Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 23:41:29 (3205)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Bændur þurfa eins og stjórnvöld að gera ráðstafanir til að búa sig undir veturinn. Nú hef ég svolítið miklar áhyggjur af því að það sé að skella á langur og erfiður vetur efnahagslega í kringum okkur og víða um heim og ekki sé verið að gera ráðstafanir í samræmi við það.

Hvaða ráðstafanir í ríkisfjármálum telur hv. þingmaður að hefði þurft að gera til að bregðast við ástandinu sem ríkir í Evrópu núna og blasir við að verði ríkjandi áfram næstu missirin og árin? Er hv. þingmaður til dæmis sammála mér um að við þær aðstæður hefði að sjálfsögðu þurft að nýta undanfarin ár til að koma af stað fjárfestingu á meðan viljinn var fyrir hendi? Við stöndum frammi fyrir þeirri hættu að minni áhugi verði á að fjárfesta á næstu árum. Þá er brýnt að láta reyna á þá möguleika sem enn eru til staðar ef við óttumst áframhaldandi samdrátt og efnahagskrísu, sem getur jafnvel breyst í mjög alvarlega samfélagslega krísu, við vitum ekkert hvar þetta endar. Eru aðstæður ekki að minnsta kosti slíkar að þær gefi fullt tilefni til að nýta hvert tækifæri sem gefst í stað þess að setja upp hindranir? Svo ég þjappi þessu öllu saman í eina stutta spurningu: Er ekki nauðsynlegt, sérstaklega við þær aðstæður sem við horfum nú fram á, að nýta tækifærin?