Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 17:48:01 (3032)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Herra forseti. Við ræðum nú frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í því eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum sem hægt er að flokka upp í þrennt, í fyrsta lagi tekjuöflunarleiðir, þ.e. skattahækkanir eins og almenningur þekkir það hugtak best, í öðru lagi breytingar á gjöldum í samræmi við kjarasamninga og í þriðja lagi er um að ræða hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.

Í bæði nefndaráliti mínu og í framsögu minni mun ég fyrst og fremst fókuserað á annars vegar tekjuöflunarleiðirnar og hins vegar þessar verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins og hvernig þær hafa áhrif á hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám sem síðan leiðir til hækkunar verðlagsvísitölunnar.

Ef við byrjum á tekjuöflunarleiðunum eða þessum skattahækkunum sem frumvarpið boðar er um að ræða tvenns konar skattahækkanir, í fyrsta lagi er verið að framlengja auðlegðarskattinn sem átti að taka enda núna um áramótin og búa til viðbótarskattþrep. Þetta viðbótarskattþrep á að skila ríkissjóði um 1,5 milljörðum á næsta ári, en gert er ráð fyrir að allur auðlegðarskatturinn skili ríkissjóði um 7 milljörðum þannig að þetta er mjög mikilvægur skattstofn fyrir ríkissjóð.

Ég hef ekkert út á þennan auðlegðarskatt að setja og minni bara á gríðarlega eignatilfærslu frá bæði skattgreiðendum og skuldsettum heimilum til fjármagnseigenda í gegnum annars vegar fulla innstæðutryggingu og hins vegar verðtrygginguna. Slík eignatilfærsla gerist alltaf eftir bankahrun en hún hefur verið mun meiri hér á landi vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki fallið frá fullri innstæðutryggingu eins og til dæmis tælensk stjórnvöld neyddust til að gera eftir sitt bankahrun. Tælensk stjórnvöld sáu fram á að ríkissjóður gæti ekki tekið á sig fulla innstæðutryggingu þegar minni bankarnir, eins og sparisjóðirnir, fóru að falla í kjölfarið á gjaldþroti viðskiptabanka.

Síðan búum við við sérstakt fyrirbæri sem heitir verðtrygging sem hefur gert það að verkum að skuldir heimilanna hafa hækkað gífurlega vegna gengisfalls krónunnar og verðlagsáhrifa þess. Yfirleitt í löndum þar sem verður bankahrun og í kjölfarið gengishrun leiðir verðbólgan til þess að skuldir heimila og fyrirtækja léttast að raungildi vegna þess að þessar skuldir eru yfirleitt með óverðtryggðum vöxtum sem eru fastir í ákveðinn tíma. Eignatilfærslan hefur verið mjög mikil á Íslandi í kjölfar bankahrunsins og ég styð þar af leiðandi allar skattatillögur sem miða að því að færa þessa eignatilfærslu til baka, m.a. til þeirra sem eru skuldsettir í formi sérstakra vaxtabóta sem voru innleiddar á þessu ári og annarra millifærslna.

Það er önnur skattahækkun í þessu frumvarpi og hún felst í því að frádráttarbært iðgjald í séreignarsparnaðarsjóði á að lækka úr 4% í 2%. Þessi lækkun á bara að vera tímabundin, í þrjú ár. Niðurfellingin mun skila ríkissjóði 1,4 milljörðum í viðbótartekjum en það sem mér finnst gagnrýnisvert við þessa tillögu er að hún er tímabundin og flækir þar af leiðandi skattkerfið. Aukið flækjustig þýðir yfirleitt að skattgreiðendur eiga erfitt með að átta sig á hinni raunverulegu skattbyrði eða hvað það er sem þeir eiga að greiða í skatt, og þá hvenær.

Ég hafði, eins og margir aðrir, áhyggjur af því að í frumvarpinu var ekki tryggt að launþegar áttuðu sig á þessari breytingu þannig að margir mundu komast að því eftir áramót að þeir þyrftu í raun og veru að borga tekjuskatt af iðgjaldagreiðslu sem væri umfram 2%, ekki bara við inngreiðslu heldur líka við útgreiðslu og að fólk yrði með öðrum orðum allt of seint til þess að forðast þessa tvískattlagningu.

