Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 12:58:23 (3117)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt sem bilar víst aldrei hér í þinginu og það er sjálf bjallan, það er alveg einkennilegt. Ég var orðin mjög spennt að heyra rök þingmannsins um það að hverju þýski stjórnlagadómstóllinn komst árið 1991 en ég verð að reyna að botna það sem þingmaðurinn var að fara. Mér skildist á honum að þýski stjórnlagadómstóllinn hefði komist að því á umræddu ári að svona eignarskattur, eða auðlegðarskattur upp á íslensku, væri ólöglegur vegna tvísköttunar. Þingmaðurinn kinkar kolli. Þá er ágætt að geta botnað ræðu hans fyrst tíminn hans var búinn.

(GÞÞ: Það er eignarnám.) Ha? (GÞÞ: Það er eignarnám.) Já, að um eignarnám væri að ræða, ekki tvísköttun, vegna þess að þetta væru sannarlega eignir sem fólk væri — eðlilega er það eignarnám, ekkert annað.

Varðandi fyrri hlutann í ræðunni sýnir þetta nákvæmlega fáránleika auðlegðarskattsins en eins og við vitum hafa vinstri menn alltaf viljað stuðla að jöfnuði, að allir ættu að vera jafnir, enginn mætti skara fram úr og enginn mætti helst eiga neitt. Það er akkúrat þessi eignarnámsleið sem er verið að fara hér og miðað við rök þingmannsins er mjög eðlilegt að lífeyrissjóðirnir falli kannski undir þetta (Forseti hringir.) úr því að verið er að fara þessa leið vegna þess að sumir leggja sparnað sinn í til dæmis fasteignir eins og kom fram.