Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 4  —  4. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um staðgöngumæðrun.



Flm.: Ragnheiður E. Árnadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Kristján L. Möller,


Siv Friðleifsdóttir, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson,
Einar K. Guðfinnsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarsson, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson,
Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólína Þorvarðardóttir,
Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Tryggvi Þór Herbertsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
    Við vinnuna verði m.a. lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu. Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra vestrænna þjóða lögð til grundvallar.
    Frumvarpið verði lagt fram svo fljótt sem verða má.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að velferðarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun á Íslandi í velgjörðarskyni. Tillaga þessi er lögð fram í annað sinn, en orðalagi hennar hefur verið breytt frá því er málið var fyrst lagt fram, á 139. löggjafarþingi. Málið varð þá ekki útrætt en var afgreitt jákvætt af meiri hluta heilbrigðisnefndar. Orðalag tillögunnar tekur mið af nefndaráliti og breytingartillögu sem meiri hluti heilbrigðisnefndar lagði fram fyrir 2. umræðu. Í áliti meiri hlutans, sem fylgir með tillögu þessari sem fylgiskjal, eru tiltekin ákveðin atriði sem lögð skyldi áherslu á við vinnu starfshópsins og frumvarpsgerð. Flutningsmenn taka undir athugasemdir meiri hlutans og leggja til að þær verði hafðar til hliðsjónar í störfum starfshópsins. Þau atriði sem m.a. þarf að huga að eru:
          Með hvaða hætti er hagur barnsins best tryggður og hvernig má setja í forgrunn þroskavænleg og kærleiksrík uppeldisskilyrði barnsins?
          Hver er réttur barnsins, m.a. til að þekkja uppruna sinn?
          Hvernig er velferð, sjálfræði og réttindi staðgöngumóður best tryggð?
          Þarf að uppfylla skilyrði til að fá að vera staðgöngumóðir?
          Hvernig er best komið í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og hvernig má tryggja að um velgjörð sé að ræða?           Hverjum á að vera heimilt að eignast/ættleiða barn með staðgöngumæðrun og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til slíks, svo sem hæfni til foreldrahlutverksins og saga um ófrjósemi?
          Þurfa verðandi foreldrar að fara í gegnum sérstakt ættleiðingarferli?
          Hvað gerist ef verðandi foreldrar skipta um skoðun á meðgöngutímanum?
          Á að setja skilyrði um að verðandi foreldrar og staðgöngumóðir séu íslenskir ríkisborgarar og/eða búsett hér á landi?
          Á að heimila að verðandi foreldrar greiði staðgöngumóður endurgjald fyrir útlögðum kostnaði af þungun?
          Með hvaða hætti skal orlof og fæðingarorlof staðgöngumóður og verðandi foreldra barnsins vera?
          Hvernig má tryggja góðar verklagsreglur um skipulag mæðraverndar með tilliti til staðgöngumæðrunar, svo sem að sami heilbrigðisstarfsmaður annist ekki parið sem á við ófrjósemi að stríða og staðgöngumóðurina?
          Hvernig má tryggja faglega afgreiðslu á umsóknum og leyfum sem og skýrt eftirlit og eftirfylgni með framkvæmdinni?
          Hvernig verður best stuðlað að opinni og upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í samfélaginu?
    Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, skipaði í janúar 2009 starfshóp til þess að fara yfir þau álitamál er tengjast staðgöngumæðrun frá öllum hliðum og þá m.a. staðgöngumæðrun gegn greiðslu og hefðbundna staðgöngumæðrun þar sem staðgöngumóðirin leggur einnig til eggfrumu. Starfshópurinn skilaði af sér áfangaskýrslu 5. febrúar 2010 og í framhaldinu stóð heilbrigðisráðherra fyrir málþingi um staðgöngumæðrun. Í lokaskýrslu starfshópsins var mælt gegn samþykkt staðgöngumæðrunar að svo stöddu, m.a. með þeim rökum að ekki hefði nægileg umræða farið fram í samfélaginu og að skýra þyrfti betur þau álitamál sem taka þarf afstöðu til. Í skýrslunni segir þó orðrétt um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni (4:3): „Konurnar geta til dæmis verið vinkonur, systur eða jafnvel mæðgur. Þá er gengið út frá því að allir aðilar sem að málinu koma, séu þátttakendur af fúsum og frjálsum vilja. Ekki er ástæða til að ætla að slíkt hafi neikvæðar afleiðingar.“ Flutningsmenn tillögunnar eru sammála því að vanda þurfi til verka við smíði frumvarps sem heimili staðgöngumæðrun af velgjörð og leggja þess vegna til það verklag að ráðherra skipi fjölbreyttan starfshóp sem fari einmitt yfir þau álitaefni sem um ræðir. Flutningsmenn telja ljóst að nægar upplýsingar séu tiltækar til þess að undirbúa vandaða frumvarpssmíð. Í tillögugreininni er ítrekað mikilvægi þess að stuðla þurfi að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í kjölfar þess að tillaga sama efnis var lögð fram á 139. löggjafarþingi spunnust miklar umræður innan þings og utan. Ýmis málþing hafa verið haldin um efnið og opnir fyrirlestrar frá ólíkum sjónarhornum. Engu að síður kom fram sú skoðun einstakra þingmanna að þörf væri á dýpri umræðu í samfélaginu jafnfram því að Alþingi gæfist betri tími til að fjalla um málið. Því varð að samkomulagi við þinglok að tillagan yrði lögð fram að nýju á 140. löggjafarþingi. Frumvarp samkvæmt tillögugreininni yrði síðan lagt fyrir Alþingi til umfjöllnar og gæfist þingmönnum þá enn tækifæri til þess að fjalla um það.

