Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 41. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 41  —  41. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Róbert Marshall,
Björgvin G. Sigurðsson, Skúli Helgason, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Birgitta Jónsdóttir, Atli Gíslason, Þráinn Bertelsson, Ólína Þorvarðardóttir,
Þór Saari, Guðmundur Steingrímsson, Björn Valur Gíslason,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við framtalsgerð árin 2012–2016 skulu framtalsskyldir aðilar að teknu tilliti til 75. gr. tilgreina allar skuldaeftirgjafir sem þeir hafa fengið, óháð því hvort þær teljist til tekna eða ekki, á því formi og með þeim hætti sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Í álagningarskrá og skattskrá, sbr. 98. gr., skal á umræddu tímabili tilgreina þær skuldaeftirgjafir sem gjaldandi hefur þegið og eru að fjárhæð 100 millj. kr. eða meira ásamt upplýsingum frá hverjum þær stafa.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var fyrst lagt fram á síðasta löggjafarþingi. Málinu var þó ekki vísað til nefndar þar sem ekki tókst að mæla fyrir því.
    Mikil tortryggni ríkir í samfélaginu um starfsemi fjármálastofnana, afskriftir og niðurfærslur lána. Afskrifaðar skuldir hafa verið kallaðar eitruð epli samfélagsins, þar sem þeir sem fá afskrifað eru þeir sem hafa færst of mikið í fang. Kaupmaðurinn á horninu eða einyrkinn fær litla sem enga aðstoð hjá fjármálafyrirtækjum á meðan hundruð milljóna og jafnvel tugmilljarðar króna eru strikaðir út hjá eignarhaldsfélögum með litla starfsemi.
    Forsenda þess að dregið verði úr tortryggni og vantrausti er að meðferð fjármálastofnana á lánum viðskiptavina verði gerð lýðræðisleg og gagnsæ. Allt upp á borðið er krafa samfélagsins en bankarnir hafa borið fyrir sig bankaleynd þegar kemur að því að upplýsa hvaða fyrirtæki og einstaklingar fá afskrifað.
    Erfitt getur verið að lesa úr ársreikningum fyrirtækja hversu mikið hefur verið afskrifað. CreditInfo hefur þó byggt upp kerfi sem greinir upplýsingar sem fram koma í ársreikningum, en þær munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir tvö til þrjú ár. Þá verður fyrst hægt að sjá meðaltal afskriftanna, hæstu og lægstu afskriftirnar og greint hvers konar fyrirtæki fengu mest afskrifað. Einnig verður þá hægt að sjá hvort fyrirtækin fara í þrot þrátt fyrir skuldaniðurfellingar.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að skattkerfið verði nýtt til að auka gagnsæið og flýta því að upplýsingar verði birtar um hverjir hafi fengið skuldaeftirgjafir yfir 100 millj. kr., óháð því hvort þær teljist til tekna eða ekki. Upplýsingar um skuldaeftirgjafir verða þannig tilgreindar á því formi og með þeim hætti sem ríkisskattstjóri ákveður. Upplýsingarnar um þá sem hafa fengið skuldaeftirgjafir að fjárhæð 100 millj. kr. eða meira verða svo birtar með álagningarskrá og skattskrá.
    Ákvæðið gildir fyrir árin 2012–2016, enda er það von flutningsmanna að á því tímabili verði skuldaaðlögun einstaklinga og fyrirtækja að mestu lokið og hin eitruðu epli hreinsuð út.
    Því má halda fram með tilliti til einkahagsmuna þeirra aðila sem í hlut eiga að óeðlilegt sé að birta opinberlega upplýsingar um veittar skuldaeftirgjafir þar sem upplýsingarnar varða einn þátt sem áhrif hefur á niðurstöðu álagningar. Á móti vegur brýn samfélagsleg nauðsyn af því að skuldauppgjör einstaklinga og fyrirtækja fari fram með réttlátum og gagnsæjum hætti.
    Í auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 1/2011 um skil á upplýsingum á árinu 2011, vegna framtalsgerðar o.fl., skv. 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram í 8. tölul. að allar fjármálastofnanir (bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög, fjármögnunarleigur o.s.frv.) sem hafa lánað fé til einstaklinga skuli veita upplýsingar um fjárhæð eftirgefinna eða afskrifaðra lána að hluta eða öllu leyti.




Fylgiskjal.


Afskriftir – eitruð epli samfélagsins.
(Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, Fréttatíminn, 22. október 2010.)


    Óþekktu fyrirtækin fá afskrifað á meðan þau sem landinn þekkir úr atvinnulífinu hafa enga lausn fengið. Hundruð milljóna og milljarðar eru strikaðir út og færðir með misjöfnum hætti í bókhald fyrirtækjanna. Tekjur eða ekki, afskrifuðu skuldirnar eru eitruð epli samfélagsins, segir aðjunkt í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, því þeir sem fái afskrifað hafi færst of mikið í fang.

