Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 22:32:35 (3188)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum tekist ansi oft á um eignarréttinn. Því er þannig farið að hægt er að veita fólki eignarrétt á ákveðinni eign, sem var eign annarra áður. Síðan vilja menn leiðrétta það sem við köllum eignatilfærslu frá einum hópi til annars hóps.

Við ræddum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í morgun auðlegðarskattinn þar sem fram kom að hann gæti stangast á við eignarrétt þeirra sem greiða auðlegðarskattinn. En eignirnar sem verið er að greiða eignarskatt af voru að hluta til tryggðar að verðgildi af skattgreiðendum. Þær byggja ekki á launum sem eigendur þessara eigna fengu og keyptu eignirnar með, heldur eru þetta eignir, innstæður meðal annars, sem skattgreiðendur tryggðu að fullu eftir hrun. Þetta eru eignir sem fólk átti í peningamarkaðssjóðum og skattgreiðendur tryggðu að mestu leyti verðgildi þeirra eigna í sjóðunum.

Talandi um að það sé einhver tvísköttun í gegnum það að tekjurnar sem voru notaðar til kaupa eignirnar hafi verið skattlagðar er ekki rétt, vegna þess að hluti af þessum eignum var færður í hendur fólks í gegnum skattgreiðendur, í gegnum eignatilfærslu.

Ég viðurkenni það að þegar búið er að færa eign til fjármagnseigenda (Forseti hringir.) eiga þeir hana en það var óréttlætið sem fólst í því að færa eignina til fjármagnseigenda sem þarf að leiðrétta.