Staðgöngumæðrun.
    Hugtakið staðgöngumæðrun, eins og það er skilgreint í lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, felur í sér að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og að staðgöngumóðirin hafi fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu. Í umræðu um staðgöngumæðrun er annars vegar talað um hefðbundna staðgöngumæðrun (traditional or partial surrogacy) og hins vegar fulla staðgöngumæðrun (gestational surrogacy, full surrogacy). Hefðbundin staðgöngumæðrun er þegar staðgöngumóðir gengur með sitt eigið barn í þeim tilgangi að afhenda það erfðafræðilegum föður og konu hans eða sambúðaraðila. Full staðgöngumæðrun er hins vegar þegar hin þungaða kona hefur enga erfðafræðilega tengingu við barnið og það hefur verið getið með glasafrjóvgun. Staðgöngumæðrun sem úrræði fyrir barnlaus pör hefur verið stunduð frá örófi alda og þá sem hefðbundin staðgöngumæðrun. Einnig eru dæmi þess, bæði fyrr og síðar að kona gefi barn sitt til barnlausra kvenna eða para, oft vegna fjölskyldutengsla. Nútímastaðgöngumæðrun var fyrst framkvæmd í Bandaríkjunum í kringum 1980 en þróun staðgöngumæðrunar er nátengd þróun glasafrjóvgunar.

Þörfin fyrir staðgöngumæðrun.
    Þrátt fyrir gríðarlegar framfarir í læknavísindum með tæknisæðingu, glasafrjóvgun og aðferðum til að vinna á frjósemisvandamálum hefur þörfin fyrir staðgöngumæðrun ekki horfið. Til er hópur kvenna/para sem ekki á neinn möguleika til að eignast eigið barn nema með aðstoð staðgöngumóður. Ástæður þess geta verið fjölmargar, svo sem meðfætt legleysi, krabbamein í legi og ófrjósemi í kjölfar krabbameinsmeðferðar, svo og skemmdir á legi eða legnám. Þá getur einnig verið að líkami konu þoli ekki meðgöngu og líf hennar og barnsins yrðu í bráðri hættu reyndi hún að ganga sjálf með barn.
    Flestir þekkja þá gleði sem fylgir því að eignast barn og ljóst er að löngunin til þess að eignast barn er ein sú sterkasta sem maðurinn upplifir. Í litlu landi eins og Íslandi er hópur kvenna eða para sem þarf á aðstoð staðgöngumóður að halda ekki stór, en er þó til staðar. Í fyrrnefndri skýrslu vinnuhóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins segir að líklega muni ekki fleiri en fimm pör eða einstaklingar hér á landi hafa þörf fyrir staðgöngumæðrun ár hvert. Hugsanlega gæti orðið um færri tilvik að ræða.

Helstu siðferðileg álitaefni.
    Siðferðileg álitaefni vakna þegar rætt er um möguleikann á lögleiðingu staðgöngumæðrunar. Almennt eru menn neikvæðir gagnvart staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni út frá því sjónarmiði að verið sé að nota líkama konu í annarlegum tilgangi og einnig væri hægt að líta á slíka gjörð sem einhvers konar form af viðskiptum með börn. Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni hefur verið líkt við vændi og hugsanlegt er að konur sem búa við fátækt og þröngar félagslegar aðstæður gerist staðgöngumæður vegna slæmra aðstæðna. Flutningsmenn tillögunnar leggjast alfarið gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og telja mikilvægt að gerður sé skýr greinarmunur á hagnaði og velgjörð í þessu samhengi.
    Í tilfelli staðgöngumæðrunar af velgjörð er um að ræða góðverk kvenna og oft einhver tengsl milli verðandi móður og staðgöngumóður. Rannsóknir styðja ekki getgátur um ófúsa þátttöku kvenna í úrræðinu á Vesturlöndum en styðja frekar þá mynd að um jákvæða og gjöfula reynslu sé að ræða fyrir konur sem af fúsum og frjálsum vilja óska þess að ganga með barn, t.d. fyrir nána ættingja eða vini sem eru barnlausir. Hagsmunir, velferð og réttindi barnsins sem fæðist á þennan hátt skipta augljóslega miklu máli. Huga þarf að rétti barnsins til þess að þekkja uppruna sinn, tryggja þarf barninu örugg og góð uppeldisskilyrði hjá væntanlegum foreldrum og auk þess þarf að vera ljóst hvernig barninu muni reiða af, t.d. missi það foreldra sína.
    Þessi álitaefni eru ekki frábrugðin þeim sem uppi hafa verið í tengslum við umræðu um börn sem getin eru með bæði gjafaeggi og gjafasæði, en það er nú heimilt hér á landi samkvæmt lögum nr. 55/2010 sem breyttu lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