Herra forseti. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur brugðist við þessari gagnrýni og lagt fram breytingartillögu sem miðar að því að koma í veg fyrir að fólk gái ekki að sér og borgi 4% iðgjald ómeðvitað um að það þurfi að borga tekjuskatt bæði af inngreiðslu og útgreiðslu seinna meir. Það sem hefur gerst eftir hrun, samkvæmt upplýsingum sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd fékk frá fjármálaráðuneytinu, er að þeim hefur fækkað sem greiða í séreignarsjóði. Skýringin er sú að hér hefur atvinnuleysi aukist og fólk hefur því margt hvert einfaldlega ekki haft efni á að greiða þennan viðbótarsparnað. Þessi breyting á frádráttarbærni iðgjalda mun jafnframt draga úr þessum sparnaði á næsta ári og næstu þremur árum eða á meðan hún er við gildi. Það vekur upp spurningar um getu sjóðsmyndunarkerfisins til að tryggja öllum viðunandi lífeyri. Þá megum við ekki gleyma því að ávöxtun lífeyrissjóðakerfisins eftir hrun hefur ekki verið nema um helmingur þeirrar ávöxtunarkröfu sem nauðsynlegt er að sjóðirnir nái til þess að geta staðið við gefin loforð um lífeyri sem nemur 56% af meðaltekjum sjóðfélaga yfir starfsævina.

Við slíkar aðstæður eigum við að velta fyrir okkur hvort það sé, til lengri tíma litið, hagstætt að hvetja launþega til að auka viðbótarsparnað sinn.

Þess má líka geta að ákveðnar vísbendingar eru um að vaxtakostnaður ríkissjóðs sé hærri en sem nemur þessari ávöxtun lífeyrissjóðanna. Í séreignarsparnaðarsjóðunum er þá skattfé almennings sem ber ávöxtun sem er minni en vaxtakostnaður sem ríkið þarf að greiða af því að taka lán í stað þess að skattleggja strax iðgjaldagreiðslur í sjóðina. Við slíkar aðstæður er það óhagkvæmt fyrir skattgreiðendur að skattleggja ekki inngreiðslur í lífeyrissjóði að fullu og nota þá skattinn til að fjármagna annaðhvort hallann eða í okkar tilfelli til að greiða niður skuldir.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að nú sé rétti tíminn til að draga úr hvatanum til að leggja meira inn í sjóðsmyndunarkerfið og leggja þess í stað meiri áherslu á gegnumstreymiskerfið. Eina réttlætingin fyrir því að hafa sjóðsmyndunarkerfi er að ávöxtun kerfisins sé meiri en sem nemur hækkun raunlauna. Þegar raunlaun hækka aukast skatttekjur ríkissjóðs og hann ræður þar af leiðandi við aukna lífeyrisgreiðslubyrði.

Við hv. þm. Atli Gíslason leggjum til breytingu á þessu ákvæði um frádráttarbært iðgjald. Í stað þess að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu, um að iðgjaldagreiðsla upp að 2% sé frádráttarbær, viljum við að iðgjaldið sé skattlagt við inngreiðslu, þ.e. að enginn frádráttur sé á þessari greiðslu. Við gerum ráð fyrir að þessi breyting muni færa ríkissjóði um 1,4 milljarða í viðbótartekjum. Við erum líka þeirrar skoðunar að tillaga okkar einfaldi skattlagningu iðgjalda í séreignarsparnaðarsjóði. Í nefndarálitinu er það gagnrýnt að sú tillaga að lækka frádráttinn niður í 2% bara í þrjú ár flæki skattkerfið óþarflega mikið.

Tillaga okkar er leið til þess að koma til móts við þessa gagnrýni, en við leggjum jafnframt áherslu á mikilvægi þess að eigendur séreignarsparnaðar séu ekki tvískattaðir. Einhver trygging verður að liggja fyrir því af hálfu stjórnvalda að þegar kemur að útgreiðslu, eftir að búið er að skattleggja inngreiðslu, verði ekki tekinn upp skattur á útgreiðsluna.

