Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 63. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 63  —  63. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, með síðari breytingum.


Flm.: Róbert Marshall, Ólína Þorvarðardóttir, Þráinn Bertelsson, Þór Saari.


1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 76. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú hljótast af broti stórfelld spjöll á náttúru landsins og skal brotamaður þá sæta sektum, að lágmarki 250.000 kr., eða fangelsi allt að fjórum árum. Lágmarksfjárhæð sekta skal taka mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs.

2. gr.

    Á eftir 76. gr. laganna kemur ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upptaka ökutækja.

    Gera má upptæk með dómi vélknúin ökutæki sem hafa verið notuð við framningu brots gegn ákvæðum laga þessara.
    Í stað upptöku á vélknúnum ökutækjum skv. 1. mgr. má gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis þeirra í heild eða að hluta.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2012.

Greinargerð.


    Tilgangur laga um náttúruvernd er að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft. Er lögunum m.a. ætlað að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum.
    Af fréttaflutningi undanfarinna ára má sjá að nokkuð hefur borið á því að stjórnendur ökutækja freistist til þess að aka slíkum tækjum utan hefðbundinna vega og jafnvel í óspjallaðri náttúru. Hafa löggæslu- og umhverfisyfirvöld séð ástæðu til þess að efna til átaksverkefna og starfrækja starfshópa með það að markmiði að vinna gegn slíkum utanvegaakstri. Meðal þess sem komið hefur fram hjá þeim sem til málaflokksins þekkja er að refsingar fyrir utanvegaakstur eru of vægar auk þess sem á skortir að nægileg úrræði séu til staðar í löggjöf. Er frumvarpi þessu ætlað að bregðast að einhverju leyti við þessari gagnrýni.
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að í þeim tilfellum þegar stórfelld spjöll á náttúru landsins hljótast af broti á náttúruverndarlögum skuli brotamaður sæta sektum, að lágmarki 250.000 kr., eða fangelsi allt að fjórum árum. Þá er framangreind lágmarksfjárhæð sekta, 250.000 kr., verðtryggð og skal hún uppfærð mánaðarlega. Er greinin byggð á þeirri hugsun að auka verði varnaðarmátt náttúruverndarlaga. Er þannig gert ráð fyrir að refsað verði fyrir brot gegn ákvæðum laganna sem ekki hefur í för með sér stórfelld spjöll á náttúru landsins á grundvelli gildandi 1. mgr. 76. gr., þ.e. með sektum eða fangelsi til allt að tveggja ára. Þegar athöfn eða athafnaleysi sem er refsivert samkvæmt náttúruverndarlögum hefur í för með sér stórfelld náttúruspjöll verði hins vegar refsað samkvæmt frumvarpsákvæðinu, þ.e. með sekt að lágmarki 250.000 kr., sem um fjárhæð er bundin breytingum á vísitölu neysluverðs, eða fangelsi allt að fjórum árum. Er mat flutningsmanns að með því móti verði dómstólum landsins fengið aukið rými til þess að taka tillit til afleiðinga brota gegn náttúruverndarlögum. Af dómaframkvæmd má sjá að sektarákvarðanir fyrir brot á náttúruverndarlögum hafa ekki verið háar. Er frumvarpsgreininni ekki ætlað að verða til þess að lækka þær enn frekar heldur þvert á móti auka möguleika á að ákveða hærri sektir þegar það á við.
    Í 2. gr. frumvarpsins kemur fram heimild til að gera upptæk með dómi vélknúin ökutæki sem hafa verið notuð við framningu brots gegn ákvæðum náttúruverndarlaga. Þá kemur fram að í stað upptöku á vélknúnum ökutækjum megi gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis þeirra í heild eða að hluta. Greinin sækir fyrirmynd sína í 69. gr. a almennra hegningarlaga og ber um túlkun hennar að líta til framkvæmdar er varðar þá lagagrein að breyttu breytanda.