Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 15:53:40 (3132)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:53]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir málefnalega og góða ræðu í þessu frumvarpi sem við ræðum hér, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég hjó eftir einu sérstaklega sem þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni sem ég vil gera athugasemd við. Það eru orð hans um að í landinu væri hagvöxtur sem býr ekki til störf. Ég held að við getum deilt þeirri skoðun hvað varðar fjárfestingar að vissulega sé fullt tilefni til að slá í klárinn og gera betur, við náum kannski að koma inn á það hér á eftir, en staðreyndin er sú að atvinnuleysið í landinu hefur minnkað umtalsvert. Það var í kringum 9% þegar við komum út úr bankahruninu í byrjun árs 2009, er núna komið niður í um það bil 7%. Afleiðingarnar eru mjög skýrar. Núna fara 8 milljarðar kr. úr Atvinnuleysistryggingasjóði aftur inn í atvinnulífið til eflingar atvinnulífinu í landinu. Viðsnúningurinn er sömuleiðis mjög skýr ef við horfum á fjölgun starfa á þessu ári. Ef við horfum á fyrsta ársfjórðung 2011 fækkaði störfum hér um 1.500, á öðrum ársfjórðungi fjölgaði þeim hins vegar um 500 og á þeim þriðja sjáum við að fjölgun starfa er komin upp í 1.600. Ef við bara horfum á þetta ár er viðsnúningurinn yfir 3 þús. störf og munar þar um minna.

Vissulega þarf að gera betur, en ég held að það sé mikilvægt að við höldum því til haga að við erum klárlega á réttri leið, alveg eins og við erum á réttri leið með hagvöxtinn. Hann liggur á Íslandi í kringum 3,5%, 3–4%, og það er langt umfram það sem við sjáum að meðaltali í ríkjum OECD. Þótt við getum verið sammála um að við þurfum að gera betur í því að örva fjárfestingar í landinu eru batamerkin mjög skýr í efnahagsmálum okkar.