Staðgöngumæðrun heimiluð að skilyrðum uppfylltum.
    Lagt er til að skilyrði fyrir staðgöngumæðrun verði að lögum ströng og að hún verði einungis heimil í velgjörðarskyni. Í áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar sem vísað er til að framan er farið yfir nokkur þeirra atriða sem skoða þarf og taka afstöðu til með hliðsjón af rannsóknum og ráðgjöf þeirra sem best til þekkja, reynslu annarra vestrænna ríkja og gildandi lagaumhverfi, bæði hér og erlendis. Meginstefið í þeirri vinnu á að vera að tryggja skuli hag barnsins, sjálfstæði og velferð staðgöngumóður og farsæla aðkomu verðandi foreldra. Eitt af því sem mestu skiptir er að fram fari ítarleg könnun á aðstæðum væntanlegra foreldra og staðgöngumóður áður en heimild til staðgöngumæðrunar er veitt og enn fremur að þær hæfiskröfur sem þessir aðilar þurfa að uppfylla þjóni umfram allt hagsmunum barnsins. Mögulegt er að setja aldurstakmark fyrir staðgöngumóður og skilyrði um að kona hafi áður gengið með og fætt barn án vandkvæða eða inngripa í fæðingu. Tryggja þarf að kona gangist ekki undir þetta ferli nema vitandi og upplýst um hvað það geti mögulega haft í för með sér, bæði hvað varðar líkamlega áhættu og andlegt álag.
    Huga þarf afar vandlega að réttindum, skyldum og hagsmunum staðgöngumóðurinnar sem tekur að sér að ganga með og fæða barn fyrir aðra. Tryggja þarf foreldrum rétt til fæðingarorlofs og staðgöngumóður rétt til orlofs vegna fæðingarinnar.
    Þá þarf að huga að öðrum skilyrðum til að tryggja rétt allra hlutaðeigandi, þ.e. staðgöngumóður, verðandi foreldra og barns, sem og að tryggja að ekki verði unnt að misnota úrræðið. Meðal álitaefna sem skoða þarf eru skilyrði fyrir því að staðgöngumóðir og/eða verðandi foreldrar séu íslenskir ríkisborgarar eða hafi búið á landinu í tiltekinn lágmarkstíma. Jafnframt þarf þó að skoða hvort heimila eigi undantekningar á þessu, t.d. ef um er að ræða skyldmenni eða nána vinkonu sem búsett er erlendis og vill gerast staðgöngumóðir fyrir íslenskan ættingja eða vin.

Lagaleg útfærsla.

    Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, lagði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, hinn 25. mars 2010, sbr. lög nr. 55/2010. Þar er einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi heimilað að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun, og að sama gildi um gagnkynhneigð og samkynhneigð pör þar sem frjósemi beggja aðila er skert. Með samþykkt laganna, 1. júní 2010, var tekið nýtt skref í átt að frjálsræði í frjósemismálum þar sem búið er að opna fyrir þann möguleika að koma fyrir í konu fósturvísi sem hefur engin erfðafræðileg tengsl við hana, þ.e. þá konu sem gengur með og fæðir barnið. Munurinn á þessu lögleyfða úrræði og staðgöngumæðrun er sá að sú kona sem gengur með og fæðir barn sem varð til með glasafrjóvgun lætur barnið af hendi. Flutningsmenn telja að þegar hafi í lögum í landinu verið tekið á mörgum þeirra lagalegu og siðfræðilegu álitaefna sem lúta að staðgöngumæðrun. Verkið sem framundan er þarf hins vegar að vanda vel og því mikilvægt að starfshópur velferðarráðherra fjalli ítarlega um fyrrnefnd álitaefni og taki mið af þeim við frumvarpssmíðina.

Fylgiskjal.



Nefndarálit meiri hluta heilbrigðisnefndar


um till. til þál. um staðgöngumæðrun.

(Þskj. 1866  í 310. máli 139 löggjafarþings.)


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur frá velferðarráðuneytinu, fulltrúa frá Staðgöngu, Katrínu B. Baldvinsdóttur og Elínu Einarsdóttur frá Tilveru, Salvöru Nordal frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Ástríði Stefánsdóttur frá menntavísindasviði Háskóla Íslands og Karen Busby, lagaprófessor við háskólann í Manitoba í Kanada. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, ART Medica, Bahá´íum á Íslandi, Barnaheillum, Femínistafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Frjálshyggjufélaginu, Guðmundi Pálssyni, sérfræðingi í heimilislækningum, Helgu Sól Ólafsdóttur, félagsráðgjafa MscSW, Art Medica, Jafnréttisstofu, Stuðningsfélaginu Krafti, Kvenréttindafélagi Íslands, landlæknisembættinu, Læknafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, Rauða krossi Íslands, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Staðgöngu, Tilveru, umboðsmanni barna og þjóðmálanefnd Þjóðkirkjunnar. Einnig hafa nefndinni borist umsagnir frá meiri hluta og minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að heilbrigðisráðherra, nú velferðarráðherra, verði falið að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun á Íslandi. Í tillögunni er lagt til að við vinnuna skuli m.a. lögð áhersla á að:
     a.      staðgöngumæðrun verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni,
     b.      sett verði ströng skilyrði fyrir staðgöngumæðrun í því augnamiði að tryggja sem best réttindi, skyldur og hagsmuni staðgöngumæðra og væntanlegra foreldra og réttindi og hag þeirra barna sem hugsanlega verða til með þessu úrræði,
     c.      verðandi staðgöngumæður og verðandi foreldrar verði skyldugir til að gera með sér bindandi samkomulag um staðgöngumæðrun.

    Meiri hlutinn telur réttlætanlegt að stíga það skref að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

    Mikilvægt er að starfshópinn skipi fjölbreyttur hópur fólks svo að sem flest sjónarmið fái notið sín. Vanda verður mjög smíð slíks frumvarps, setja þarf skýr og ströng skilyrði og byggja traustan lagaramma til að tryggja í reynd öruggar aðstæður, hagsmuni og réttindi ólíkra aðila – barnsins, staðgöngumóður og verðandi foreldra. Við vinnuna verður að taka mið af faglegu mati, alþjóðlegum rannsóknum og reynslu annarra þjóða.

