Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 18:46:47 (3042)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það skipti miklu máli fyrir okkur að ríkissjóður var skuldlaus þegar kreppan reið yfir. Það er sannarlega rétt að það hefði verið okkur miklu þungbærara ef ríkissjóður hefði verið mjög skuldsettur. Hins vegar leiddi kreppan til þess að ríkissjóður varð mjög skuldugur. Við vitum alveg að það eru ekki til neinar barbabrellur til að taka á slíkum vanda. Þar þarf að grípa til margháttaðra aðgerða. Klassískt má segja að úrræði hins opinbera við þær aðstæður, þegar þarf að brúa gatið á ríkisfjárlögunum, sé að auka tekjurnar, hækka skatta, skera niður útgjöld eða taka lán. Við þær aðstæður sem við vorum í á þessum tíma (Gripið fram í.) var aukin lántaka ekki í boði og ekki möguleg þannig að við þurftum að grípa til þess að auka tekjur og/eða draga úr útgjöldum. Þarna var farin ákveðin blanda af þessum tveimur leiðum.

Almennar kenningar í hagfræði segja okkur að neikvæðu efnahagslegu og þjóðhagslegu áhrifin af því að hækka skatta um tiltekna upphæð séu minni við það en að draga úr útgjöldum hins opinbera um samsvarandi upphæð. Þetta er að vísu þannig að hægri menn vilja heldur leggja áherslu á niðurskurð opinberra útgjalda. Ég tel (Gripið fram í.) að það hafi verið óhjákvæmilegt fyrir okkur að fara bæði í hækkun skatta og draga úr útgjöldum með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerði. Hér er talað mikið um að stækka kökuna, að sjálfsögðu er það líka gott en það gerum við ekki bara eins og hendi sé veifað. Það er tálsýn hjá sjálfstæðismönnum sem koma hér iðulega og tala um að í því (Forseti hringir.) felist lausnin á vandanum. Við verðum að taka á hinum (Forseti hringir.) praktíska vanda eins og hann er þegar við erum að takast á við hann.