    Hæstu afskriftir fyrirtækja á árinu 2009 nema milljörðum. Skemmst er að minnast afskrifta dótturfyrirtækis útgerðarfyrirtækisins Skinneyjar-Þinganess, Nónu, upp á 2,6 milljarða króna – fyrirtækis í eigu fjölskyldu fyrrum forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar. Afskriftir á skuldum fyrirtækja eru ekki margar eða almennar, segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri lánstrausts- og upplýsingafyrirtækisins Creditinfo, sem rýnir í ársreikninga 32 þúsund fyrirtækja landsins.
    „Flest íslensk fyrirtæki teljast lítil og meðalstór. Þau eru ekki meðal fyrirtækjanna sem hafa fengið afskrifað heldur eru það upp til hópa óþekkt fyrirtæki með litla starfsemi. Lítið er um að fyrirtæki fái lágar upphæðir afskrifaðar,“ að sögn Rakelar og hún býst við að það verði ekki fyrr en á næsta ári, fyrir árið 2010, sem afskriftir fari að sjást á ársreikningum fyrirtækja með hefðbundna starfsemi. Spurð hverju það sæti að óþekktu fyrirtækin fái frekar afskrifað vill Rakel ekki leggja mat á það. „Við þurfum að safna saman öllum upplýsingunum áður en við getum birt niðurstöðu á greiningu þeirra.“

Afskriftir verða ekki faldar.
    Allt uppi á borðum er krafa samfélagsins en bankarnir bera fyrir sig bankaleynd þegar kemur að því að upplýsa hvaða fyrirtæki fá afskrifað. Menn hafa því hræðst að ekki sé hægt að sjá hvaða fyrirtæki fá létt af sér skuldum. Rakel segir hins vegar að enginn þurfi að hafa áhyggjur, það sjáist hverjir fái afskrifað.
    „Upplýsingarnar birtast í ársreikningum,“ segir Rakel. „Það eina sem við rekumst á núna er að birtingarmynd afskriftanna kemur upp með mismunandi hætti. Það er þannig að við sjáum ársreikninga sem segja þetta berum orðum en síðan eru einhverjir reikningar þar sem menn velta fyrir sér hvers vegna farnar eru þessar leiðir við skrásetninguna. Við hjá Creditinfo höfum hins vegar byggt upp kerfi sem sigtar upplýsingarnar út. Eftir tvö til þrjú ár getum við reiknað út meðaltal afskriftanna, séð hæstu og lægstu afskriftirnar og greint hvers konar fyrirtæki fengu mest afskrifað. Þá sjáum við einnig hvort fyrirtækin fara í þrot þrátt fyrir skuldaniðurfellingarnar.“

Uppfæra þarf reglurnar.
    Bjarni Frímann Karlsson, lektor í reikningsskilum við Háskóla Íslands, segir nauðsynlegt að skerpa á lögum þegar kemur að eftirgjöf skulda, því eins og staðan sé nú sé stuðst við gamlar og sumpart úr sér gengnar reglur. Bjarni segir að ástandið nú minni á þann tíma þegar kvótakerfið var sett á. „Þá voru menn í fyrstu í miklum vafa um hvernig ætti að færa kvótann inn í bókhaldið. Hann var færður út og suður. Á tveimur árum slípuðust reglurnar til. Reglur eiga það nefnilega til að haltra eftir á.“
    Þá bendir Bjarni á að til að mynda banni ekkert að þau fyrirtæki sem fá afskrifað greiði sér út arð, verði skuldaeftirgjöfin til þess að þau skili hagnaði það árið. „Það er hins vegar algerlega siðlaust,“ segir Bjarni. Undir það tekur Ásmundur Vilhjálmsson, lögmaður og aðjunkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og segir að breyta þurfi lögum, eigi að banna þetta.
    Ásmundur hefur staðið í stappi við fjármálaráðuneytið um hvað teljist til tekna. Hann gagnrýnir að bókfæra eigi afskriftir skulda sem tekjur í bókhaldi, sama hvaða niðurstöðu afskriftirnar skila. „Ef ekki skapast greiðslugeta með afskrift þá telst hún ekki til tekna að mínu mati,“ segir Ásmundur, sem heldur í byrjun nóvember fyrirlestur í Endurmenntunarstofnun Háskólans um túlkun sína með dönskum sérfræðingi, Jane Bolander, en hann vill að farið verði að dönskum lögum hér.

Deilt um tekjuhugtakið.
    „Danir hafa breytt sínum reglum eftir að Hæstiréttur fór fram á að skerpt yrði á þeim,“ segir hann. Það geti ekki verið áhöld um hvað séu tekjur milli landa. „Þannig er hins vegar staðan núna. Það er dæmigert fyrir okkur Íslendinga að rífast um hvað séu tekjur. Þeir í fjármálaráðuneytinu segja að afskriftir færist alltaf sem tekjur en væri þá ekki hægt að nota lækkun eftirgjafa í laun? Það er skrýtið að rífast um augljósa hluti.“ Hugmyndir Ásmundar og Samtaka atvinnulífsins fara saman í þessum efnum og kynnti Ásmundur túlkun sína fyrir skattanefnd Alþingis fyrir um ári. Hver voru viðbrögðin?
    „Eftirgjöf skulda er eins og eitrað epli. Þú vilt ekki verða fyrstur til að narta í það því bitinn getur staðið í þér. Hjá hverjum eru skuldir felldar niður? Hverjum er gefið eftir? Það er hjá þeim sem síst eiga það skilið. Það er vandamálið.“ Þeir hafi tekið mestu lánin, tapað mestu og eigi minnst, margir hverjir, eins og staðan sé núna.