Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 16:51:03 (3144)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við fengum einmitt yfirferð yfir það í morgun, atvinnuleysið, og hvernig það skiptist til dæmis á kyn og barnlaust fólk, þá sem eru með börn og hvað fólk er búið að vera lengi á atvinnuleysisskrá. Mér finnst ábyrgð okkar þingmanna, allra, ansi mikil. Ég hef reynt að setja mig í spor fólks sem er búið að vera atvinnulaust síðan í október/nóvember 2008 en mér tekst það eflaust ekki. Það eru skelfileg örlög sem þetta fólk hefur lent í vegna forsendubrests, það hafði ekkert gert af sér. Það hafði ekki slugsað í vinnunni eða neitt slíkt, fyrirtækið varð bara allt í einu gjaldþrota. Fólk lendir fyrirvaralaust í þessari stöðu og ríkisstjórn og Alþingi eru vanmáttug að bæta úr því. Það finnst mér mjög slæmt.

Ég mundi vilja að hv. þingmaður sem ég veit að er maður sátta ynni því fylgi í fjárlaganefnd að menn sköpuðu þær aðstæður að atvinna myndaðist á Íslandi, m.a. með auknum virkjunum og með því að létta skattálögum af fjármagni sem þarf til að skapa fjárfestingu sem þarf til að skapa atvinnu. Menn verða allir saman að reyna að ná þessu markmiði.