Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 16:32:41 (3024)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er eitt mikilvægasta mál á haustþingi á Alþingi. Það snertir rekstrarumhverfi atvinnulífsins í landinu, stöðu heimilanna, stöðu sveitarfélaganna og stöðu ríkissjóðs.

Það er ansi sérstakt að vera við 2. umr., aðalumræðu um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, þegar búið er að afgreiða fjárlagafrumvarpið sem lög frá Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í: Eins og alltaf.) Það er ansi sérstakt verklag að búið sé að afgreiða fjárlög ríkissjóðs áður en önnur aðalumræða um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins hefur farið fram. Þetta er verklag sem ég tel að við eigum að breyta og ættum að læra af og kannski sérstaklega í ljósi þess hvernig mál hafa þróast frá því að umfjöllun um þetta mál lauk í nefnd því að þangað koma nokkuð mörg mál með ansi stuttum fyrirvara svo að ekki sé fastar að orði kveðið, mál sem þarf að ræða mun betur og ítarlegar.

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum, allt frá hausti 2008, hefur íslenska þjóðin þurft að glíma við mikla erfiðleika í kjölfar bankahrunsins. Ljóst var á þeim tímapunkti að gera þurfti gangskör að því að lækka útgjöld og auka tekjur ríkissjóðs. Það var gert með því að hækka skatta og gjöld, álögur á heimili og fyrirtæki landsins, á heimili sem bjuggu við það að lán þeirra stökkbreyttust í kjölfar gengishruns krónunnar og aukinnar verðbólgu. Lánin hafa hækkað um 40–50% á meðan kjörin rýrnuðu. Maður veltir því fyrir sér hversu hart er hægt að ganga fram gagnvart heimilum þessa lands og íslensku atvinnulífi. Er endalaust hægt að auka álögur á heimilin og fyrirtækin? Er endalaust hægt að hækka skatta og jafnframt halda áfram niðurskurði í velferðarkerfinu? Hér er stórt spurt.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir lausnum í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar allt frá hruni haustið 2008. Við höfum lagt fram á þingi mjög ítarlegar tillögur í efnahagsmálum og atvinnumálum ásamt reyndar fleiri flokkum, m.a. Sjálfstæðisflokknum, til að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem uppi er.

Staðreyndin er sú að við búum við lamað atvinnulíf. Fjárfesting í íslensku samfélagi er 13% en meðaltal undanfarna áratugi 21%. Þarna vantar 8% upp á fjárfestingu í samfélaginu. Ef við tökum landsframleiðsluna, sem er ríflega 1.800 milljarðar, þá vantar fjárfestingu upp á 140 milljarða bara til að við getum haldið í meðaltal fjárfestingar hér síðustu áratugina. Við höfum allt, við höfum orkuna, við höfum fiskinn, við höfum náttúruna og við höfum mannauðinn, við höfum öll tækifæri til að snúa vörn í sókn. Vandamálið er einfaldlega að þessi tækifæri hafa ekki verið nýtt.

Hver er staða sjávarútvegsins? Hvers vegna er svona lítil fjárfesting í sjávarútveginum? Það er vegna þess að ríkisstjórnin heldur þeirri atvinnugrein í heljargreipum. Í rúm tvö ár hafa forsvarsmenn í sjávarútveginum ekki vitað hvaða rekstrarumhverfi verður í framtíðinni vegna þess að ríkisstjórnin veltir á milli sín tillögum sem gætu mögulega kippt undirstöðunni undan einni helstu atvinnugrein þjóðarinnar, sem sjávarútvegurinn er.

Hvernig er með orkuna og öll þau tækifæri sem við höfum til að nýta þá umhverfisvænu orku sem streymir til sjávar á hverjum degi? Rammaáætlun hefur ekki enn litið dagsins ljós hér á þingi. Það er ljóst að almenn andstaða er við nýtingu orkuauðlinda innan annars ríkisstjórnarflokksins, Vinstri grænna, og hluta af hinum, þ.e. þeirrar deildar Samfylkingarinnar sem vill vægast sagt fara mjög sparlega þegar kemur að nýtingu náttúruauðlindanna.

Hvernig er með erlenda fjárfestingu? Hvernig er með það umhverfi sem við höfum búið atvinnulífinu hér? Yfir 140 breytingar hafa verið gerðar í íslensku atvinnulífi á rúmum tveimur árum. Hringlandahátturinn þegar kemur að kerfisbreytingum í skattkerfinu hefur fælt erlenda fjárfesta frá, enda vill stór hluti ríkisstjórnarinnar einfaldlega ekki beina erlenda fjárfestingu hér á landi og hefur sagt það berum orðum. Ríkisstjórnin virðist kasta mjög tilviljanakennt fram ýmsum hugmyndum um alls konar breytingar á skattkerfinu sem vega jafnvel að heilu atvinnugreinunum og því hefur traust og tiltrú á íslensk stjórnvöld, á skatta- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar farið þverrandi. Þess vegna halda menn og þá einkum fjárfestar að sér höndum við uppbyggingu atvinnutækifæra. Þess vegna horfum við kannski upp á að sjö einstaklingar fara á hverjum degi af landi brott til Noregs. Hæstv. forsætisráðherra segir að það sé ekkert óvenjulegt. Og það er kannski þess vegna sem við horfum upp á 13 þúsund Íslendinga án atvinnu í dag — 13 þúsund.

Það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar um daginn af hálfu forsvarsmanna atvinnulífsins að á fyrstu níu mánuðum ársins hefði störfum í samfélaginu einungis fjölgað um 150 á ári. Til að halda atvinnustiginu sæmilegu þurfa 1.700 ný störf að myndast í þjóðfélagi okkar, en á fyrstu níu mánuðunum voru þau 150. Það er því miður ekki hægt að segja að við séum á réttri leið þegar kemur að atvinnusköpun í landinu og að við séum að snúa vörn í sókn og auka lífsgæðin hér.