Hvað er staðgöngumæðrun?
    Í áfangaskýrslu vinnuhóps um staðgöngumæðrun, sem skipaður var af þáverandi heilbrigðisráðherra í byrjun árs 2009, er gefin eftirfarandi skilgreining á staðgöngumæðrun:

    „Staðgöngumæðrun í víðum skilningi er þegar kona (staðgöngumóðir) gengur með barn fyrir par eða einstakling (verðandi foreldra eða foreldri) og hefur fallist á fyrir meðgönguna að afhenda þeim barnið eftir fæðingu.
    Hefðbundin staðgöngumæðrun (e. traditional or partial surrogacy) kallast það þegar staðgöngumóðirin gengur með sitt eigið barn í þeim tilgangi að afhenda það erfðafræðilegum föður og hugsanlega konu hans eða sambúðaraðila. Barnið getur verið getið með samförum (e. sexual intercourse), heimasæðingu með fersku eða frosnu sæði (e. home artificial insemination) eða tæknisæðingu (e. intrauterine insemination or intracervical insemination). Sé ekki hægt að nota sæði frá verðandi föður er hægt að nota gjafasæði. Tilefni (ábending) fyrir notkun gjafasæðis getur t.d. verið vöntun á sæðisfrumum eða erfðagalli hjá verðandi föður, verðandi foreldrar eru báðir konur eða verðandi foreldri er einstæð kona.
    Staðgöngumæðrun þegar hin þungaða kona hefur enga erfðafræðilega tengingu við barnið og það er getið með glasafrjóvgun hefur verið kallað full staðgöngumæðrun (e. gestational surrogacy, full surrogacy, IVF surrogacy). Í slíku tilfelli geta báðar kynfrumur komið frá verðandi foreldrum, báðar kynfrumur komið frá egg- og sæðisgjöfum vegna vöntunar á kynfrumum beggja verðandi foreldra eða vegna alvarlegs erfðagalla þeirra. Loks getur önnur kynfruma komið frá öðru foreldranna og hin kynfruman frá kynfrumugjafa. Þessi aðferð krefst glasafrjóvgunar.“
    Talið er að um 15% para eigi við ófrjósemi að stríða. Miklar framfarir í tæknifrjóvgun síðastliðin ár og áratugi, sem og framsækin og opin löggjöf hérlendis um tæknifrjóvgun, hefur hjálpað stórum hópi þessara para. Hluti þessara para er þó enn hjálparvana. Meðal þeirra er tiltölulega fámennur hópur kvenna sem t.a.m. hefur fæðingargalla á legi eða hefur fæðst án legs, konur sem hafa misst legið eða það orðið óstarfshæft vegna meðferða, svo sem krabbameinsmeðferðar, eða aukaverkana við læknisaðgerðir.
    Út frá siðferðilegu sjónarmiði er nauðsynlegt að gera greinarmun á annars vegar því sem kalla má staðgöngumæðrun sem velgjörð og hins vegar staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Hið fyrra á við þegar kona gengur með barn fyrir aðra konu í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða (velgjörð). Oft er hún skyld parinu sem tekur við barninu eða er náinn vinur þeirra, en ekki alltaf. Eins og rannsóknir sýna er fjöldi dæma til um staðgöngumæður sem leggja út í þessa vegferð af samkennd í garð barnlausra para og sem velgjörð jafnvel til ókunnugs fólks.
    Það er mat meiri hlutans að það sé siðfræðilega grundvallarmunur á því að ganga af velgjörð með barn fyrir t.a.m. systur sína eða hinu að vera ráðin á viðskiptagrundvelli sem ókunnug staðgöngumóðir. Meiri hlutinn telur einboðið að setja þurfi skýr mörk á milli staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og staðgöngumæðrunar í hagnaðarskyni enda sé um tvo eðlisólíka gjörninga að ræða. Með ákvörðun um staðgöngu í velgjörðarskyni er gengið út frá því að ákvörðun konunnar sé sjálfstæð og gerð af fúsum og frjálsum vilja sem byggist á löngun hennar til að hjálpa öðrum til að eignast barn. Með lagalegri heimild til staðgöngumæðrunar hérlendis væri því aðeins átt við skýrt afmarkaða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
    Í flestum löndum Evrópu er staðan sú að staðgöngumæðrun er ekki leyfð, þ.e. hún er ýmist bönnuð með beinum hætti eða með ákvæðum annarra laga, t.d. laga um tæknifrjóvgun eða laga um ættleiðingu sem koma í reynd í veg fyrir að staðgöngumæðrun sé heimil. Staðgöngumæðrun er leyfð með lögum í Rússlandi, Ungverjalandi og Úkraínu með misströngum skilyrðum.
    Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er leyfð í nokkrum löndum, t.d. í Bretlandi, Hollandi, Grikklandi og Georgíu. Í nokkrum Evrópulöndum eru engin ákvæði um staðgöngumæðrun í löggjöf, meðal þeirra eru Belgía, Króatía, Tékkland, Portúgal og Rúmenía og standa ákvæði laga því ekki í vegi fyrir staðgöngumæðrun. Staðgöngumæðrun er leyfð bæði í Kanada og Bandaríkjunum.
    Í ýmsum löndum er staðgöngumæðrun í reynd óframkvæmanleg með löglegum hætti þar sem tæknifrjóvgunarlöggjöfin og/eða ættleiðingarlöggjöfin er mun strangari en hún er hérlendis. Fáir hafa gengið jafn langt og Íslendingar í frjálsræði hvað varðar tæknifrjóvgun, eins og nánar verður komið að síðar, og skoða verður heimild til staðgöngumæðrunar af velgjörð hérlendis m.a. í því samhengi. Vel er þekkt hérlendis sú rótgróna hefð að gefa börn í fóstur til ættingja eða vina og það er m.a. algengara hérlendis en annars staðar að systir gefi eggfrumu.

