Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 17:45:38 (3031)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við byggjum í raun og veru ekki upp sjóðsmyndunarkerfi, sem hjálpar okkur að takast á við öldrunarvandamálið svokallaða, nema ávöxtun kerfisins sé það mikil að hún sé umfram vöxt raunlauna. Það hefur ekki verið tilfellið eftir hrun. Ef raunlaun hækka meira en sem nemur ávöxtun sjóðanna er hagkvæmara fyrir almenning að byggja á gegnumstreymiskerfi vegna þess að þá hækka skatttekjur mun meira að raungildi en sem nemur ávöxtun lífeyrissjóðanna að raungildi. Það má ekki gleyma því að sjóðir tapast og rýrna. Það gerir flæði skatttekna aftur á móti ekki. Það flæði tapast ekki og rýrnar nema raunlaunin minnki verulega. Það gerist yfirleitt ekki yfir lengra tímabil. Það hefur ekki gerst nema kannski yfir nokkur ár eins og þegar verður hrun eða mikið efnahagslegt áfall. Þegar litið er yfir lengra tímabil er yfirleitt vöxtur í raunlaunum þótt hann sé ekki mikill.

Það er bara hagfræðilegt mat hvort kerfið sé betra. Flestir hagfræðingar eru þeirrar skoðunar að það sé betra að vera með blandað kerfi gegnumstreymis og sjóðsmyndunar en leggja aðaláhersluna á annað kerfið eins og við höfum gert, þ.e. sjóðsmyndunarkerfið sem er orðið 140% af vergri landsframleiðslu, með því stærsta sem gerist í heiminum.