Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 17:01:10 (3149)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vék að því verkefni sem hæstv. ríkisstjórn hefur farið í og ég hældi henni fyrir og taldi hafa heppnast mjög vel, verkefninu Allir vinna.

Ég fór til Svíþjóðar um daginn og dvaldi þar í þrjár vikur. Þar er sú nýbreytni, miðað við að þar hafði að mörgu leyti verið nákvæmlega sama vandamálið, að stjórnvöld endurgreiða 20% af allri vinnu í kringum heimili. Fólk getur látið slá fyrir þig eða hvað sem er, fengið heimilishjálp, það skiptir engu máli. Þau fóru enn þá lengra. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér hvernig það var gert. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt fyrir okkur að fara enn lengra á þeirri vegferð sem við erum á, en þetta er eitt af þeim verkefnum sem hefur gengið mjög vel.

Hv. þingmaður kom inn á að við gætum hugsanlega leyst málefni sjávarútvegsins til viðbótar á sama kvöldfundinum. Kannski yrði hann þá að vera frekar langur, en allt í lagi með það, ég væri tilbúinn í það.

Ég bendi bara á þessa stöðu. Ég vék aðeins að því í ræðu minni áðan um sjávarútveginn og þá möguleika sem við höfum tapað þar. Ég bið hv. þingmann að hugsa um það þegar einn hæstv. ráðherra ekur ákvörðunina um heildaraflann. Hann þarf ekki að mæla fyrir þingsályktunartillögu og fá þingið til að samþykkja hana. Nei, hinir 62 bíða og segja: Hvað dettur hæstv. sjávarútvegsráðherra í hug að láta veiða mikið? Svo kemur einhver tilkynning sem hæstv. ráðherrann les af blaði og allir segja: Já, er það þetta? Auðvitað væri eðlilegra að breyta því þannig að hæstv. ráðherra, sama hver hann er á hvaða tíma, mælti fyrir þingsályktunartillögu og færði rök fyrir máli sínu. Við erum búin að glata niður stórkostlegu tækifæri til að skapa atvinnu, útflutningstekjur og gjaldeyri, sem við svo sárlega þurfum á að halda, með því að hafa ekki nýtt sjávarauðlindina meira á undanförnum árum, sérstaklega í þessu árferði. Þá hefðum við getað sparað miklu meira og linað þjáningar fólks, sleppt skattahækkunum og farið frekar (Forseti hringir.) í að skapa störf og verðmæti.