Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 23:47:32 (3208)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel, í ljósi þeirra hræringa sem verið hafa í Evrópu síðustu tvo, þrjá mánuði — í þýskum fjölmiðlum hefur verið stríðsletur nánast á hverju einasta kvöldi, með einu tveggja vikna hléi einhvern tíma — hefðum við átt að bregðast við miklu fyrr við og ekki taka þessu af léttúð eins og þetta komi okkur ekkert við þó að við séum í skjóli gjaldeyrishafta. Við erum ekki í skjóli gjaldeyrishafta ef eitthvað alvarlegt gerist. Ég hef svo sem nefnt líka að menn þurfi að útbúa neyðaráætlun þó að ég telji litlar líkur og eiginlega engar á að eitthvað gerist en það getur varðað fæðuöryggi ef mjög illa fer. Menn þurfa að vera undir það búnir. Ætla menn að hamstra olíu og bensín? Landbúnaðurinn gengur kannski þrjár vikur eða tvær án olíu og bensíns, hið sama má segja um sjávarútveginn. Hvað svo? Hvað gerist ef greiðslukerfin hrynja, eins og lá við að gerðist í hruninu á Íslandi en neyðarlögin björguðu og það var kraftaverk. Ég vil helst ekki hugsa þá hugsun til enda hvað gerist ef menn geta ekki borgað matinn sinn, bankarnir lokaðir og allt eftir því.

Auðvitað þurfa menn að hafa neyðaráætlun fyrir slíkt. Ríkisstjórnin þarf auðvitað að gefa núna í, í ljósi þessara hræringa, og ekki bara horfa á og segja: Okkur kemur þetta ekkert við, þetta skiptir ekki máli. Þetta getur skipt verulegu máli og menn þurfa að vera undir það búnir. Og núna eru einmitt tækifæri eins og ég gat um áðan, heilmikil tækifæri. Við eigum miklar eignir og það sem við þurfum að gera er að sýna þjóðinni að við eigum þessar eignir og að það sé heilmikil von til þess að við vinnum okkur úr þeim vanda sem við erum í í dag og vinna úr þeim vanda sem hugsanlega steðjar að okkur frá Evrópusambandinu.