Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 21:47:51 (3179)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmaður viti sem fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins svörin við þeim spurningum sem hann lagði fram. Það var vinnulagið hér, ég held svei mér í fyrra og öll árin þar á undan, að þar gegndi sú nefnd mjög veigamiklu hlutverki í að kanna tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, þ.e. hvaða forsendur lægju þar á bak við.

Nú bar svo við að ekki var óskað eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins skilaði fjárlaganefnd greinargerð um forsendur tekjuhliðar fjárlaga. Það er fáránlegt að við skulum ræða forsendur tekjuhliðar fjárlaga í dag þegar búið er að ákvarða útgjaldarammann. Þetta er svona svipað og ef fjölskyldan settist saman undir áramót og byrjaði að gera ráð fyrir því hverju hún ætlaði að eyða og giska svo á hver innkoman yrði. Ef það væri ekki nægilega gott mundu menn bara endurskoða einhverja hluta sem sneru að tekjuhlið heimilisins. Að sjálfsögðu eiga menn að byrja á hinum endanum, að sjá úr hverju við höfum að spila og hvaða möguleika við höfum þá til að mæta tilteknum kröfum þegar kemur að útgjaldarammanum. Hér er akkúrat farin þveröfug leið og það er fáránlegt, eins og hv. þingmaður benti á, að við skulum vera við 2. umr. sem snertir tekjuhlið fjárlaga fyrir næsta ár og búið er að afgreiða fjárlög sem lög frá Alþingi Íslendinga. Ef við sæjum einhverjar miklar skekkjur hér, og það eru vafalaust einhverjar skekkjur í þessu, hugsa ég að menn gætu lagt fram eitthvert frumvarp í þeim efnum en ég hefði haldið að þá þyrftu menn að leggja fram einhvers konar fjáraukalagafrumvarp fyrir næsta ár og þá værum við komin í dálítið ný vinnubrögð í þinginu.