti flestum fjárlaganefndarmönnum miður og væntu þess að gerð yrði bragarbót á því þegar efnahags- og viðskiptanefndin færi að vinna sína vinnu og fylgdi þingsköpum. Það er ekki gert, með einhverju yfirklóri í formi afsakana og vísan til fundar sem ekki hefur verið haldinn og umræðu sem ekki hefur farið fram. Það er mjög einkennilegt svo ekki sé meira sagt og bendir einfaldlega til að ekki sé allt uppi á borðum varðandi samskipti fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Ég held að mjög æskilegt væri að þau samskipti væru skýrð betur en hér hefur verið gert.