140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

355. mál
[11:46]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um tiltölulega einfalt mál þar sem einungis stendur eftir ein grein sem gengur út á að framlengja líftíma þeirrar ágætu eftirlitsnefndar sem félags- og tryggingamálanefnd lagði til að yrði sett á til að fylgja eftir þeim úrræðum sem voru lögfest. Það var meiningin að setja fleira inn í þessi lög en síðan náðist mjög gott samkomulag milli eftirlitsnefndarinnar og fjármálafyrirtækjanna. Þá var ekki ástæða til þess þannig að þessi grein stendur ein eftir.

Mig langar til að segja um ágæta tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, um að setja á fót starfshóp til að skoða tiltekna hugmynd, að mér finnst mjög eðlilegt að eftirlitsnefndin geti skoðað það mál sérstaklega og ástæðulaust að setja sérstakan starfshóp um það. Ég legg því til að við felum eftirlitsnefndinni enn frekara hlutverk með því að skoða þá ágætu tillögu sem hér liggur fyrir.