Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 19:39:39 (3044)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður minntist á sérstakar vaxtabætur og að það væri ekki stórmannlegt af lífeyrissjóðunum að hlaupa frá því samkomulagi. Hann nefndi að þetta hefði góð áhrif vegna þess að það mundi styrkja eignasafn lífeyrissjóðanna. Þetta kemur nokkuð á óvart vegna þess að hér er um vaxtabætur að ræða, menn ætla til dæmis ekki að færa niður lánin eða neitt slíkt, þetta eru fyrst og fremst bætur sem nýtast í einhvern tíma en skuldastaða fólks verður eftir sem áður slæm.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hv. þingmann hvort það valdi honum ekki áhyggjum að menn fari í slíka aðgerð sem er fyrst og fremst skammtímamál en ekki langtímamál.

Síðan er hitt sem við hin og náttúrlega allir þurfa að taka afstöðu til og það snýr að prinsippum. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að lífeyrissjóðir séu skattlagðir með þessum hætti? Ef við opnum á það eru engin takmörk í sjálfu sér fyrir því hvernig menn ganga fram í skattlagningu á lífeyrissjóði. Annað sem er augljós vankantur í málinu er að þetta verður fyrst og fremst og eingöngu skattur á almennu lífeyrissjóðina og þar af leiðandi lífeyrisþega sem fá greiðslur úr þeim sjóðum vegna þess að réttindi einstaklinga í opinberu sjóðunum eru lögbundin. Í ofanálag er einungis skattlagður samtryggingarhlutinn en ekki séreignarhlutinn. Ég spyr hv. þingmann (Forseti hringir.) um afstöðu hans til þessara tveggja þátta.