Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 23:35:12 (3202)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað fyrri spurninguna snertir er þetta kannski hluti af því að vera þátttakandi í Evrópska efnahagssvæðinu, verktakar koma og fara. Það vinna líka íslenskir verktakar í Noregi, t.d. er pípulagningarfyrirtæki þar með starfsemi og fólk sem vinnur hjá því er ekki atvinnulaust á Íslandi, það starfar ekki á Íslandi en er búsett á Íslandi og er því ekki hluti af atvinnuleysistölfræðinni. Þetta er bara eitthvað sem við búum við og að sjálfsögðu getur ríkisstjórnin ekki lofað störfum hjá austurrísku fyrirtæki, það hefur væntanlega Austurríkismenn í vinnu eða menn frá öðrum Evrópulöndum.

Varðandi seinni þáttinn, að menn telji að hagvöxtur vaxi með skattlagningu, þá lauk ég einmitt um þetta leyti í gærkvöldi ræðu minni með því að segja að ríkisstjórnin væri að gera gífurleg mistök með því að reyna að skattleggja þjóðina út úr kreppunni. Það væru mikil mistök þó að menn hafi náð niður verðbólgu og vaxtastigi o.s.frv., því að á meðan alger stöðnun ríkir og engar eru fjárfestingarnar skapast engin atvinna og atvinnuleysingjar eru áfram atvinnuleitandi. Við getum lent í ákveðnum vítahring stöðnunar og kyrrstöðu í marga áratugi ef ekki er tekið á þessu og búnar til forsendur fyrir því að hér skapist atvinna, einmitt með því að lækka skatta á lítil fyrirtæki þannig að þau fari að ráða fólk í staðinn fyrir að segja fólki upp.