Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 13. desember 2011, kl. 22:11:57 (3081)


140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og vandaða ræðu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður minntist á, hann kom víða við í ræðu sinni, það verður ekki tekið af honum.

Hér hefur mikið verið talað um velferð og velferðarstjórnir, norrænar velferðarstjórnir og slíkt, og sitt sýnist hverjum. En hér hefur verið kyrjuð mantra í dag af stjórnarliðum þar sem taldir eru upp ýmsir hópar sem hafa það miklu betra núna en þeir höfðu áður. Í því samhengi hefur verið talað um að velferðarútgjöld hafi aukist gríðarlega.

Stjórnarliðum hefur þó nokkuð oft verið bent á að til velferðarútgjalda teljast atvinnuleysisbætur og samkvæmt þeirri hugmyndafræði er það þannig að því fleiri sem eru atvinnulausir þeim mun meiri verða útgjöld til velferðarmála í landinu.

Þegar við tökum við stjórnartaumunum og atvinnuleysi fer að minnka verður þá hugsanlega talað um að við séum að skerða velferð með því að taka fólk af atvinnuleysisskrá og koma því í vinnu? Verður það hugsanlega álitinn stórkostlegur niðurskurður í velferðarútgjöldum og verður þá hægt að segja um okkur að við viljum ekki alla þá velferð sem vinstri flokkarnir hefðu viljað?