Þættir sem leggja þarf áherslu á við gerð frumvarps eru m.a. eftirfarandi:
          Með hvaða hætti er hagur barnsins best tryggður og hvernig má setja í forgrunn þroskavænleg og kærleiksrík uppeldisskilyrði barnsins?
          Hver er réttur barnsins m.a. til að þekkja uppruna sinn?
          Hvernig er velferð, sjálfræði og réttindi staðgöngumóður best tryggð?
          Þarf að uppfylla skilyrði til að fá að vera staðgöngumóðir?
          Hvernig er best komið í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og hvernig má helst tryggja að um velgjörð sé að ræða?
          Hverjum á að vera heimilt að eignast/ættleiða barn með staðgöngumæðrun og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til slíks, svo sem hæfni til foreldrahlutverksins og saga um ófrjósemi?
          Þurfa verðandi foreldrar að fara í gegnum sérstakt ættleiðingarferli?
          Hvað gerist ef verðandi foreldrar skipta um skoðun á meðgöngutímanum?
          Á að setja skilyrði um að verðandi foreldrar og staðgöngumóðir séu íslenskir ríkisborgarar og/eða búsett hér á landi?
          Á að leyfa að verðandi foreldrar greiði staðgöngumóður endurgjald fyrir útlögðum kostnaði af þungun, líkt og í tilfelli konu sem gefur eggfrumu til annarrar konu?
          Með hvaða hætti skal orlof og fæðingarorlof staðgöngumóður og verðandi foreldra barnsins vera?
          Hvernig má tryggja góðar verklagsreglur um skipulag mæðraverndar með tilliti til staðgöngumæðrunar, svo sem að sami heilbrigðisstarfsmaður annist ekki parið sem á við ófrjósemi að stríða og staðgöngumóðurina?
          Hvernig má tryggja faglega afgreiðslu á umsóknum og leyfum sem og skýrt eftirlit og eftirfylgni með framkvæmdinni?
          Hvernig verður best stuðlað að opinni og upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í samfélaginu?

Hugsanleg skilyrði og ferli staðgöngumæðrunar.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að leggja upp með að löggjöfin verði ströng og með skýrum skilyrðum. Jafnframt væri hægt að hugsa sér að í frumvarpinu væri endurskoðunarákvæði þar sem reynslan væri metin, t.d. að 2–5 árum liðnum, en ef staðgöngumæðrun verður að veruleika er nauðsynlegt að reynslan sé metin nákvæmlega með rannsóknum og eftirliti.
    Eitt skilyrði gæti verið að sérstök nefnd skipuð fagfólki skoði ítarlega aðstæður bæði parsins sem óskar eftir barninu sem og staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og veiti leyfi. Einnig væri hægt að hugsa sér að væntanlegir foreldrar og uppalendur barnsins byrji strax sérstakt ættleiðingarferli að gefnu sérstöku forsamþykki. Regluleg viðtöl við alla málsaðila ættu að vera í gegnum ferlið til að koma í veg fyrir og leysa möguleg vandamál sem upp kunna að koma.
    Hægt væri að hugsa sér að einungis kona sem getur ekki gengið með barn vegna sjúkdóma eða erfðagalla, eða tiltekið par sem hefur í fleiri ár reynt allar leiðir til að yfirstíga ófrjósemisvanda en ekki tekist, eigi rétt á að eignast barn með staðgöngumæðrun. Þá væri hægt að hugsa sér að staðgöngumóðirin sé náinn ættingi og því hluti af stórfjölskyldu barnsins eða náin vinkona hinna verðandi foreldra. Ef gera ætti undantekningu á slíku skilyrði náinna tengsla staðgöngumóður og verðandi foreldra yrði að koma til sterkur rökstuðningur og sérstök undanþága.
    Hugsanlegt er að gera þá kröfu til staðgöngumóður að hún hafi áður gengið í gegnum meðgöngu og fæðingu, hafi jafnvel ákveðið að eignast sjálf ekki fleiri börn og sé vel upplýst um hvað hún er að takast á hendur, áhættur þess og álag. Þá verður að taka tillit til maka og annarra fjölskyldumeðlima staðgöngumóður.
    Fram hafa komið hugmyndir um að leyfa eingöngu fulla staðgöngumæðrun, þ.e. að einungis sé leyfilegt að nota kynfrumur verðandi foreldra en ekki kynfrumu staðgöngumóðurinnar. Meiri hlutinn telur óeðlilegt að setja slík skilyrði heldur verði að meta hvert og eitt tilfelli fyrir sig í samræmi við vilja allra aðila. Þannig er m.a. til þess að líta að það felur hugsanlega í sér meiri hættur læknisfræðilega fyrir staðgöngumóðurina að ganga ekki með eigið egg og í sumum tilfellum er það ekki kostur yfirhöfuð að ganga með gjafaegg.
    Meiri hlutinn tekur ekki að svo stöddu endanlega afstöðu til þess hvernig þessum málum er best háttað en lítur á það sem hlutverk starfshópsins að kynna sér í þaula rannsóknir og reynsluna erlendis frá og fá faglega ráðgjöf í þessum efnum frá fólki sem hefur starfað á þessum vettvangi. Hið pólitíska leiðarljós er hins vegar skýrt – að tryggja í fyrsta lagi hag barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra.

