Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 22:24:24 (3183)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem hún fór vítt og breitt yfir það umfangsmikla mál sem við ræðum hér.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvað henni þyki um þá stefnubreytingu sem mér sýnist að sé núna í störfum og stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég spyr hv. þingmann af því að hún var eitt sinn meðlimur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þingmaður þess flokks. Nú er ljóst samkvæmt þessu frumvarpi að ríkisstjórnin ætlar að spara sér um 400 millj. kr. samkvæmt umsögn Öryrkjabandalags Íslands með því að láta bætur almannatrygginga einungis hækka um 3,5%. Er þetta í samræmi við stefnu þess flokks sem hv. þingmaður gekk til liðs við á sínum tíma?

Ég hef aðeins verið að kynna mér stjórnarsáttmálann og þá stefnu sem grasrótin í Vinstri grænum hefur sett sem stefnumið síns flokks. Í ljósi þess að þetta eru breiðu bökin sem ríkisstjórnin ætlar að láta bera hrunið núna, þriðja árið í röð, spyr ég hvort þetta sé í samræmi við áherslu þess flokks sem hv. þingmaður gekk til liðs við á sínum tíma, í aðdraganda síðustu kosninga, og hvort þetta sé mögulega ein af ástæðum þess að hv. þingmaður hefur ásamt nokkrum fleiri þingmönnum gengið úr þeim flokki, þ.e. að hann hefur fjarlægst upphafleg stefnumið sín í samstarfi við Samfylkinguna í þessari ríkisstjórn.