Undirstöður þessa frumvarps byggja að verulegu leyti á hagvaxtarspá og hagvöxtur hefur verið að aukast, sem er gleðiefni. En þegar nánar er rýnt í það hvers vegna hagvöxtur hefur verið að aukast er það ekki vegna aukinnar fjárfestingar og þar með umsvifa atvinnulífsins heldur er það vegna þess að einkaneyslan hefur aukist og hefur meðal annars verið drifin áfram af útgreiðslu séreignarsparnaðar og af vaxtaniðurgreiðslum þegar ákveðnir fjármunir hafa verið lagðir inn á skuldug heimili, sem er mjög gott. Fyrir þessari einkaneyslu er í raun mjög lítil inneign. Ef við ætlum að byggja upp hagvöxt til framtíðar litið þurfum við að byggja upp fjárfestingu í atvinnulífinu. Það er sá heilbrigði hagvöxtur sem við eigum að hlúa að en ekki þessi tegund hagvaxtar. Þetta minnir á það þegar rýnt var í efnahagsreikninga stærstu fyrirtækja landsins í aðdraganda hrunsins. Þar var liður sem hét óefnislegar eignir eða hin svokallaða viðskiptavild sem var metin á mörg hundruð milljarða króna en var í raun ein stór loftbóla. Hvað stóð eftir af þessum óefnislegu eignum í kjölfar hrunsins? Ekki neitt. Það er þess vegna sem við verðum að auka atvinnu í landinu og það er þess vegna sem við þurfum að styðja við fyrirtækin og heimilin.

Í þessu frumvarpi er enn eina ferðina verið að auka álögur á atvinnulífið og hækka skatta hlutfallslega, meðal annars á millitekjufólk í landinu. Það er líka verið að skerða kjör þeirra lægst settu í samfélaginu, aldraðra og öryrkja. Eru það breiðu bökin sem eiga að halda íslensku samfélagi uppi í kjölfar hrunsins? Ég segi nei.

Eins og ég sagði áðan höfum við framsóknarmenn lagt fram ítarlegar tillögur í efnahagsmálum og í atvinnumálum sem við höfum mælt fyrir á Alþingi og búið er að vísa til nefndar. Þessar tillögur okkar eru í umsögnum hjá hagsmunaaðilum í samfélaginu og vonandi getum við komið fram góðum málum sem til framfara horfa í krafti þeirra tillagna sem skipta tugum um það hvernig við getum aukið atvinnu og eflt efnahagslíf í landinu. En því miður höfum við ekki náð að setja fingraför okkar á það frumvarp sem við ræðum hér.

Ég vil reyndar, áður en ég held áfram og fer yfir einstaka þætti frumvarpsins, þakka fyrir ágætt samstarf í efnahags- og viðskiptanefnd um þetta mál. Við fengum málið mun fyrr nú en undanfarin tvö ár. Grundvallarbreytingar í skattamálum bárust í þingsal 10–12 dögum fyrir þinglok eftir mánaðamótin nóvember/desember og hafa mörg mistök verið gerð vegna þess hversu hroðvirknisleg vinnubrögðin hafa verið. En það má segja meiri hlutanum til hróss að við höfum þó haft nokkrar vikur núna til að fara yfir tekjuhlið fjárlaganna og er það vel. Við höfum þar af leiðandi getað fengið ítarlegri umsagnir og farið betur ofan í þau álitamál sem vakna við þessa stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Mig langar í fyrsta lagi að fjalla um fyrsta málið sem er lækkun á frádrætti vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Það sem ríkisstjórnin stefnir að og hefur sagt er að minnka þennan sparnað og auka einkaneysluna enn frekar, væntanlega þá til að halda þessum meinta hagvexti lengur sem er ekki heilbrigður eins og ég nefndi áður, en aðilar vinnumarkaðarins hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við það.

Ég vil bæta við og ég mun kannski hnykkja á því í lok ræðu minnar að stjórnarmeirihlutinn hrósar sér sérstaklega af því í greinargerð með þessu frumvarpi að hafa haft mjög víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins og helstu hagsmunaaðila í íslensku þjóðfélagi. En þegar nánar er að gáð og farið er yfir umsagnir þessara aðila kemur í ljós að þetta samráð var í besta falli gervisamráð. Í raun og veru hefur ekkert samráð verið. Ákveðnum tillögum hefur verið slengt fram og fær ríkisstjórnin mjög harðan dóm frá flestöllum aðilum sem hafa sent inn álit vegna þess frumvarps sem við ræðum.

Ég ætla að byrja á Alþýðusambandi Íslands. Það leggst harkalega gegn þeim tillögum að launafólk geti einungis lagt 2% af tekjum sínum í séreignarlífeyrissjóð án þess að greiða tekjuskatt af inngreiðslunni í stað 4% áður eins og segir í umsögninni. Alþýðusambandið heldur áfram, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hafa í huga að þegar samið var um þetta fyrirkomulag á almennum vinnumarkaði fyrir rúmum áratug átti þetta fyrirkomulag að jafna lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Meðal annars var gert ráð fyrir því að launafólk á almennum vinnumarkaði gæti nýtt þennan sparnað til þess að flýta starfslokum og jafna þannig þann mun sem er á starfslokaaldri á almennum og opinberum vinnumarkaði en opinberir starfsmenn geta farið á eftirlaun 60–65 ára en launafólk á almennum vinnumarkaði 67 ára.“

Með þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar er annars vegar verið að vega að fólki á almennum vinnumarkaði en hins vegar og ekki hvað síst er varanlega verið að laska það kerfi sem hefur verið byggt upp hér á undangengnum tíu árum í formi þess að hvetja fólk til sparnaðar. Í þriðja lagi er verið að vega að almannatryggingakerfinu til lengri tíma litið. Það er ljóst að séreignarlífeyrissparnaðurinn hefði eftir nokkra áratugi létt mjög undir almannatryggingakerfinu þegar kemur að framfærslu fólks. Ef þessi sparnaður hverfur og þetta fyrirkomulag þá segir sig sjálft að það mun auka álag á almannatryggingakerfið. Í raun og veru er verið að slá lán út á framtíðina. Það er ekki verið að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar, hagsmuni ríkissjóðs til langs tíma litið, eins og við eigum að gera, heldur til skemmri tíma.