Herra forseti. Við, 3. minni hluti, hv. þingmaður og sú sem hér stendur, lögðum fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að ríkissjóður hætti frestun skatts fram til útgreiðslu úr séreignarsparnaðarsjóðum og skattlegði ekki bara það sem kemur inn í sjóðina heldur líka þá upphæð sem safnast hefur fyrir í sjóðunum. Við leggjum til í breytingartillögum okkar, bæði við fjárlagafrumvarpið og það frumvarp sem við ræðum núna, að við hefjum skattgreiðslur á inngreiðslur og gerum það með því að skattleggja líka höfuðstólinn, það fjármagn sem er nú þegar inni í sjóðunum. Síðan væru útgreiðslurnar ekki skattlagðar.

Skattlagning á því fjármagni sem hefur safnast upp í sjóðunum hefði tryggt ríkissjóði 86,3 milljarða í viðbótarskatttekjur. Þessar skatttekjur hefði verið hægt að nota til að standa vörð um grunnþjónustu velferðarkerfisins og til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ég minni á að stjórnarliðar samþykktu, þegar við vorum hér í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið, að Landspítalanum bæri að skera niður á næsta ári um 440 milljónir þrátt fyrir að fyrir lægju upplýsingar um að leggja þyrfti niður deildir og skerða þjónustu við sjúklinga. Þetta er ekki alveg í samræmi við þau loforð sem norræna velferðarstjórnin gaf hér vorið 2009, um að hún mundi standa vörð um grunnvelferðarþjónustuna, og þar af leiðandi finnst okkur óskiljanlegt hvers vegna ekki var á einhvern hátt leitast við að ná í þetta fjármagn sem ríkissjóður á í lífeyrissjóðunum til að tryggja meðal annars óbreyttan rekstur Landspítalans á næsta ári.

Sú ákvörðun að láta Landspítalann skera niður um 440 milljónir á næsta ári er enn ein staðfestingin á því að hin svokallaða norræna velferðarstjórn hefur fyrst og fremst forgangsraðað í þágu fjármagnseigenda en ekki staðið við loforð um að tryggja óbreytta grunnvelferðarþjónustu.

Herra forseti. Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til 3,5% hækkanir á fjárhæðarmörkum tekjuskattsstofnsins í upphafi árs 2012. Þessi fjárhæðarmörk hefðu átt að hækka ekki bara um 3,5% heldur 8% ef farið hefði verið að lögum um tekjuskatt, en í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um hvernig eigi að hækka þessi fjárhæðarmörk. Þar segir að þau eigi að hækka í samræmi við hækkun launavísitölu á síðustu 12 mánuðum. Hækkun launavísitölunnar á síðustu 12 mánuðum hefur verið um 8% en ekki 3,5%. Ég er mjög ósátt við að ekki sé farið að lögum og notuð lægri prósenta til að hækka skatta á almenningi. Þetta er leið sem slær ryki í augun á þeim sem ekki eru mjög vel að sér í skattlagningu. Hún felur það í sér að fólk fer núna upp í hærra skattþrep á lægri tekjum en það hefði annars gert. Þetta þýðir að verið er að þyngja skattbyrðina.

Við hv. þm. Atli Gíslason höfum lagt fram breytingartillögu sem tekur undir breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem felur í sér að fjárhæðarmörkin fyrir fyrsta þrepið hækki um 9,8% eða að menn fari ekki upp í hærra skattþrep, ekki upp í 40,21% skatt, fyrr en þeir eru komnir yfir 230 þúsund á mánuði.

Við fögnum þessari breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess að hún er í samræmi við lögin, a.m.k. hvað varðar þessi fjárhæðarmörk. Breytingartillagan kemur líka til móts við gagnrýni frá meðal annars Öryrkjabandalagi Íslands og verkalýðshreyfingunni um að mjög mikil þörf sé á að hækka viðmiðunarmörkin, þ.e. þessi fjárhæðarmörk, fyrsta þrepsins.

Ég vara við því að teknar séu svona geðþóttaákvarðanir varðandi hækkun fjárhæðarmarka, þá með það að markmiði að villa fyrir skattgreiðendum hvað varðar skattahækkanir. Ég legg því til ásamt Atla Gíslasyni að þessi fjárhæðarmörk fyrir annað og þriðja þrep hækki, ekki bara um 3,5% eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu heldur um 8% þannig að farið verði að lögum.

