Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 18:35:42 (3158)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aðeins eina mínútu. Ég vænti þess að ég hafi tækifæri til þess að nota hana í friði fyrir hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni.

Hv. þingmaður kom inn á einkaneysluna og það rifjaði upp vondu kalla-kenninguna sem hann flutti áðan þar sem hann lýsti því hvernig þessi vonda ríkisstjórn leiki sér nú að því að skattpína sérstaklega blessaða neftóbakskallana, eins og hann kallaði þá.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann geri sér ekki grein fyrir því að þreföldun á neftóbaksneyslu frá aldamótum er ekki vegna þess að blessuðu neftóbakskallarnir taka svona mikið í nefið heldur hafa mælingar Lýðheilsustöðvar sýnt fram á að það eru fyrst og fremst ungir drengir sem nota neftóbakið til þess að taka í vörina. Hefur hv. þingmaður ekki fylgst með þessum málum?