Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 20:12:51 (3163)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er þannig með þær tillögur sem hér er verið að spyrja sérstaklega um að í fyrsta lagi gerðu flutningsmenn tillögunnar ráð fyrir niðurskurði að hluta til á móti þeim útgjaldaauka sem þar var. Að öðru leyti vísa ég til efnahagstillagna okkar í Sjálfstæðisflokknum sem liggja frammi á þinginu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við teljum að umsvifin muni aukast mjög með því að skjóta súrefni til atvinnulífsins og heimilanna í landinu með margvíslegum, margþættum aðgerðum. Meðal annars með því að lækka skatta en líka með því að ljúka skuldaúrvinnslunni sem hefur dregist úr öllu hófi, með því að koma af stað nýju framkvæmdaskeiði, með því að styðja við stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, með því að ljúka endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins þannig að við fáum sátt um grunnatvinnuvegina, og með því að tala skýrt um umhverfi atvinnustarfseminnar þannig að við endurheimtum traust á því umhverfi sem hún starfar í löðum við fram fjárfestingu.

Einn mikilvægur liður í þessu heildarplani væri auðvitað sá að afnema líka gjaldeyrishöftin sem allra fyrst. Það mun þurfa að taka á, það mun þurfa að skera niður. En við erum sannfærð um að það er röng leið að halda áfram enn og aftur, eins og verið er að gera í þessu máli, að hækka skatta. Það gengur einfaldlega ekki upp. Það ætti ekki að þurfa að benda á annað en það að skattbyrðin á Íslandi er orðin einna hæst meðal allra OECD-ríkjanna. Síðan er líka hitt, og væri ágætt að heyra viðhorf hv. þingmanns sem er hagfræðingur til þess, að það er rangt að hækka skatta í kreppu. Það er rangt.