Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 20:19:34 (3166)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hver afstaða hans er til þeirra breytingartillagna sem hér liggja fyrir við málið við 2. umr., hvort hann telji að þær séu til bóta almennt og málinu til framdráttar.

Í öðru lagi fagna ég því að hv. þingmaður viðurkennir það að núna í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar er það nýorðið svo að viðfangsefni okkar er ekki lengur efnahagshrun heldur vöxtur. En hvað segir Sjálfstæðisflokkurinn þá? Hann segir: Já, en þetta er ekki vöxtur eins og hann á að vera vegna þess að hann er drifinn áfram af því að ganga á sparnað. Þessi fullyrðing stenst enga skoðun. Frá hruni hefur sparnaður okkar í lífeyrissjóðakerfinu vaxið verulega. Sá nærri 4% hagvöxtur sem er á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs, og er gríðarmikill í samanburði við öll okkar helstu nágrannalönd, er ekki drifinn áfram af því að ganga á sparnað. Hann er drifinn áfram af 6,8% aukningu á útflutningi sem ég hefði hingað til talið að menn teldu heilbrigða forsendu hagvaxtar. Þó við höfum leyft fólki að sækja nokkuð í séreignarsparnað sinn hefur sannarlega ekki gengið á hann, því að séreignarsparnaðurinn hefur aukist frá hruni um 75 milljarða kr.

Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann hvernig hann geti sagt að tæplega 4% hagvöxtur sem meðal annars byggir á 6,8% aukningu í útflutningstekjum sé fólginn í því að gengið sé á sparnað þegar tölurnar sýna skýrt og ótvírætt að uppsöfnun í lífeyrissjóðunum hefur aukist um verulegar fjárhæðir frá hruni og séreignarsparnaðurinn hefur vaxið um 75 milljarða frá hruni. Hvernig göngum við þá á sparnað til að standa undir þessum hagvexti? Getur hv. þingmaður útskýrt þessar fullyrðingar?