Við hv. þm. Atli Gíslason leggjum líka til að tekið verði upp nýtt skattþrep við fjárhæðarmörkin 1.200 þúsund á mánuði, að tekjur sem nema 1.200 þúsundum og þar yfir beri þá 49% tekjuskatt. Samkvæmt minnisblaði fjármálaráðuneytisins frá 7. desember sl. mundi slíkur skattur auka skatttekjur ríkissjóðs um 530 milljónir og við leggjum til að sú fjárhæð, þessar 530 milljónir, verði þá notuð til að hækka fjárhæðarmörk fyrir annað og þriðja þrep. Samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins kostar hækkun fjárhæðarmarkanna um 8% en ekki bara 3,5%, um 500 milljónir þannig að við hv. þm. Atli Gíslason erum í raun og veru að leggja til fjármögnun á þessari hækkun fjárhæðarmarkanna.

Að vísu hefur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar hækkað fjárhæðarmörkin fyrir fyrsta þrepið meira en þessir útreikningar gerðu ráð fyrir þannig að þetta kostar meira en 500 milljónir. Því miður vannst ekki tími til að fá nákvæma útreikninga á því hvað tillaga okkar kostar. Það er kannski eitt af því sem farið er að fara mjög í taugarnar á mér sem hluta af minni hluta hér á þingi, þ.e. hversu erfiðlega gengur að ná út úr stofnunum framkvæmdarvaldsins nauðsynlegum upplýsingum fyrir okkur í minni hlutanum til að gera raunhæfar breytingartillögur við frumvörp ráðherra og breytingartillögur meiri hluta nefnda.

Herra forseti. Ég held að það sé orðið mjög tímabært að Alþingi komi sér upp rannsóknastofnun sem getur séð um þessi verkefni fyrir minni hlutann. Það er ekki gert ráð fyrir því að þingmenn hafi einhverja sérstaka menntun þegar þeir koma hingað inn, heldur eiga allir að geta komið hér inn sem fulltrúar þjóðarinnar og staðið jafnfætis við gerð breytingartillagna og nefndarálita en ég tel að svo sé ekki á meðan þingið hefur ekki þá nauðsynlegu þjónustu sem til þarf til að hægt sé að skoða ýmsar útfærslur á breytingartillögum. Ég vil alls ekki að neinn haldi að ég sé að gagnrýna starfsfólk þingsins eða framkvæmdarvaldsins, það er ekki það sem ég er að gera, heldur ákvarðanir okkar um að skera alltaf við nögl framlög til Alþingis og treysta á að hlutirnir bjargist bara. Ég tel að það sé ekki gott fyrir lýðræðið að við búum við mjög litla sem enga sérfræðiþjónustu á þingi, aðallega vegna þess að við höfum ekki sett fjármagn í það, ekki vegna þess að við höfum ekki nógu gott starfsfólk.

Herra forseti. Ég er hér að ræða breytingartillögur okkar hv. þm. Atla Gíslasonar. Við leggjum til að fjárhæðarmörkin í þrepunum verði hækkuð, ekki bara um 3,5% heldur 8%, og að tekið verði upp nýtt skattþrep við 1,2 milljónir á mánuði og að tekjuaukinn af þessu nýja skattþrepi, þar sem skattprósentan er 49%, verði notaður til að fjármagna þessa hækkun úr 3,5% í 8%.

Ég ætla aðeins að fara í gegnum réttlætinguna fyrir því að taka upp fjórða skattþrepið því að ég verð örugglega gagnrýnd fyrir að vilja flækja skattkerfið enn meira, en þá bendi ég á að þetta þrep á ekki við um mjög marga skattgreiðendur.

