Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 23:43:37 (3206)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fylgst með hræringunum í Evrópu undanfarið og ég hef spurt nokkrum sinnum úr þessum ræðustól um stöðuna þar og fengið frekar ábyrgðarlaus svör vegna þess að menn hafa ekki gert sér grein fyrir að hún væri alvarleg. En nú er komið í ljós að staðan er mjög alvarleg. Ég ætla að vona að mönnum takist að bjarga evrunni fyrir horn og það er alls ekki vegna þess að ég vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu heldur vegna þess að það hefði hræðilegar afleiðingar fyrir okkur ef evran hryndi vegna þess að Evrópusambandið er stærsti viðskiptaaðili Íslands og mjög ófyrirséð hvað gerist ef ekki tekst að bjarga þessu. En ég vona að mönnum takist það. Evrópusambandið er að breytast mjög hratt og ég held að Merkel hafi einmitt sagt í kvöld að gerðar hefðu verið breytingar á Evrópusambandinu sem ekki væri hægt að bakka með. Það er búið að breyta Evrópusambandinu í eins konar ríki og gerðist það áratug fyrr en ég átti von á.

En varðandi hinar spurningarnar hef ég tekið eftir því á minni ævi að maður breytir ekki fortíðinni. Við getum ekki breytt því sem ríkisstjórnin hefur gert hingað til. Hins vegar eru að mínu mati fjöldamörg tækifæri eftir hrun, til dæmis til að reisa við fyrirtæki eða byggja upp ný en þá þarf líka að vera búið að laga forsendur hlutafélagalaga eins og ég hef margoft nefnt, breyta reglum um ársreikninga þannig að þeir gefi rétta mynd af fyrirtækjum og byggja þarf upp traust almennings á hlutafélagaforminu. Ef það tækist væru tækifærin fjölmörg. Ég minni bara á tækifærin hjá Landsvirkjun og í þeim geira, öll tækifærin sem við höfum í ferðaþjónustu, í sjávarútvegi og víðar. Ef menn setja ekki fram lausnir sem hreinlega skaða atvinnugreinarnar gætum við byggt upp mikla von og mikið traust á framtíðina.