Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 16:31:21 (3023)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að stæla um einhverjar tölur við hv. þingmann. Ég er ekki alveg svona fljótur að reikna í huganum og er ekki með excelinn með mér. Ég tel að þetta sé nú aukaatriði. Við erum að deila um keisarans skegg, en það er ljóst að forsendurnar eru þær að launin munu hækka, þannig að raunskattbyrðin mun hækka.

Ég gleymdi því í upphafi ræðu minnar áðan og vil því nota síðustu 20 sekúndurnar til að þakka hv. þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir ágætt samstarf í þeirri nefnd. Það er alltaf gott að vinna með þingmanninum. Hann er glöggur og það sem ég tel honum helst til tekna er að svona oftast nær er hægt að tjónka við hann.