Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 16:59:00 (3148)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:59]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þessum kvöldfundi gætum við kannski tekið rammann og kvótakerfið í leiðinni, þá værum við búnir að bjarga þessu. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður ræddi í fyrri parti ræðu sinnar áðan um skattalega hvata, kom inn á endurgreiðslukerfi í kvikmyndum og fyrirbærið Allir vinna, sem er endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna. Mér finnst þessi tvö dæmi eitt það allra besta sem þessi ríkisstjórn hefur barist fyrir og ég mundi vilja ganga lengra í þeim efnum.

Ég vil þó leiðrétta einn misskilning sem mér fannst gæta í ræðu hv. þingmanns, um svokallað endurgreiðsluhlutfall. Endurgreiðsluhlutfallið fer aldrei yfir 20%, en hins vegar kemur það fram í frumvarpinu sem verður rætt síðar að stuðningur ríkisins í gegnum opinber framlög og endurgreiðsluna getur að hámarki verið 85% við einstaka verkefni. Meira um það síðar.

Allir vinna er ákveðinn varnarleikur á byggingarmarkaðnum. Við sjáum það hjá nýsköpunar- og sprotafyrirtækjunum að endurgreiðsla á þróunarkostnaði og það sem við reyndum í gegnum hlutabréfakaup einstaklinga í þessum áhugaverðu fyrirtækjum okkar er að hið opinbera getur stutt við ákveðna geira atvinnulífsins, en samt sem áður grætt um leið. Þá meina ég ekki bara eftir nokkur ár, heldur innan ársins. Við sjáum svo glögglega á fyrirbærinu Allir vinna, og sýnt hefur verið fram á það í endurgreiðslunni á kostnaði við kvikmyndagerð, að ríkið leggur í raun ekki út fjármuni fyrr en það hefur fengið fjármunina inn í kassann.

Að því leytinu til, eins sammála og ég er hv. þingmanni um að við verðum að gæta aðhalds í ríkisfjármálum, tel ég það réttlætanlegt í þessu tilviki að hafa rammann opinn í fjárlögunum vegna þess að ríkið leggur ekki út fjármuni fyrr en þeir eru (Forseti hringir.) komnir inn.