Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 12:56:02 (3116)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki að mæla með auðlegðarskattinum, þvert á móti. Hins vegar finnst mér að hv. þingmaður hafi í rauninni komið fram með enn eina röksemdina fyrir því að ef menn í alvöru vilja þennan auðlegðarskatt, og menn ætla að gæta jafnræðis, verða menn að setja lífeyrisréttindi þar inn líka. Eins og hv. þingmaður nefnir, ef menn eru með lífeyrissjóð, sinn eigin lífeyrissjóð annars staðar eru menn búnir að greiða — segjum að menn hafi keypt sér fasteign, þá eru menn búnir að greiða tekjuskatt áður en þeir keyptu sér fasteignina. Það að setja síðan auðlegðarskatt á fasteignina er alveg sambærilegt við það þó svo að þeir sem eiga lífeyrisréttindi eigi eftir að taka þau út. Að vísu hafa menn sem eiga lífeyrisréttindi sjaldnast borgað fyrir þau, síst opinberir starfsmenn og stjórnmálamenn og aðrir, það hefur verið tiltölulega lágt hlutfall, í það minnsta hér áður. Við sem yngri erum greiðum hærra hlutfall inn í lífeyrissjóðina, en það er aukaatriði.

Aðalatriði málsins er að hér erum við með skatt af eignum, það tíðkast hvergi annars staðar í heiminum að þetta sé gert svona. Eftir að þýski stjórnlagadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að þetta samræmdist ekki þýsku stjórnarskránni 1991 — (Forseti hringir.) virðulegi forseti?

(Forseti (ÞBack): Forseti getur ekki átt við klukkuna, hún hlýðir ekki skipunum. Það eru komnar 15 sekúndur fram yfir ætlaðan tíma. Hún sýndi tvær mínútur en átti að sýna eina mínútu.)

Virðulegur forseti. Ég get ekkert að því gert og er hérna í miðri ræðu þegar allt í einu er slegið í bjöllu og klukkunni breytt. (Forseti hringir.) Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta svolítið sérkennilegt.

(Forseti (ÞBack): Já, það er leitt til þess að vita en svona lætur klukkan stundum.)

Virðulegur forseti. Þetta hefur ekkert með klukkuna að gera. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Mínútan er útrunnin og vel það, hv. þingmaður. Það þýðir hvorki að deila við dómarann né klukkuna.) (Gripið fram í: Og ekki bjölluna.)

(Forseti (ÞBack): Og ekki bjölluna. Ég bið hv. þingmann að víkja úr ræðustólnum.)

Virðulegur forseti. Þetta er náttúrlega mjög undarlegt svo ég taki ekki dýpra í árinni. Þið munuð aldrei komast að því hvað ég ætlaði að segja stórkostlega hluti á þessari seinni mínútu.