Ég tel síðan að ein mikilvæg réttlæting fyrir nýju skattþrepi séu meðal annars upplýsingar sem eru að koma frá Hagstofu Íslands um þróun launa frá 2010. Hagstofan var að gefa út upplýsingar um hvernig laun hafa þróast milli þriðja ársfjórðungs á síðasta ári og þriðja ársfjórðungs á þessu ári. Þar kemur í ljós að laun, sérstaklega sérfræðinga, hækkuðu einna mest, þ.e. 9,6%, og þessi launahækkun var mest í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum. Þar hækkuðu launin um 10,7% á meðan laun hækkuðu almennt ekki nema um 4% í öðrum geirum. Það á sér stað ákveðið launaskrið meðal þeirra sem eru með hæstu tekjurnar, a.m.k. samkvæmt þessum upplýsingum. Þetta er einmitt það sem gerist alltaf í kjölfarið á bankahruni. Reyndar er þróunin tvískipt, fyrst eftir að bankahrunið verður tapast mörg mjög vel launuð störf þannig að launamunurinn milli starfa karla og kvenna dregst saman í eitt til tvö ár en síðan fer hann að aukast aftur. Það sem einkennir fjármálakreppu er yfirleitt aukinn launamunur.

Ég tel að þessar vísbendingar um aukinn launamun milli stétta og milli karla og kvenna réttlæti þetta fjórða skattþrep. Með því að setja þetta fjórða skattþrep á þá sem eru með mjög há laun, a.m.k. miðað við meðaltekjur í landinu, sem eru ekki nema um 380 þúsund á mánuði, mun draga að einhverju leyti úr þessu launaskriði. Þetta er að minnsta kosti viðleitni eða skilaboð frá stjórnvöldum um að launaskrið í efsta tekjuhlutanum sé óásættanlegt.

Önnur réttlæting fyrir fjórða skattþrepinu, eða skattþrepum bara almennt, sem sagt mishárri skattprósentu eftir því hvað menn eru með miklar tekjur, gengur út á að eftir því sem tekjurnar eru hærri þeim mun auðveldara er fyrir menn að greiða hærri skatt. Það kostar ákveðið að lifa og neysluviðmið velferðarráðuneytisins hafa sýnt okkur að það er mjög dýrt að búa á Íslandi. Kostnaðurinn er hátt í meðallaunin fyrir einstakling en þegar tekjur eru komnar yfir meðallaunin nota menn lægra hlutfall af viðbótartekjunum í framfærslu. Fólk hefur eitthvað afgangs til að spara og það er réttlæting fyrir því að hafa skattþrep, misháan skatt, að menn eru farnir að spara og orðnir aflögufærir og ríkið getur þar af leiðandi tekið meira af þeim í skattgreiðslur.

Það er hægt að ná fram tekjujöfnuði með skattþrepum en það er líka hægt að gera það með persónuafslætti og sömu skattprósentunni. Þrepin tryggja þó meiri jöfnuð en kerfið sem við höfðum fyrir hrun. Það tel ég vera eitt af afrekum þessarar ríkisstjórnar að hafa aukið þennan tekjujöfnuð í skattkerfinu, eitt af því sem ber að fagna varðandi þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur farið í eftir hrun.

Herra forseti. Ég vil ljúka þessari umfjöllun minni um frumvarpið með því að ítreka við meiri hluta hv. stjórnarliða að nauðsynlegt sé að taka á svartri atvinnustarfsemi. Þetta er nokkuð sem ég tók ekki á í sjálfu nefndarálitinu en nauðsynlegt er að vekja athygli á. Gerð var úttekt nýlega, samstarfsverkefni ríkisskattstjóra og aðila vinnumarkaðarins, sem leiddi í ljós að ríkið verður á hverju ári af rúmum 6 milljörðum og sveitarfélögin 1,6 milljörðum vegna svartrar vinnu í hagkerfinu. Það eru viss vonbrigði að stjórnarliðar skuli ekki gera neinar tillögur um hvernig draga eigi úr svartri atvinnustarfsemi.

Ef það yrði gert væri hægt að ná í þær skatttekjur í stað þess að vera alltaf að þyngja skattbyrðina á þeim sem láta sér ekki detta í hug að svindla undan skatti eða hafa ekki aðstöðu til þess. Ég hvet að lokum stjórnarliða til þess að íhuga hvort ekki sé rétt við 3. umr. að koma með einhverjar breytingartillögur sem tryggja að erfiðara verði fyrir bæði lítil og meðalstór fyrirtæki og launafólk að svindla undan skatti með því að vinna svart.