Hagur barnsins.
    Lagarammi og regluverk utan um staðgöngumæðrun verður öðru fremur að setja í forgang að tryggja hag barnsins, rétt barnsins til kærleiksríkra foreldra, verndar, umönnunar og góðra uppeldisskilyrða.
    Í barnalögum er m.a. kveðið á um víðtæk réttindi barnsins og í lögum um tæknifrjóvgun kemur fram að hana megi því aðeins framkvæma að ætla megi að barninu sem til verður við aðgerðina verði tryggð þroskavænleg uppeldisskilyrði.
    Ljóst má vera að réttindi og hagur barnsins helst m.a. í hendur við þau skilyrði sem verðandi foreldrar verða að uppfylla, svo sem um hæfni til að sjá barninu fyrir góðu uppeldi og öruggu heimili.
    Samkvæmt barnalögum er móðir barns skilgreind sú kona sem fæðir barn. Faðir barnsins er eiginmaður hennar eða sambýlismaður hennar nema móðirin tilkynni annan föður. Til að tryggja rétt barnsins til foreldra er að mati meiri hlutans barninu fyrir bestu að það sé skýrt að kona sem fæðir barnið sé móðir barnsins og ekki sé hróflað við þeirri skilgreiningu.
    Fyrirmynd að fyrirkomulagi hvað þetta varðar gæti t.a.m. komið frá Finnlandi frá þeim tíma sem staðgöngumæðrun var leyfð þar. Samkvæmt upplýsingum meiri hlutans var úrræðið lítið notað í Finnlandi eða aðeins um 17 mál á 10 ára tímabili. Andlegt, félagslegt og líkamlegt mat var gert af fagfólki á bæði parinu og staðgöngumóður ásamt maka hennar ef hann var til staðar, áður en ákvörðun var tekin um að leyfa meðferð. Áður en meðferðin hófst þurfti parið og staðgöngumóðirin að byrja formlegt ættleiðingarferli og ættleiðing gekk síðan í gildi þegar barnið var tveggja mánaða. Allir aðilar fengu víðtækan stuðning og ráðgjöf fagaðila varðandi andlega, félagslega og líkamlega heilsu gegnum alla meðgönguna og eftir fæðinguna. Af þessum 17 málum var staðgöngumóðirin allajafna innan stórfjölskyldunnar eða náin vinkona, en í tveimur tilfellum var það ókunnug kona. Rétt er að geta þess að ástæða þess að staðgöngumæðrun var síðar bönnuð í Finnlandi var samkvæmt upplýsingum meiri hlutans ekki slæm reynsla af staðgöngumæðrun heldur umdeild umræða um rétt einhleypra og samkynhneigðra kvenna til tæknifrjóvgunar. Þá var löggjöfin sem slík slegin af.
    Samkvæmt barnalögum á barnið rétt á að vita um líffræðilegan uppruna sinn. Það er sjálfsagt að álíta sem svo að farsælast sé að þeir einstaklingar sem eru getnir og fæddir með þessum hætti hafi fullan aðgang að öllum upplýsingum um tilurð sína þegar þeir hafa aldur og þroska til. Í undirbúningsvinnu fyrir ferlið er og hægt að brýna fyrir verðandi foreldrum að segja börnum sínum frá uppruna sínum.
    Það er staðreynd að einstaklingar eru nú þegar getnir við fjölbreyttar kringumstæður hvað varðar líffræðilegan skyldleika við foreldra sína. Þegar rætt er um rétt barna til að þekkja uppruna sinn er t.a.m. rétt að benda á að samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun er slíkur réttur ekki alltaf til staðar, svo sem þegar um er að ræða gjafasæði eða gjafaegg. Barn sem getið er með staðgöngumæðrun hefur þannig mun sterkari forsendur til að fá að þekkja uppruna sinn heldur en t.a.m. barn sem er getið með gjafasæði sem nafnleynd hvílir allajafna á.
    Tryggja verður rétt barnsins ef svo ólíklega vill til að hinir verðandi foreldrar vilja ekki taka við barninu. Slík tilfelli eru afar fá en hafa þó komið upp erlendis. Bent hefur verið á að við að einskorða staðgöngumæðrun við aðila sem tengjast traustum böndum, og þá sérstaklega innan fjölskyldunnar, megi koma í veg fyrir hugsanleg vandamál sem tengjast ábyrgðinni á barninu ef verðandi foreldrar hafna því. Litlar líkur eru á að barninu sé hafnað af allri fjölskyldunni. Áður en lagt er upp í ferlið verður að vera ljóst hver tekur við barninu ef verðandi foreldrar hætta við og ef hinir verðandi foreldrar fara í gegnum ættleiðingarferli má líka gera kröfu um aðra ábyrgðaraðila.
    Þær takmörkuðu rannsóknir sem til eru um tengsl barna staðgöngumæðra við foreldra sína hafa sýnt að þau tengsl koma að jafnaði betur út en meðaltal.

