Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 21:09:29 (3173)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir athyglisverða ræðu. Það virðist vera eins og þetta sé einhver mantra að nefna orðið „skattar“ sem oftast og menn haldi kannski að fylgið stígi og stígi í jöfnu hlutfalli við það. Ég held að almenningur sé ekki endilega sammála því. Flestir, og heimili og fyrirtæki, gera sér grein fyrir því að ástandið hefur verið þannig síðustu árin að menn hafa einfaldlega orðið að grípa til ýmissa aðgerða og mér finnst vægast sagt nokkuð glannalegt að fullyrða að 90–95% af þeim skattahækkunum sem gripið hefur verið til séu beinlínis í óhag fyrir almenning og þá sem verða fyrir því.

Mig langar að biðja hv. þm. Birgi Ármannsson að útskýra það aðeins nánar og spyr hann jafnframt hvort hann útiloki það að menn hafi þurft að grípa til tímabundinna skattahækkana eftir hrunið til að reyna að brúa eitthvert bil og hvort hann haldi það virkilega að menn hefðu með því að sleppa því náð að örva efnahagsumhverfið það mikið að það hefði nægt til þess að koma okkur í gegnum þetta.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hann hvort hann útiloki það að þurft hafi eftir þetta sama hrun að jafna með skattkerfisbreytingum hag almennings í landinu og verja þá sem verr voru staddir.

Í þriðja lagi væri þá ágætt og fróðlegt að heyra í örstuttu máli frá hv. þingmanni hvort honum finnist að skattar eigi eingöngu að vera tekjuöflunartæki eða hvort það megi hreinlega hugsa það líka til jöfnunar og þá stýringar á heilbrigðari lífsháttum.