Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 22:34:55 (3189)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vona að hv. þingmaður hafi fylgst með tilraunum mínum til að koma með gegnsæi í hlutafélög við vandamálum sem mynduðust þegar menn notuðu sér veilu í hlutabréfaforminu þar sem menn gátu búið til eignir sem ekki voru til. Ég nefni bara gagnkvæmt eignarhald Exista og Kaupþings hvort í öðru sem bjó til 80 milljarða. Hafi einhver tekið þá ekki-peninga út og breytt þeim í alvörupeninga með því að leggja þá inn í banka er það eign sem varð til úr engu. En það er bara allt annað vandamál. Vandamálið felst í því að það er veila í hlutabréfaforminu sem menn hafa ekki lagað, hvorki hér né annars staðar, þetta er um allan heim. Það eru þeir peningar sem hv. þingmaður á væntanlega við en ekki þeir peningar sem fólk hefur lagt til hliðar í sveita síns andlitis og frestað neyslu á bílum og öðru slíku. Ég minni á að þegar ég kaupi bíl af einhverjum öðrum verður bíllinn eign mín þó að einhver annar hafi átt hann áður.