Réttur staðgöngumóður.
    Meiri hlutinn telur ekki rétt að væntanlegt frumvarp um staðgöngumæðrun feli í sér að bindandi samkomulag skuli gert milli staðgöngumóður og verðandi foreldra.
    Rökstuðningurinn fyrir þessu lýtur að skilyrðislausum rétti kvenna, í þessu tilfelli staðgöngumóður, til að ráða yfir eigin líkama.
    Ekkert samkomulag getur tekið frá konu þann skýlausa rétt að ráða yfir eigin líkama. Á meðgöngunni geta komið upp fjölmargir ófyrirséðir þættir sem ekki er mögulegt að semja um fyrir fram. Það er mikilvægt að standa vörð um rétt staðgöngumóðurinnar yfir þeim ákvörðunum sem taka þarf á meðgöngu og í fæðingarferlinu öllu án íhlutunar annarra.
    Sömuleiðis getur, að mati meiri hlutans, ekkert tekið frá konu þann rétt að teljast móðir barnsins sem hún gengur með og fæðir, burtséð frá því hvaðan kynfrumur barnsins koma. Það eitt að kynfrumur parsins séu notaðar, svo dæmi sé tekið, gefur þeim ekki rétt til líkama staðgöngumóðurinnar eða til barnsins. Þá væri auk þess undirstaðan fyrir notkun gjafaeggja og gjafasæðis brostin.
    Þetta breytir því ekki að stuðla ber að góðum og uppbyggilegum tengslum staðgöngumóður við verðandi foreldra barnsins, enda hafa rannsóknir erlendis sýnt að slíkt er einn lykilþátturinn í jákvæðri upplifun staðgöngumæðra á hlutverki sínu og ef rétt er á haldið öllum aðilum í hag.
    Í þessum efnum á ekki heldur að vera hægt að svipta staðgöngumóður barni sínu vilji hún ekki gefa það frá sér. Hægt væri að hugsa sér að í því frumvarpi sem lagt væri fyrir Alþingi væri gert ráð fyrir einhvers konar umþóttunartíma staðgöngumóður eftir fæðingu ákveði hún að hætta við að láta barnið frá sér. Slíkt tíðkast t.a.m. í Bretlandi. Reynslan erlendis sýnir að slíkt er afar fátítt og kemur allajafna ekki upp, en til að taka af allan vafa og tryggja réttaröryggi hinnar fæðandi konu og barnsins telur meiri hlutinn áríðandi að málum sé fyrir komið með þessum hætti.
    Þónokkrar fagrannsóknir liggja fyrir um reynslu staðgöngumæðra á Vesturlöndum, hvort heldur er um að ræða hefðbundna eða fulla staðgöngumæðrun. Þær rannsóknir virðast sýna yfirgnæfandi að reynsla staðgöngumæðra er jákvæð og að þær eru ánægðar með að hafa lagt upp í þetta ferli. Með réttu er því hægt að segja að það sé réttur konu að ákveða sjálf hvort, hvernig og hvenær hún verði þunguð, það sé konunnar sjálfrar að taka upplýsta ákvörðun um sinn líkama og þar með að vera staðgöngumóðir í velgjörðarskyni ef hún svo óskar. Virða á sjálfræði konu sem af fúsum og frjálsum vilja gengur með barn, hvort heldur sem er erfðafræðilega hennar eða ekki, og ákveður jafnframt af fúsum og frjálsum vilja að gefa það í velgjörðarskyni í fóstur til annarra foreldra sem hafa verið úrskurðuð hæf til að veita barninu öruggt og kærleiksríkt uppeldi.
    Félagsleg réttindi staðgöngumóður á meðgöngu eru nú þegar til staðar sem almenn réttindi þungaðra kvenna, svo sem réttur til atvinnuöryggis, en að auki er við frumættleiðingu tryggður tveggja mánaða réttur til fæðingarorlofs fyrir foreldra sem gefa barn til ættleiðingar við fæðingu.

Samflot með öðrum Norðurlöndum?
    Í þónokkrum umsögnum er þess getið að Íslendingar ættu að bíða eftir öðrum Norðurlöndum hvað varðar staðgöngumæðrun og eiga samleið með þeim.
    Að mati meiri hluta nefndarinnar er þetta langt í frá sjálfgefið viðmið í þessum efnum. Staðreyndin er sú að Ísland hefur gengið mun lengra en önnur Norðurlönd hvað varðar frjálsræði í lögum og regluverki um tæknifrjóvgun. Löggjafinn hérlendis hefur lýst vilja sínum í þeim efnum með afgerandi hætti.
    Leyfilegt er hérlendis að nota bæði gjafasæði og gjafaegg og láta þannig getnað verða til án nokkurrar erfðafræðilegra tengsla við móðurina, konuna sem gengur með barnið. Víða erlendis er slíkt ekki leyfilegt. Kona sem getur gengið með barn getur fengið gjafaegg jafnt sem gjafasæði, glasafrjóvgun jafnt sem tæknifrjóvgun, hvort heldur hún er í sambúð með manni, konu eða einhleyp. Þá getur kona sem er í sambúð með annarri konu gengið með barn sambýliskonu sinnar, þ.e. með kynfrumu úr sambýliskonu sinni og gjafasæði. Hæpið er að halda því fram að sú kona sé einungis „hýsill“ fyrir barn annarrar konu eða verið sé að misnota líkama hennar til að gera aðra konu að móður.

