Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 12:46:51 (3111)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn því að hún er mjög mikilvæg í ljósi þess sem er að gerast núna með þessu frumvarpi. Ég hef alltaf tekið undir hugmynd sjálfstæðismanna að ríkið færi inn í þær skatttekjur sem væru í séreignarsparnaðinum og mundu nýta þær eins og þingmaðurinn kom inn á, enda er það að sjálfsögðu jafnræðið sem fer þar fram, því þetta eru fyrir fram greiddar skatttekjur til ríkisins af þessum sparnaði. Og þá er ekki þetta ójafnræði sem á sér stað núna í þeirri leið sem ríkisstjórnin er að leggja til í frumvarpinu, að fara inn í almennu lífeyrissjóðina og taka þar út 1,2 milljarða næstu tvö ár til að dreifa jafnt á alla, því að ég minni á að það á að fara inn í opinberu lífeyrissjóðina líka en þeir eru með ríkisábyrgð, þannig að þeir verða jafnsettir eftir þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar. En ég minni á að það er ójafnræði innan lífeyrissjóðanna sjálfra vegna þess að það eru ekki allir sem hafa greitt í lífeyrissjóði og eiga þarna inneignir, sem eiga íbúðarhúsnæði eða eru orðnir skuldlausir að fullu. (Gripið fram í.) Þannig að ég vara við þessu, þarna er um mikið ójafnræði að ræða.

Það virðist vera með þessa verklausu ríkisstjórn að það er alveg sama hvaðan góðar, skynsamlegar og þjóðhagslega hagkvæmar tillögur koma, ríkisstjórnin getur ekki hugsað sér að nýta þær.

Sú aðgerð að leggja það til að draga núna úr hvatanum til sparnaðar með því að fara að skattleggja önnur 2% af þeim 4% sem fólk getur greitt inn í séreignarsparnaðinn er fráleit hugmynd. Bent hefur verið á að þetta væri hættulegt vegna tvísköttunar en þá er búið að snúa því við að nú þarf fólk að tilkynna það sjálft að það ætli að halda áfram með 4%. En svona skattlagning verður til þess að fólk hættir að spara og leggur í séreignarsparnaðinn bara þessi 2% sem eru skattfrjáls, enda var það (Forseti hringir.) grundvöllurinn með séreignarsparnaðinum að fresta þeim skattgreiðslum og þetta var raunverulega kaupauki (Forseti hringir.) fyrir viðkomandi.