Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 15:55:47 (3133)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta andsvar. Mikið ósköp vildi ég geta verið sammála hv. þm. Skúla Helgasyni í þessu máli, en tölurnar eru ekki alveg svona. Það er alveg rétt að atvinnuleysið fór mest upp í rúm 9% í febrúar 2009. Við verðum að taka af því árstíðarleiðréttingarnar. Tökum bara nóvember núna, 7,1%, og nóvember 2009, 8%. Það eru rétt rúm 11 þús. manns sem mynda þetta 7,1% atvinnuleysi. Á þessum 36 mánuðum hafa yfir 6 þús. manns farið frá landinu vegna þess að það er ekki atvinna. Þegar menn velta fyrir sér þessum árangri, hvort hafi miðað úr 8% niður í 7,1%, verða menn að horfa til þeirra sem fóru, hvort nægur árangur hafi náðst þannig að það sé innstæða fyrir þeim orðum sem hv. þingmaður lét falla.

Ég held að það sé ekkert langt á milli mín og hv. þm. Skúla Helgasonar hvað varðar ýmsar áherslur í efnahagsmálum. Ég held að við gætum átt, og við höfum reyndar átt á vettvangi nefndar sem starfaði um grænt hagkerfi, gott samstarf sem meðal annars byggði á þeim skilningi að fjárfestingar atvinnulífsins væru grundvöllurinn fyrir því að hér yrði myndarlegt atvinnulíf. Það er það sem skiptir svo miklu máli.

Ég vara hv. þingmann við ársfjórðungstölum. Ef menn horfa bara á þær tölur sjá menn til dæmis að atvinnuvegafjárfestingin á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 7,7%. Ég hef ekki nefnt þá tölu svo mikið í umræðunni vegna þess að menn eiga að fara varlega í að draga of miklar ályktanir af tölum frá einstökum ársfjórðungum. Með þeirri aðferðafræði sem hv. þingmaður notaði ættu öll ljós að vera blikkandi.