Fjársýsluskattur

Föstudaginn 16. desember 2011, kl. 14:17:50 (3419)


140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér göngum við til atkvæða um hinn svokallaða fjársýsluskatt sem ríkisstjórnin lagði fram fyrr á þessu hausti. Sá skattur var fráleitur að mati okkar framsóknarmanna. Sem betur fer hefur náðst að gera breytingar í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins til batnaðar á þessum skatti. Hann mun hins vegar bitna á smærri fjármálastofnunum og fjármálakerfinu almennt af því að launaskattur verður enn fyrir hendi. Þetta mun leiða til fækkunar á starfsfólki í starfsstétt þar sem 70% starfsmanna eru konur og svo talar hæstv. ríkisstjórn um kynjaða hagstjórn með sérstakar áherslur á kvennastéttir þannig að ég á erfitt með að sjá þetta ganga upp. Við framsóknarmenn munum því greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi en ég tel rétt að það komi fram að við teljum að taka þurfi til heildarendurskoðunar skattumhverfi fjármálafyrirtækja (Forseti hringir.) hér á landi í framhaldinu.