Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 17:43:58 (3030)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Okkur hv. þingmann hefur greint á um þetta tiltekna atriði þótt við séum sammála um margt annað sem felst í gagnrýni minni á það frumvarp sem við ræðum. Hins vegar tel ég að sú stefna sem mótuð var fyrir tíu árum, um að byggja upp viðbótarlífeyrissparnað, auki í raun og veru fjölbreytni þess kerfis sem við erum væntanlega að búa til til framtíðar þegar kemur að lífeyrisgreiðslum til landsmanna.

Ég spyr hv. þingmann á móti hvort hún sjái ekki annmarka á því ef við leggjum þennan viðbótarlífeyrissparnað af. Þá mun álagið á almannatryggingakerfið til lengri tíma litið verða svo mikið að við munum óhjákvæmilega eiga í meiri erfiðleikum með að standa undir velferð lífeyrisþega. Með því að setja fjármuni í viðbótarlífeyrissparnað tuga þúsunda einstaklinga erum við í raun og veru að létta framtíðarskuldbindingu almannatryggingakerfisins vegna þess að viðbótarlífeyrissparnaðurinn mun að hluta til standa undir henni. Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki áhyggjuefni í ljósi þessara sjónarmiða að leggja viðbótarlífeyrissparnaðinn af.