Það er því miður staðreynd að ríkisstjórnin ætlar að innleiða þetta. Þó var sú jákvæða breyting gerð í meðförum nefndarinnar að ekki þurfi, vegna þess að tugir þúsunda einstaklinga hafa gert samning við vinnuveitanda sinn um þennan sparnað, að fara ofan í hvern einasta samning og semja upp á nýtt heldur er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að ef launafólk lætur ekki vita sérstaklega um að það vilji áfram vera með 4% inngreiðslu í séreignarlífeyrissparnað, sem verður þá tvískattaður vegna þess að 2% af þessum 4% eru sköttuð við inngreiðslu og síðan aftur við útgreiðslu, fer inngreiðslan sem sagt sjálfvirkt úr 4% niður í 2% þannig að ekki verði af þessari tvísköttun. Þetta er að vísu jákvætt. Ég undirstrika að ég tel að hér sé verið að stíga rangt skref og við séum á rangri leið með breytingu sem þessa.

Næst langar mig að fjalla um málefni öryrkja og aldraðra, þ.e. þeirra sem þurfa að treysta á almannatryggingakerfið hvað varðar framfærslu. Samkvæmt þeirri stefnu sem norræna velferðarstjórnin hefur lagt fram með þessu frumvarpi og reyndar með fjárlagafrumvarpi sem hefur verið afgreitt er ljóst að kjör aldraðra og öryrkja munu skerðast að raungildi á næsta ári. Af hverju segi ég það? Það er gert ráð fyrir því að bætur almannatrygginga muni einungis hækka um 3,5%. Til samræmis við þá staðreynd hafa laun hækkað um 7,7% frá þriðja ársfjórðungi 2010 til þriðja ársfjórðungs í ár. Það munar því 4,2% á launaþróun á almennum markaði og tekjum aldraðra og öryrkja. Öðruvísi mér áður brá. Hin svokallaða norræna velferðarstjórn ætlar sér með þessum tillögum að skerða kjör aldraðra og öryrkja. Þar eru breiðu bökin sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur fundið. Kjör þeirra verða skert um rúm 4,2% miðað við launaþróun á almenna markaðnum að undanförnu, enda kemur það fram í umsögn Öryrkjabandalags Íslands. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að tekjuviðmiðin hækki í samræmi við almenna prósentuhækkun í kjarasamningum á árinu 2012 eða um 3,5% þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að hækkun launavísitölu verði allt að 7% fyrir árið 2011.“

Með því að hækka ekki tekjuviðmið milli skattþrepa í samræmi við lög heldur aðeins um 3,5% sparar ríkið um 400 millj. kr. á ársgrundvelli — 400 millj. kr. hefur ríkisstjórnin með þessum breytingum af öldruðum og öryrkjum miðað við ef launaþróun hefði verið fylgt. Þetta er miður og segir kannski allt sem segja þarf um það þegar hæstv. ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins kenna sig við norræna velferð. Hneyksli er kallað í hliðarsal þingsins og ég held að það sé alveg óhætt að segja að það fer að verða hneykslanlegt að heyra stjórnarliða sí og æ kenna sig við norræna velferð þegar það kemur síðan fram svart á hvítu við afgreiðslu tekjuhliðar fjárlaga að verið er að skerða kjör aldraðra og öryrkja. Þetta er hin hreina tæra vinstri norræna velferðarstjórn. Það vantar ekki að nóg er af fallegum orðum í þeim setningum sem notaðar eru. En gjörðirnar eru með þeim hætti að þessir einstaklingar geta ekki verið stoltir af störfum sínum og í raun og veru er þetta í hrópandi mótsögn við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. (ÓN: Öfugmæli.) Alger öfugmæli. Maður veltir því fyrir sér hvort allt öðruvísi fólk sitji á Alþingi en er í stjórnmálaflokkunum sem heita Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin. Hér gera fulltrúar þeirra kjósenda gjörsamlega þvert á það sem þessir flokkar hafa ályktað um allt frá hruni. Breiðu bökin eru aldraðir og öryrkjar hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að vitna í umsögn Öryrkjabandalags Íslands. Ekki er nóg með að kjör skjólstæðinga þeirra þróist á verri veg en á almenna markaðnum heldur er gert ráð fyrir að á næsta ári verði ákveðnir bótaflokkar frystir sem þýðir það að þeir munu ekki einu sinni hækka um 3,5%, þeir munu ekkert hækka, sem sagt 0%. Þessir bótaflokkar aldraðra og öryrkja munu þar af leiðandi, ef verðbólgan verður 5–6% á næsta ári, skerðast í samræmi við það. Þar erum við að ræða m.a. um mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, barnalífeyri vegna menntunar, uppbætur vegna reksturs bifreiða og bifreiðakaupa og barnalífeyri. Þessir flokkar eiga ekki að taka neinum hækkunum á næsta ári og þar af leiðandi munu þeir einstaklingar sem hafa þurft að reiða sig á þennan mikilvæga hluta almannatryggingakerfisins fá minna til að standa undir framfærslu barna sinna, fjölskyldu sinnar og nógu erfitt er ástandið fyrir og ekki á það bætandi. Öryrkjabandalag Íslands segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Bent er á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir orðrétt: „Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu.“ Þrátt fyrir fögur fyrirheit hafa útgjöld ríkisins hvað varðar lífeyristryggingar, félagslega aðstoð og greiðslur til foreldra sem hlutfall af gjöldum hins opinbera dregist saman á árunum 2004–2010 úr 8,6% í 7,1%. Þá hafa greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar sem hlutfall af landsframleiðslu haldist óbreyttar frá 2007 til 2010, eða um 2,9%, sem sýnir að bætur hafa lækkað í takt við samdrátt í tekjum ríkissjóðs.“

Hér fordæmir Öryrkjabandalag Íslands alveg skýrt þá stefnu sem Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð opinbera með því frumvarpi sem við ræðum. Öfugmælin eru í hrópandi mótsögn við það hvernig stjórnarsáttmálinn er orðaður gagnvart þeim sem lökust hafa kjörin og samþykktir þessara tveggja flokka, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, gagnvart öldruðum og öryrkjum. Hér er gersamlega verið að ganga í þveröfuga átt. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin hefur alla þingmenn stjórnarliðsins á bak við sig þegar kemur að þessum málum? Það er eðlilegt að spurt sé.

