Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 22:30:34 (3187)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að ræða um eignarréttinn sem hv. þingmaður sagði að væri ágætisleið til að fara fram hjá til að eyða upp innstæðum og skuldum. Ég minni á að samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem hv. þingmaður hefur svarið eið að, er eignarrétturinn friðhelgur, hvorki meira né minna. Eitthvað hlýtur að vera að marka eiðstaf hv. þingmanns.

Hv. þingmaður talaði töluvert um tekjujöfnun og tekjuöflun og það var áhugavert. Þetta eru náttúrlega tvö sjónarmið. Vinstri menn vilja stýra tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu í gegnum skattkerfið á meðan hægri menn vilja frekar gera það í gegnum bótakerfið og að skattkerfið sé notað til tekjuöflunar. Þetta er kannski meginmunurinn. En það sem ég hafði mestan áhuga á var umfjöllun hv. þingmanns um gegnumstreymi og söfnun í lífeyriskerfum. Þetta er þekkt fræðigrein í útlöndum og hér á landi kannski eitthvað líka þó að það sé minna. En það er ekki rétt að það dugi að hækka launin því af ef engin fjölgun er í lokuðu kerfi og menn eru með gegnumstreymi verður enginn til að sjá um gamla fólkið, hvorki í söfnun né gegnumstreymi. Það eina sem getur haldið þjóðfélaginu við vegna kynslóðasamningsins er að börn fæðist eða að fólk sé flutt annars staðar frá inn í þetta lokaða kerfi til að standa undir framfærslu hinna öldruðu. Það er nefnilega svo mikilvægt í kynslóðasamningnum að þar séu alltaf nýjar og nýjar kynslóðir. Það hefur ekkert að gera með hækkun á launum eða eitthvað slíkt nema menn ætli að láta róbóta taka að sér þjónustu við gamla fólkið sem líka væri möguleiki. Þá er spurning: Hver sér um róbótana?