Fjársýsluskattur

Laugardaginn 17. desember 2011, kl. 13:33:22 (3635)


140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna mistaka var í stjórnarfrumvarpi þessu ekki gert ráð fyrir því að unnt væri að draga launaskatt þennan frá gjöldum fyrirtækja, þ.e. 5,45% skattinn á launagreiðslur í fjármálafyrirtækjunum. Efnahags- og viðskiptanefnd gerir tillögu um að leiðrétta þetta og búa svo um hnútana að fyrirtækin geti fært þetta til kostnaðar eins og fyrirmynd er að og breytingin talin eðlileg og samrýmast líka því með hvaða hætti við förum í önnur launatengd gjöld í landinu.

Þá gerir nefndin ráð fyrir því að með aðkomu allra þingflokka verði þessi skattlagning endurskoðuð innan árs. Það er auðvitað ærið tilefni til þess því að meðal annars Evrópusambandið hefur tilkynnt um áform um nýja tegund skattlagningar á fjármálafyrirtæki. Mikil gerjun er á fjármálamörkuðum heimsins eins og menn þekkja og örar breytingar og full ástæða til að fara yfir þær, taka tillit til þeirra og móta skattumhverfi okkar til lengri tíma með sama hætti og gerist í helstu samkeppnislöndum.