Næst ætla ég að fjalla um hinn svokallaða auðlegðarskatt. (ÓN: Skattur á gamla fólkið.) Það er skattur sem var tekinn upp í kjölfar hrunsins og átti að vera tímabundinn til þriggja ára. Það var athyglisvert að lesa skrif Hróbjarts Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns þar sem hann fer yfir fyrirkomulag auðlegðarskattsins og segir, með leyfi forseta:

„Að því er jafnréttið varðar þá er ljóst að með því að mismuna fólki eftir sambúðarformi er höggvið nærri hinu stjórnarskrárbundna jafnrétti. Af hverju er frítekjumark einstaklinga í óvígðri sambúð hærra en fólks í hjónabandi?

Að mínu viti ríkir a.m.k. verulegur vafi um lögmæti auðlegðarskattsins eins og hann er settur fram og því nauðsynlegt að fá dómstóla til að skera úr því hvar valdmörkin séu á milli réttmætrar og óréttmætrar eignaupptöku.“

Ég tek undir að það er áhyggjuefni í ljósi þess að upphaflega var gefið út að þessi skattlagning, auðlegðarskatturinn, ætti að vera tímabundin til þriggja ára að nú skuli hún vera framlengd eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Reyndar gerði meiri hluti nefndarinnar breytingu á þeirri grein frumvarpsins og stytti gildistíma auðlegðarskattsins um eitt ár sem er fagnaðarefni í sjálfu sér vegna þess að það er ákveðin hætta núna þegar þessi tímabundni skattur er framlengdur að einhverjir sem voru búnir að sætta sig við að greiða þennan skatt tímabundið í ljósi efnahagshrunsins sem varð horfi upp á áralanga skattheimtu til viðbótar og fari að hugsa sér til hreyfings og jafnvel flytja lögheimilið af landi brott. Þar með minnka tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. Það er mikilvægt að við höfum hitamælinn uppi þegar kemur að viðkvæmum breytingum sem snerta þennan auðlegðarskatt og að sjálfsögðu er æskilegt að hann verði aflagður hið fyrsta.

Eins og heyra má á máli mínu þrátt fyrir að ég gagnrýni þetta frumvarp harðlega, enda var með ólíkindum þegar það kom fram að lesa sum ákvæði þess, þá hafa ákveðnar jákvæðar breytingar verið gerðar á því. Eitt af því sem var jákvætt var breyting á afdráttarskattinum þar sem hann var lækkaður niður í 10%, en á sínum tíma var ríkisstjórninni bent á þegar hún breytti skattalögum í því efni að þetta væri illa ígrunduð hugmynd. Flestallir og nær allir umsagnaraðilar bentu ríkisstjórnarflokkunum á það. Þegar skatturinn var settur fyrir áramót 2009, að mig minnir, voru einungis nokkrir dagar gefnir til að fara yfir það mál og þrátt fyrir viðvörun var málið keyrt í gegn. Nú er verið að snúa ofan af þeirri vitleysu sem þá var framkvæmd og er það vel því það er ekki hægt annað en að hrósa fólki sem játar á sig mistök og dregur hluti til baka eins og hér er gert.

Mig langar að ræða í framhaldi af þessu hækkun á eldsneytisverði. Í frumvarpinu er kveðið á um enn frekari hækkanir á eldsneyti. Fram kom hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda að gera mætti ráð fyrir að frá og með næstu áramótum, verði þetta frumvarp samþykkt, muni verð á olíu og bensíni hækka um þrjár og hálfa krónu. Það kann svo sem ekki að virðast mikið vegna þess að verð á þeim orkugjöfum er náttúrlega orðið svo fáránlega hátt. En við skulum hafa það í huga að verð á dísilolíu hefur hækkað um 13% á þessu ári og verð á bensíni hefur hækkað um 7%. Enn á að bæta við með því að hækka álögur á bifreiðaeigendur. Þar erum við um leið að tala um heimilin, atvinnulífið og kannski ekki hvað síst fólk í hinum dreifðu byggðum þar sem almenningssamgöngur eru ekki fyrir hendi og vegalengdir miklar. Fólk þarf að keyra börn sín um langan veg, jafnvel í skóla, eða fólk þarf að sækja atvinnu um langan veg og svo má lengi áfram telja.

Á mörgum þessara svæða, ég er þá að tala um dreifbýlustu svæði landsins, er raforkuverð margfalt hærra en á suðvesturhorni landsins og flutningskostnaður er margfalt meiri og þar með er matvöruverð hærra á þeim stöðum. Enn ætlar ríkisstjórnin að bæta í og hækka álögur á og bitnar ekki hvað síst á því fólki sem ég nefndi.

Þetta leiðir líka af sér að lán heimilanna hækka. Gert er ráð fyrir að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,2%, verði þetta frumvarp samþykkt, sem þýðir að hækkun á lánum heimilanna verður um 3 milljarðar kr. sem munu þá bætast á stórskuldug íslensk heimili. Þetta er í raun og veru hluti af því fyrirkomulagi sem við höfum byggt upp á undanförnum árum með því að hafa verðtrygginguna svo umfangsmikla sem raun ber vitni.

Það er fagnaðarefni að þvert á flokka tala menn fyrir því að minnka vægi verðtryggingarinnar. Það er náttúrlega út í hött þegar verið er að hækka verð á sígarettum eða tóbaki að þá skuli með sjálfvirkum hætti lán heimilanna í landinu hækka og þar með afborganir sem eru að sliga marga hverja um þessar mundir. Það er einfaldlega þannig að við verðum að fara í aðgerðir sem stuðla að því að auka atvinnu í landinu, auka velferð og hag heimilanna en ekki sífellt að standa í því að auka álögur á heimilin og fyrirtækin sem leiðir það af sér að umsvifin í samfélaginu minnka, tekjur ríkissjóðs minnka og blóðugur niðurskurður heldur áfram þegar kemur að velferðarþjónustu í landinu.

Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Þetta er sveltistefna ríkisstjórnarinnar sem ástunduð hefur verið í tvö og hálft ár. Og nú er sá sem hér stendur ekki að halda því fram að við getum bakkað aftur til ársins 2007 og haldið uppi þeim lífsgæðum sem hér voru þá, að fólk endurheimti algerlega þau lífskjör sem þá voru eða að við getum sett sömu peningana í mennta- og heilbrigðiskerfið og þá, alls ekki. En fyrr má nú rota en dauðrota, eins og sagt er. Gengið hefur verið allt of hart fram í skattlagningu og hækkuðum álögum á heimilin og fyrirtækin í landinu. Það sýnir sig í því að fjárfesting er nær engin í sögulegu samhengi. Það er engin verðmætaaukning í samfélaginu. Hvert leiðir íslenskt samfélag ef við höldum slíkri stefnu áfram? Hún leiðir til þess að ekki bara sex eða sjö einstaklingar flytjast til Noregs á hverjum degi — sem forsætisráðherranum finnst reyndar ekkert tiltökumál, það sé bara hinn eðlilegasti hlutur í heimi — ef menn ætla að halda áfram á umræddri leið verður erfitt að snúa stefnunni við. Þá mun það taka ár eða áratugi að koma Íslandi á réttan kjöl á ný vegna þess að tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi eins og ég hef farið yfir.

Mig langar að ræða aðeins um kolefnisskattinn sem hæstv. fjármálaráðherra kom fram með þegar hann mælti fyrir þessu máli. Það er gersamlega með ólíkindum. Umrætt gjald átti að skila 4 milljörðum kr. frá og með árinu 2013. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnulífinu hefði þessi skattlagning, hefði hún orðið að veruleika, sem er hugmynd frá hæstv. fjármálaráðherra, þá hefði hún kippt grundvelli undan járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og a.m.k. tveimur kísilverksmiðjuverkefnum sem nú eru í burðarliðnum. Annað er á Reykjanesi og hitt er á Bakka við Húsavík. Það hefði kippt fótunum undan þeim samningum sem nú eru í gangi. Mörg hundruð störf, ég segi það, mörg hundruð störf hefðu glatast eða ekki orðið til ef þessi hugmynd fjármálaráðherra hefði náð fram að ganga. Ég minni á að hæstv. fjármálaráðherra fór mikinn í fjölmiðlum, hann taldi það alveg nauðsynlegt að skattleggja stórfyrirtæki og þau mættu engan afslátt fá með því að menga á Íslandi. Sérstaklega vöktu tillögur hans um skattlagningu á rafskaut í orkufrekum iðnaði athygli. Hann var borubrattur, hæstv. ráðherra, og sagði að það stæði ekki til að gera Ísland að einhverri skattaparadís fyrir mengandi starfsemi.

Að vonum vöktu fyrirætlanir hæstv. ráðherra mikla athygli. Reyndar var það svo að rætt hafði verið fyrr í sumar, eftir að hv. varaformaður fjárlaganefndar Alþingis kom fram og mælti fyrir þessari stefnu þeirra félaga um að stórskattleggja ætti stórfyrirtæki — það mætti halda að menn telji að stór fyrirtæki séu vond í eðli sínu, það sé orðið eitthvert skammaryrði að við byggjum upp stór og myndarleg fyrirtæki á Íslandi. En þegar þessar hugmyndir komu fyrst fram sendu Samtök atvinnulífsins erindi til fjármálaráðherra þar sem segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Í ríkisútvarpinu 21. maí sl. var haft eftir Birni Vali Gíslasyni, varaformanni fjárlaganefndar Alþingis og fulltrúa í fjárlagahópi á vegum ríkisstjórnarinnar, að stefnt væri að því að ná í ríkissjóð á árinu 2011 tíu til ellefu milljörðum króna með auknum sköttum. Að sögn Björns Vals verði reynt að ná meira út úr þeim sköttum sem teknir voru upp í fyrra, einkum orkuskatti á stóriðju, hátekjuskatti og auðlegðarskatti. Samtök atvinnulífsins líta á það sem skýlaust brot á fyrrnefndum samningi ef stjórnvöld hyggjast hækka orkuskatta eða aðra skatta á stóriðju. Mikið hefur verið horft til aðkomu erlendra fjárfesta við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi til framtíðar. Af þeirra hálfu skiptir stöðugt skattalegt umhverfi sköpum. Staðan í atvinnumálum og á vinnumarkaði þolir ekki óskýr eða misvísandi skilaboð til erlendra fjárfesta.“

Hér voru Samtök atvinnulífsins að vitna til sameiginlegrar yfirlýsingar fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra annars vegar og Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda á raforku hins vegar um ráðstafanir til að mæta erfiðri stöðu ríkissjóðs og til að stuðla að auknum fjárfestingum í atvinnulífinu. Undir þetta var skrifað 7. desember árið 2009.

Í svari til Samtaka atvinnulífsins sem Guðmundur Árnason sendir fyrir hönd ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til 2. töluliðar sameiginlegrar yfirlýsingar frá 7. desember vill fjármálaráðuneytið taka fram að ekki eru uppi áform um annað en að virða ákvæði þess samkomulags og er rétt að benda á að Alþingi hefur nú lögfest frumvarp um ívilnun vegna fjárfestinga samanber 3. tölulið samkomulagsins.“

Hvað gerist svo? Frumvarpið er lagt fram á haustþingi þrátt fyrir að sameiginleg yfirlýsing um að auknar álögur yrðu ekki lagðar á þessa atvinnugrein og þrátt fyrir að Guðmundur Árnason fyrir hönd ráðherra hafi lýst því yfir að staðið yrði við þessa yfirlýsingu. Þetta er reyndar ekki fyrsta yfirlýsing sem ríkisstjórnin svíkur. Það virðist vera í gildi að það sé orðið markmið í sjálfu sér að reyna með einhverjum hætti að brjóta gegn ákvæðum viljayfirlýsinga eða samkomulags sem gert er við hagsmunaaðila í íslensku samfélagi. (ÁsbÓ: Þetta er hneyksli.) Hér kallar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umræðunni að þetta mál sé hneyksli, ég ætla svo sem ekki að fella neinn dóm yfir því. Ég held að þeir sem á þetta hlusta geti dregið ályktanir sínar vegna þess að eftir að þetta mál var lagt fram komu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og lýstu því yfir að þetta væri brot á sameiginlegri yfirlýsingu og þetta mundi líka leiða til þess að mörg hundruð störf mundu, vegna þessa sérstaka skatts, kolefnisskattsins, glatast í íslensku samfélagi. Auðvitað er það hneyksli út af fyrir sig.

