Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 16:06:21 (3139)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði mig hvort ég hefði ekki áhyggjur af afstöðu stjórnvalda. Jú, ég hef það. Ég hef til dæmis áhyggjur af því hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur túlkað þær hagvaxtartölur sem hafa verið birtar. Ég hef áhyggjur af því andvaraleysi sem ég þykist merkja gagnvart þeim mikla vanda sem felst í því að fjárfestingarnar í atvinnuvegunum skuli ekki vera að fara upp. Ég hef áhyggjur af því að ekki sé búið að ná einhvers konar sátt um sjávarútvegsmálin. Ég hef áhyggjur af því að við notum ekki þau tækifæri sem svo sannarlega eru til staðar á Íslandi vegna þess að Ísland er land sem býr að svo miklum náttúruauðlindum og heilmiklum mannauði. Ég hef áhyggjur af því að við skulum ekki fjárfesta og búa þannig til störf. Það hljóta allir að vera sammála því.

Það hljóta allir að vera sammála því að hagvöxtur og kaupmáttaraukning verður að eiga sér styrkar stoðir sem byggja á fjárfestingu og aukningu í framleiðni.

Aukin einkaneysla stórskuldugra heimila er ekki grundvöllur undir hagvöxt og aukinn kaupmátt, herra forseti. (BJJ: Það er bara svoleiðis.)