Auðveldara ættleiðingarferli.
    Í umsögnum um þingsályktunartillöguna er iðulega bent á að í stað þess að heimila staðgöngumæðrun ættu stjórnvöld að beita sér fyrir opnari ættleiðingarlöggjöf. Sjálfsagt er og rétt að stjórnvöld rýmki af mætti heimildir til ættleiðingar frá öðrum löndum. Veruleikinn er hins vegar sá að lönd sem gefa börn til ættleiðingar setja jafnan fram ákveðnar kröfur sem Ísland þarf að uppfylla. Ísland getur ekki einhliða rýmkað kröfur um t.d. aldur parsins, heilbrigði eða annað þegar um slíkar ættleiðingar er að ræða, biðlistar eru langir og taka jafnvel mörg ár. Eina leiðin til að efla ættleiðingar erlendis frá er ef íslensk yfirvöld semja við fleiri lönd. Slíkir samningar eru flóknir og erfiðir og byggjast auk þess á því að viðkomandi lönd vilji yfirhöfuð semja við Ísland. Ættleiðingarferlið er afar þungt í vöfum og tekur gríðarlega langan tíma en ætti sannarlega að vera raunverulegt úrræði fyrir þá sem vilja með þeim hætti stofna eða stækka fjölskyldu. Meiri hlutinn tekur því undir þá áherslu að stjórnvöld eigi að beita sér af alefli fyrir rýmri og víðtækari ættleiðingarlöggjöf. Slíkt grefur hins vegar ekki undan því meginsjónarmiði meiri hlutans að heimila beri staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Kúgun kvenna og viðskiptavæðing staðgöngumæðrunar.
    Staðgöngumæðrun fyrir peninga getur við ákveðnar aðstæður verið felld undir verslun með börn ásamt misnotkun á líkama og sál konunnar sem gengur með barn. Vegna þróunar í læknavísindum hefur í auknum mæli orðið til markaður fyrir staðgöngumæðrun á alþjóðavísu. Fræg eru dæmin um slíkt frá Indlandi sem vekja óhug og eru skýr dæmi um viðskiptavæðingu staðgöngumæðrunar. Athyglisvert er að um langa hríð var engin löggjöf til um staðgöngumæðrun á Indlandi og því hefur skapast eins konar iðnaður sem hefur vaxið og dafnað í lagalegu tómarúmi. Einkareknar læknastofur með staðgöngumæður á sínum snærum hafa orðið til og í grófum dráttum má segja að slíkar stofur ráði yfir lífi staðgöngumóður á meðgöngu. Þar eru staðfest tilfelli um konur sem eru algjörlega sviptar yfirráðaréttinum yfir eigin líkama og lífsstíl, eigin meðgöngu, þungun og ferðafrelsi, sviptar áhrifum á fæðingarferlinu og því að hafa nokkuð um nýfætt barn að segja.
    Spurningin er m.a. hvernig best sé að sporna við slíkum nöturleika og hvar ábyrgð íslenskra stjórnvalda geti legið þegar kemur að slíkri misnotkun. Þetta er augljóslega eitt af þeim málum sem á að vinna í samvinnu ríkja og á vettvangi mannréttinda. Það er hins vegar tvískinnungur að banna skýrt takmarkaða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni innan eigin landamæra en láta óheftan iðnað staðgöngumæðrunar og viðskiptayfirráð yfir líkama kvenna í fjarlægum löndum í þágu Vesturlandabúa fara fram eins og ekkert sé.
    Sem dæmi má nefna að í Noregi getur kona ekki gefið egg og ljóst að Norðmenn nýta sér heimsmarkaðinn í þessum efnum. Það hlýtur að vera knýjandi spurning hvort fólk telji slíkt heillavænlegra – að beina fólki til útlanda þar sem er minna eftirlit og óljósara utanumhald.
Því má halda fram með góðum rökum að ein áhrifamesta leiðin til að minnka notkun á staðgönguiðnaði til dæmis í þróunarlöndunum er m.a. ef lönd lögleiða staðgöngumæðrun innan vandaðs lagaramma þar sem réttindi barns og staðgöngumóður eru höfð að leiðarljósi.

Hvenær hefur næg umræða farið fram?
    Með lögum um staðgöngumæðrun er unnt að tryggja réttindi barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra og jafnframt er hægt að tryggja opinbert eftirlit með framkvæmdinni. Það er alveg ljóst að þörfin fyrir og þráin eftir að verða foreldri er afar djúpstæð og hópur fólks mun ávallt leita allra leiða til að fá þá þörf uppfyllta. Ef staðgöngumæðrun er bönnuð opinberlega eru allar líkur á að fólk fari til útlanda eða leiti annarra misgóðra leiða.
    Meðal þeirra sem gagnrýna þingsályktunartillöguna er það rauður þráður að halda því fram að ekki hafi farið fram nógu ítarleg og almenn umræða í samfélaginu til að leggja fram frumvarp um staðgöngumæðrun.
    Það er rétt að það að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni krefst eins og fram hefur komið vandaðra vinnubragða, ábyrgrar stefnumótunar og tíma. Meiri hlutinn hefur því rýmkað mjög áætlaðan tíma til undirbúnings slíks frumvarps og leggur nú til að frumvarp liggi fyrst fyrir 1. mars 2012. Slíkt frumvarp fái þá þegar þar að kemur ítarlega umfjöllun á þingi, fari í opið umsagnarferli og að lokum taki Alþingi afstöðu til þess hvort heimila skuli staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eða ekki.
    Meiri hlutinn tekur undir þá áherslu að æskilegt sé að efna til upplýstrar og opinnar umræðu um þessi efni. Það er hins vegar staðföst trú meiri hlutans að skilvirkasta leiðin til að efla upplýsta umræðu sé einmitt að fram komi vandað og ítarlegt frumvarp á Alþingi sem feli í sér skilgreind skilyrði fyrir staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hérlendis. Það að setja málið í bið inni í lokuðum starfshópi skilar sér í reynd ekki út á hinn opinbera vettvang og er ekki eins vel til þess fallið að tryggja öfluga og lifandi umræðu um málið.
    Við undirbúning frumvarpsins væri einnig hægt að hugsa sér að starfshópur ráðherra efndi til opins málþings um vinnuna og jafnframt væri hægt að hugsa sér að velferðarnefnd Alþingis stæði fyrir opnum nefndafundum um málið.
    Í þessu samhengi má ekki heldur láta hjá líða að taka fram að umræða um staðgöngumæðrun almennt er að sjálfsögðu ekki algjörlega ný af nálinni. Finna má skýrslur, umfjallanir um staðgöngumæðrun langt aftur í tímann og þónokkur fjöldi alþjóðlegra rannsókna liggur fyrir um reynsluna erlendis af staðgöngumæðrun. Staðgöngumæðrun er þegar grannt er skoðað og þrátt fyrir allt eitt af elstu og rótgrónustu úrræðum manneskjunnar við barnleysi.
    Margvísleg úrlausnarefni bíða starfshóps sem fær það verkefni að semja frumvarp sem heimilar staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og nánar hefur verið gerð grein fyrir hér að framan.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
    Við vinnuna verði m.a. lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu. Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra þjóða lögð til grundvallar.
    Frumvarpið verði lagt fram á Alþingi eigi síðar en 1. mars 2012.

Alþingi, 2. sept. 2011.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


frsm.


Kristján L. Möller.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.