Það merkilega er að þessi saga er ekki búin. Á fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í gær kom fram breytingartillaga frá meiri hlutanum þar sem gert var ráð fyrir að framlengja ákveðin gjöld á þessa atvinnugrein. En það átti ekki að ræða, það átti bara að taka það út sisvona. Þar með væri þá búið að brjóta í þriðja skiptið það samkomulag eða þá viljayfirlýsingu sem gerð var gagnvart Samtökum atvinnulífsins og fulltrúum þessara atvinnugreina, þriðja skiptið á innan við hálfu ári. Hversu mikil getur vitleysan orðið, virðulegi forseti?

Það er náttúrlega ekki undarlegt að menn skuli bera lítið traust til efnahagsstefnu eða atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. ef hún er fyrir hendi, þegar menn með ítrekuðum hætti í störfum sínum á Alþingi brjóta á samningum sem undirskrifaðir eru og það er ekki eins og þetta séu einhverjir Jónar Jónssynir úti í bæ sem skrifa undir þessa viljayfirlýsingu. Hér skrifa hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, og hæstv. iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, undir. En það er ekkert mál að brjóta þetta samkomulag, ekki einu sinni, nei, ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum á nokkrum mánuðum.

Það er náttúrlega ekki hægt að búa við ríkisstjórn sem heldur á málum með þeim hætti sem raun ber vitni. Ætla ég þá að sinni að hætta að ræða um kolefnisskattinn en ég ætla að vera alveg hreinskilinn í þeim efnum að það kæmi mér ekki á óvart þótt fram kæmi tillaga í fjórða skiptið um að leggja á sérstakar álögur á umrædda atvinnugrein þvert á þessa sameiginlegu yfirlýsingu. Vegna þess að mér finnst eins og ríkisstjórnin beri ekki mikla virðingu fyrir þeim samningum sem hún hefur ritað undir gagnvart ýmsum aðilum. Af nógu er að taka. Hægt er að tala um viljayfirlýsingu iðnaðarráðherra gagnvart atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum sem hún gerði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þar kom fram að verja ætti innviði í heilbrigðismálum í Þingeyjarsýslum og standa vörð um opinber störf. Síðan kom fjárlagafrumvarpið fram með stórkostlegan niðurskurð hjá heilbrigðisstofnuninni þar. Hann varð síðan að veruleika með samþykkt fjárlaga. Það varð niðurskurður, þó var eitthvað dregið úr honum. En hvað um það. Það er annað dæmi. Og síðan er hægt að nefna hinn svokallaða stöðugleikasáttmála, en ég hef því miður ekki tíma til að fara yfir þá sögu alla sem er ein sorgarsaga frá A til Ö.

Næst ætla ég að fjalla um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Eins og ég hef sagt nokkrum sinnum í ræðu minni glíma íslensk heimili við mikla erfiðleika, mörg hver, til að standa undir greiðslum af stökkbreyttum lánum. Ríkisstjórnin fór fram í ljósi þess að hún vildi ekki fara þá leið sem við framsóknarmenn mæltumst fyrir að leiðrétta almennt stökkbreytt lán heimilanna. Hún vildi fara í mjög sértækar lausnir sem hefur valdið því að búið er að koma á fót sérstöku embætti umboðsmanns skuldara. Búið er að ráða hundruð lögmanna vítt og breitt um landið til að sinna skuldaúrlausnum fyrirtækja. Komið hefur verið á fót svo flóknu kerfi að það kostar marga milljarða í framkvæmd, sem ríkið þarf að hluta til að standa straum af. Þá ákvað ríkisstjórnin til að lappa upp á þessa kolómögulegu stefnu, er snertir skuldamál heimilanna, að fara þá leið að leggja fram fjármuni til að greiða fólki bætur vegna þessarar vaxtaniðurgreiðslu því að heimilin eru að borga mjög háar greiðslur í þeim efnum.

Ég er sammála því, hef tekið undir það og finnst eðlilegt að bankarnir taki þátt í því að lækka vexti með því að koma að þessum málum, en ríkisstjórnin ákvað að draga lífeyrissjóðina einnig að borðinu. Maður veltir fyrir sér hvað hefur farið fram á þessum samningafundum vegna þess að fulltrúar lífeyrissjóðanna lýsa því samkomulagi sem gert var á allt annan hátt en fulltrúar ríkisstjórnarinnar. Með umræddri greiðslu er í rauninni verið að leggja álögur á almenna lífeyrissjóði sem mun leiða til þess að kjör lífeyrisþega munu skerðast. Verið er að skattleggja lífeyrissjóðina um 2,8 milljarða kr. Það mun þá leiða til þess að þeir sem eiga lífeyrissjóðina, almenningur í landinu, greiða vaxtaniðurgreiðslu, jafnvel þeir sem eiga ekkert húsnæði, búa hjá foreldrum sínum eða eru í leiguhúsnæði. Það sem ríkisstjórnin hefur samið um er því óskýrt.

Ég get ómögulega staðið að því að samþykkja frumvarp sem mun leiða það af sér að kjör almennra lífeyrisþega, eldri borgara og öryrkja muni skerðast vegna einhvers klúðurs sem ríkisstjórnin gerði í samkomulagi við banka og lífeyrissjóði. Einhver misskilningur virðist hafa átt sér stað en þetta er einfaldlega eitthvað sem má ekki ná fram að ganga. Í rauninni er hægt að tala um að þetta sé skattlagning þvert á gefin loforð.

Ég get meðal annars vitnað til ummæla Björns Snæbjörnssonar, formanns Starfsgreinasambands Íslands. Hann mótmælir því harðlega hvernig ríkisstjórnin kemur fram í frumvarpinu gagnvart lífeyrisþegum og lífeyriskerfinu öllu. Ef við tökum þetta heilt yfir og lítum aftur á það sem stendur í greinargerð með frumvarpinu — ég ætla að vitna til þess, þetta er dálítið skondin lesning. Í athugasemdum við frumvarpið undir liðnum Samráð o.fl. segir, með leyfi forseta:

„Við gerð frumvarpsins var meðal annars stuðst við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengda kjarasamningum sem dagsett er 5. maí 2011. Yfirlýsingin er afrakstur víðtæks samráðs stjórnvalda og aðila hins almenna vinnumarkaðar um margvíslega þætti er lúta að efnahags- og kjaramálum í aðdraganda kjarasamninga. Jafnframt er byggt á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá júlí 2011. Frumvarpið er samið í fjármálaráðuneytinu að höfðu samráði við velferðarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið um þá málaflokka frumvarpsins sem undir þau heyra. Auk þess var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra.“

Ég held að það sé nokkuð ljóst að ríkisstjórnin leggi einhverja allt aðra merkingu í orðið „samráð“ en flestir aðrir því að þær aðgerðir sem eru boðaðar í frumvarpinu ganga þvert gegn yfirlýsingum og samningum sem gerðir hafa verið. Ég hef nefnt Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands, eldri borgara, lífeyrissjóði og fleiri aðila mætti nefna. Og lesa svo það þar sem ríkisstjórnin gumar sig af því að hafa haft mjög víðtækt samráð en síðan þegar þessir aðilar koma á fund efnahags- og viðskiptanefndar kemur í ljós að ríkisstjórnin hefur brotið gegn flestum þeim samningum sem hún hefur undirritað gagnvart þessum hagsmunahópum.

