Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Laugardaginn 17. desember 2011, kl. 12:30:07 (3625)


140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ráðstafanir í ríkisfjármálum voru til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd milli umræðna. Um þau mál sem þar út af stóðu náðist samkomulag og við 3. umr. flytur nefndin breytingartillögur sem lúta að ráðstöfun tekna af veiðileyfum til verkefna sem getið er um í lögum um stjórn fiskveiða og má fyrst og fremst lýsa með því að þær mörkuðu tekjur sem renna áttu til tiltekinna verkefna munu í samræmi við fjárlögin renna þangað upp að ákveðnu marki en tekjur umfram það mark munu hins vegar renna í ríkissjóð í ljósi þeirra erfiðu viðfangsefna sem hann þarf að glíma við í sínum rekstri.

Þá flyt ég við þessa umræðu sem formaður nefndarinnar tvær breytingartillögur til viðbótar. Önnur þeirra lýtur að því að ekki verði af fyrirhugaðri hækkun á kolefnisgjaldi á innanlandsflugið. Allnokkrar kerfisbreytingar sem það varða eru fram undan auk þess sem ýmis gjöld eru að aukast í þeirri grein og þess vegna taldi ég rétt að hlífa innanlandsfluginu við þessum gjaldahækkunum þannig að ekki þurfi að koma til hækkana á farmiðaverði. Hins vegar er lagt til að ekki verði af verðlagshækkun á dísli á komandi ári en sem kunnugt er hefur aukist mjög verðmunurinn á bensíni og dísli dísilolíunni í óhag og þess vegna er þessi breyting lögð til.