Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 104. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 157  —  104. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum (varnarþing í riftunarmálum).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Auði Ýri Steinarsdóttur og Þóru M. Hjaltested frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Ásu Ólafsdóttur frá Háskóla Íslands, Feldísi L. Óskarsdóttur frá slitastjórn Kaupþings, Guðrúnu Hólmgeirsdóttur frá slitastjórn Glitnis og Herdísi Hallmarsdóttur og Kristin Bjarnason frá slitastjórn Landsbankans.
    Frumvarpið er lagt fram að fengnum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 379/2011 frá 7. júlí 2011. Mælir það fyrir um varnarþing í málum er varða riftanlegar ráðstafanir af hálfu fjármálafyrirtækja í slitameðferð skv. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Einnig er lagt til að frestur til að höfða mál til riftunar í umræddum tilvikum verði framlengdur um sex mánuði.
    Fram kom við umfjöllun málsins að í frumvarpinu fælist það að íslenskir dómstólar færu með lögsögu við úrlausn riftunarágreinings óháð því hvort slíkar ráðstafanir beindust að innlendum eða erlendum aðilum. Með því væri tryggt að við úrlausn þess háttar ágreinings yrði farið eftir íslenskum réttarreglum eins og eðlilegt væri með hliðsjón af jafnræði kröfuhafa og sjónarmiðum sem búa að baki tilskipun 2001/24/EB.
    Áréttað var á fundum nefndarinnar að aukinn frestur fjármálafyrirtækja í slitameðferð til að höfða riftunarmál fæli í sér frávik frá almennum reglum gjaldþrotaskiptalaga og tæki mið af því hversu umfangsmikil bú um væri að ræða. Með framlengingu frestsins nú væri einkum horft til þess tíma sem tæki að birta stefnu erlendis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „4. mgr. 101. gr.“ í b-lið 1. gr. komi: 3. og 4. mgr. 101. gr.

    Skúli Helgason og Guðlaugur Þór Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Margrét Tryggvadóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið.

Alþingi, 19. október 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Þráinn Bertelsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Magnús Orri Schram.


Birkir Jón Jónsson.


Lilja Mósesdóttir.