Er það svo að það sé bara stjórnarandstaðan á þinginu sem kvartar undan ríkisstjórninni? Nei, heldur betur ekki. Núverandi ríkisstjórn hefur einfaldlega ekki staðið við það sem hún hefur lofað og einhvers staðar stendur: Orð skulu standa. En það á ekki við um þessa ríkisstjórn.

Virðulegur forseti. Í nóvember árið 2007 kom út handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa á vegum forsætisráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og skrifstofu Alþingis. Það er nokkurs konar leiðarvísir um það hvernig undirbúningi lagafrumvarpa verði sem best háttað. Þar eru settar fram fjórar aðalspurningar um efnisleg atriði varðandi undirbúning lagafrumvarpa með 20 spurningum sem svo þarf að svara til að undirbúningur geti talist vandaður. Samkvæmt þeirri handbók getur undirbúningur þessa frumvarps ekki talist vandaður þar sem einungis einni spurningu er svarað, þ.e. hvort frumvarpið sé í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Svarið er að ekki sé tilefni til að ætla að svo sé.

Í ljósi margendurtekinna yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um nýja og bætta stjórnsýslu, betri vinnubrögð og gegnsæi hefði maður getað búist við að handbók þessi væri höfð til hliðsjónar, þó ekki væri nema að nokkru leyti. En þegar maður les handbókina og frumvarpið yfir og hvernig að því var staðið kemur í ljós að í raun og veru er eiginlega ekki farið eftir þeim leiðbeiningum sem þar er kveðið á um. Þá veltir maður fyrir sér — og af því að stjórnarandstæðingar koma hingað upp og í annarri hverri ræðu kemur setningin: Það varð hér hrun — hvort stjórnarliðar hafi ekkert lært af þessu hruni, hvort þeir hafi ekki lært að við þurfum að fara að innleiða betri og vandaðri vinnubrögð en verið hafa á undanförnum árum. Handbókin mælir fyrir því að 20 spurningum sé svarað, en hver er niðurstaðan í tildrögum þessa frumvarps? Einni spurningu var svarað og það var spurningin um sjálfa stjórnarskrána. Þó það nú væri. En hvað varð um allar hinar 19 spurningarnar? Hvað varð um öll þessi faglegu vinnubrögð og það gegnsæi sem boðað var í aðdraganda síðustu kosninga og á öllum tyllidögum? (BÁ: Var ekki svarið um stjórnarskrána rangt?) Ja, nú veltir lögfræðingurinn því upp hvort svarið um stjórnarskrána sé rangt í frumvarpinu, þessu eina svari sem birtist. Ég ætla að láta lögfræðistéttinni það eftir að fara yfir þann hluta málsins, en mér sýnist að þörf sé á að fara yfir það.

Svo er það merkilega að lokum. Það er miður að hafa ekki lengri tíma til að fara yfir svo umfangsmikil undirstöðumál sem snerta heimilin og fyrirtækin og verður gaman að sjá hversu margir stjórnarliðar eiga eftir að taka þátt í umræðunni vegna þess að við erum að tala um grundvallarmál. (Gripið fram í.) Ég held að hv. stjórnarliðar telji að þeir geti farið heim og haldið jólin af því að búið sé að samþykkja eitthvert fjárlagafrumvarp. Við erum að tala um undirstöðumál sem er skattlagning á íslenskt atvinnulíf og heimili og hvernig við ætlum að reka ríkissjóð til framtíðar. En að lokum þetta.

Ég hef þakkað formanni nefndarinnar og nefndinni fyrir gott samstarf. Það hefur verið með betra móti frá hruni, enda hafa aðstæðurnar verið óboðlegar, en á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær varð ég fyrir þvílíkum vonbrigðum að ég er ekki kominn yfir það enn. Þar lagði meiri hlutinn það fram að gera breytingar á frumvarpinu sem snerta meðal annars lög um stjórn fiskveiða. Á öllum þeim nefndafundum, sem skipta tugum, ræddum við málið mjög vel í nokkur hundruð klukkutíma en það var aldrei rætt um breytingar á svo litlu máli sem lög um stjórn fiskveiða eru. En meiri hlutinn lagði það til í gær og vildi að við tækjum það út að við mundum gera grundvallarbreytingar er snerta byggðamál og atvinnusköpun á landsbyggðinni með því að færa fjármuni úr hinum svokallaða AVS-sjóði, sem er skammstöfun á aukið virði sjávarafurða, að mig minnir, yfir í ríkissjóð Steingríms J. Sigfússonar. Það eru mál sem farið var af stað með til að styrkja atvinnulíf í sjávarbyggðum, auka nýsköpun, fjölga störfum, mál sem ég hef stutt mjög mikið og hef verið mjög ánægður með. Nei, meiri hlutinn ætlaði á stuttum fimm mínútna fundi að klára það mál og leggja fjármuni til AVS-sjóðs niður. Þeir skyldu fara í ríkissjóð Steingríms J. Sigfússonar. Þar með væri þá búið að setja tugi mála í atvinnusköpun vítt og breitt um landið í fullkomna óvissu. En það átti bara að klára það mál á fimm mínútna fundi, helst ekki með umræðu.

Meiri hlutanum til hróss vil ég þó segja að ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins til 2. umr. en eftir stendur að klára á málið við 3. umr. þar sem fjármunir verða millifærðir úr þessum mikilvægu verkefnum sem hafa leitt til þess að tugir starfa hafa skapast vegna þess að við erum að auka við nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi. Nei, þá er ákveðið, greinilega eftir hádegi á mánudegi, að við skulum bara hætta við þetta. Þvílík skilaboð til landsbyggðarinnar. Þvílík skilaboð um nýsköpun og atvinnusköpun í landinu. Það eru meiri fallegu ræðurnar sem maður hefur hlustað á um það hversu stórkostleg byggðastefna stjórnvalda væri. Nei, svo er á fimm mínútna fundi lagt til að við leggjum bara niður nokkra tugi milljóna sem fara til atvinnuskapandi verkefna, til verkefna sem gætu skapað tugi eða hundruð starfa til lengri tíma litið, til verkefna sem gætu aukið skatttekjur okkar, og ekki veitir af því. Þvílíkur hringlandaháttur í vinnubrögðunum sem einkennir öll störf ríkisstjórnarinnar, sama hvort við erum að tala um breytingar á skattkerfinu, sem eru orðnar 140 á rúmum tveimur árum, eða um þetta mál. Eru menn ekki í betra sambandi við þau byggðarlög sem hér um ræðir en svo að það sé í lagi að henda þessum styrkjum og atvinnusköpun út, hætta bara í miðju kafi. Það hefði þá kannski verið betra að leggja ekki af stað. En þetta sýnir í grundvallaratriðum ráðaleysi ríkisstjórnarinnar, sem því miður hefur eitt að markmiði og það er að sitja út kjörtímabilið. Það er öllum brögðum beitt til þess að sitja, þeir eru þægilegir þessir stólar, það er greinilegt.

En þegar það er farið að hafa áhrif á málefni heimilanna, fyrirtækja og ríkissjóðs þá eru það einfaldlega meiri hagsmunir en að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið. Það er einfaldlega ekki boðlegt að horfa upp á þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið á undanförnum árum, og ekkert virðast ætla að batna. Ég bendi á sem dæmi hvernig að undirbúningi þessa frumvarps var staðið. Og það sem liggur núna eftir, eftir að hagsmunaaðilar sem ríkisstjórnin hreykti sér af í greinargerðinni að hafa haft svo mikið samráð við, er að þeir fordæma frumvarpið í öllum meginatriðum. Öryrkjabandalagið, eldri borgarar, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, lífeyrissjóðirnir. Hvað er eftir? Hverjir eru eftir til að gagnrýna ríkisstjórnina?

Ég tek fram að við höfum heilmikil tækifæri til að snúa þessari þróun við. Það er grátlegt að sjá að við skulum ekki nýta þann kraft sem býr í öllum þeim mannauði, í orkunni, í sjávarútveginum, í náttúrunni, að við skulum ekki nýta öll þau tækifæri sem blasa við okkur hvarvetna, þau tækifæri að hér komi bein erlend fjárfesting til að auka við íslenskt atvinnulíf. Þessu verður að breyta. Það verður einfaldlega að breyta þeirri stjórnarstefnu sem er hér á landi. Við gætum verið í mun betri málum í dag ef við hefðum fylgt öflugri efnahagsáætlun með vönduðum og markvissum vinnubrögðum. Því miður er hringlandahátturinn á þann veg þegar kemur að lagasetningum í grundvallarmálum, t.d. breytingar á skattkerfinu, að það mun taka mörg ár fyrir okkur að ná því trausti sem nauðsynlegt er til að byggja upp öflugt atvinnulíf, a.m.k. með óbreyttri stjórn.

Ég vil að lokum segja, og það hljómar nú kannski hálfasnalega að ég þakki félögum mínum í nefndinni fyrir samstarfið, en það var mjög gott. En því miður var staðreyndin sú að króginn sem kom inn í efnahags- og viðskiptanefnd var með þeim hætti að foreldrarnir vildu ekki einu sinni sjá hann. Það var þannig. Gallað frumvarp, t.d. um kolefnisskattinn. Það var ótrúleg hugmynd sem hefði leitt til þess að járnblendiverksmiðjan á Grundartanga hefði verið lögð af og mörg hundruð nýrra starfa á Húsavík og á Suðurnesjum hefðu verið í uppnámi. Hæstv. ríkisstjórn datt ekki einu sinni í hug, hún hafði ekki hugmyndaflug til þess að ræða við Samtök atvinnulífsins um það hvaða möguleg áhrif slík skattheimta mundi hafa á íslenskt atvinnulíf. Nei, þessu var bara hent fram. Þess vegna er það alveg óskiljanlegt að lesa það með greinargerð frumvarpsins hversu ofboðslegt samráð hafði verið haft við marga í samfélaginu. Er verið að gera eitthvert grín? Það sannast einfaldlega á þeim umsögnum sem hafa komið fram um þetta mál að allur undirbúningur var með þeim annmörkum að frumvarpið var mjög gallað þegar það kom til nefndarinnar. Ég fagna því þó að við skyldum hafa náð að gera þær breytingar sem til batnaðar horfir í störfum nefndarinnar, en það breytir því ekki að ekki er hægt að snúa svona frumvarpi við í eins eða tveggja mánaða vinnu nefndarinnar. Grunnhugsunin er röng, nálgunin er röng, stefnan er röng. Og það er einfaldlega þannig að flestallir umsagnaraðilar sem hafa fjallað um þetta grundvallarmál ríkisstjórnarinnar eru sammála um það.

Er þá ekki rétt að við ljúkum umræðunni á því að skilja þá spurningu eftir hjá stjórnarliðum hvort það sé örugglega ekki eitthvað sem mætti breyta í vinnubrögðum stjórnarmeirihlutans. En þetta heldur áfram. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra draga þennan vagn, aðrir kyrja með, en því miður er þetta falskt lag sem verið er að syngja og er illa sungið og textinn ómögulegur.

Lokaorð mín eru að við verðum hið allra fyrsta að breyta um kúrs, breyta um nálgun, auka verðmætasköpun í samfélaginu, fjölga störfum og þannig getum við aukið velferðina og staðið vörð um velferðarkerfið í landinu. Ríkisstjórnin heldur áfram sveltistefnu sinni, sem hefur verið að minnka hagkerfið og skera niður. Það gengur ekki upp.