Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 192. máls.

Þingskjal 197  —  192. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fólksflutninga
og farmflutninga á landi, nr. 73/2001.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    C-liður 3. gr. laganna orðast svo: Einkaleyfi: Sérleyfi sveitarfélags, byggðasamlags eða landshlutasamtaka sveitarfélaga til reglubundinna fólksflutninga á tilteknu svæði eða tilteknum leiðum.

2. gr.

    Á eftir orðinu „Sérleyfishafa“ í 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: og einkaleyfishafa.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Fyrri málsliður 1. mgr. orðast svo: Vegagerðin getur veitt sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga einkaleyfi til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur með bifreiðum á tilteknu svæði og á tilteknum leiðum.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Öðrum en einkaleyfishafa er óheimilt nema með samþykki hans að stunda reglubundna fólksflutninga á svæðum og leiðum þar sem einkaleyfi til reglubundinna fólksflutninga hefur verið veitt.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á orðalagi tiltekinna ákvæða í lögum um fólksflutninga og farmflutninga, nr. 73/2001, sem varða einkaleyfi til reglubundinna fólksflutninga. Þörf fyrir lagfæringar á nokkrum ákvæðum hefur komið í ljós við endurskoðun á tilhögun sérleyfisaksturs. Vegagerðin hefur unnið að samningsgerð við landshlutasamtök sveitarfélaga um endurskipulagningu almenningssamgangna með það að markmiði að skipulagning á sérleyfisakstri færist til landshlutasamtaka sveitarfélaga en Vegagerðin úthluti styrkjum til þeirra. Nokkur ákvæði núgildandi laga eru ekki í samræmi við þessa tilhögun. Um misræmi er að ræða í framsetningu á ákvæðum er varða sérleyfi og einkaleyfi sem lagfæra verður til að taka af tvímæli um heimild til þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru. Er lagt til að við því sé brugðist skjótt til að unnt verði að ljúka samningsgerð sem allra fyrst með tilheyrandi úrbótum á almenningssamgöngum milli sveitarfélaga.
    Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að samræma hugtökin einkaleyfi og sérleyfi og fá þannig samræmi í lagatextann en með því eru tekin af tvímæli um að heimilt sé að veita einkaleyfi á tilteknum leiðum eins og venja er þegar um sérleyfi er að ræða. Í öðru lagi er lagt til að tekin séu af tvímæli um að landshlutasamtök sveitarfélaga geti fengið úthlutað einkaleyfi sem vafi þykir leika á eins og núgildandi lög eru orðuð. Í þriðja lagi er tekið sérstaklega fram að einkaleyfishafi geti eins og sérleyfishafi notað bifreiðar sem gerðar eru fyrir átta farþega og færri. Þessar breytingar lúta einkum að því að samræma orðalag laganna hvað snertir einkaleyfi og sérleyfi sem hvor tveggja lúta að starfrækslu almenningssamgangna. Eins og gildandi lög eru orðuð er misræmi í lagatextanum sem veldur vandkvæðum í framkvæmd. Í ljósi þess að einkaleyfi og sérleyfi hafa sama tilgang, þ.e. að tryggja einkarétt til reglubundinna fólksflutninga, þykir rétt að taka af öll tvímæli um að sömu reglur gildi um þessi leyfi hvað snertir útfærslu á leyfum og notkun á hagkvæmum og umhverfisvænum ökutækjum við aksturinn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í c-lið 3. gr. laganna er hugtakið einkaleyfi skilgreint þannig að um sé að ræða sérleyfi sveitarfélags til reglubundinna fólksflutninga innan lögsagnarumdæmis þess. Þessi afmörkun þykir ekki heppileg þegar skipuleggja á almenningssamgöngur utan þéttbýlis. Þar er nauðsynlegt að sérleyfisleiðir geti legið á milli lögsagnarumdæma sveitarfélaga þannig að unnt sé að tengja saman atvinnu- og búsetusvæði óháð sveitarfélagamörkum. Til þess að almenningssamgöngur geti þjónað byggðarlagi verða þær að tengja það við önnur byggðarlög. Til þess að unnt sé að veita sveitarfélögum einkaleyfi á sérleyfisleiðum milli sveitarfélaga er lögð til breyting á skilgreiningu í þá veru að einkaleyfi geti hvort sem er náð til tiltekinna svæða eða leiða.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. gildandi laga er sérleyfishafa heimilt að nota bifreiðar sem ætlaðar eru fyrir færri en níu farþega við sérleyfisakstur. Einkaleyfi felur í sér sérleyfi til sveitarfélags eða samtaka þeirra og má því mögulega skýra gildandi lög í þá veru að einkaleyfishafa sé heimilt að nota slíkar bifreiðar við reglubundna flutninga samkvæmt einkaleyfi. Engu síður er lagt til, svo að taka megi af öll tvímæli þar um, að skýrt sé kveðið á um heimild einkaleyfishafa til að nota hagkvæmari og umhverfisvænni ökutæki við aksturinn. Er þar ekki síst horft til þess að í mörgum tilvikum er farþegafjöldi ekki meiri en svo að fólksbifreiðar henta vel til akstursins og óhagkvæmt að nota hópbifreiðar.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lögð til breyting á 1. mgr. 7. gr. er varðar einkaleyfi til reglubundinna fólksflutninga. Breytingin felur í sér að heimilt sé að veita einkaleyfi hvort sem er til reglubundinna fólksflutninga á tilteknu svæði eða tilteknum leiðum. Um þessa breytingu má vísa til skýringa við 1. gr. en tilgangur breytingarinnar er að gera kleift að veita einkaleyfi til reglubundinna flutninga milli byggðarlaga í stað þess að einkaleyfi megi aðeins veita til flutninga innan sveitarfélags. Með breytingunni eru tekin af öll tvímæli að þessu leyti og gerir það mögulegt að ljúka samningum við landshlutasamtök sveitarfélaga um almenningssamgöngur á milli sveitarfélaga.
    Í b-lið er lögð til orðalagsbreyting sem leiðir af 1. gr. frumvarpsins og a-lið þessarar greinar sem þarfnast ekki skýringa. Enn fremur er orðalagið lagað betur að öðrum ákvæðum er varða sérleyfi. Þannig er forgangsréttur einkaleyfishafa með skýrum hætti bundinn við reglubundna fólksflutninga en orðalag gildandi laga er óheppilegt og má skilja á þann veg að öðrum en einkaleyfishafa sé óheimilt nema með hans leyfi að stunda hvort sem er reglubundna eða óreglubundna fólksflutninga á svæði þar sem einkaleyfi er í gildi en telja verður að ákvæðið hafi ekki verið túlkað með þeim hætti í framkvæmd.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á orðalagi um einkaleyfi til reglubundinna fólksflutninga. Unnið hefur verið að gerð samnings við landshlutasamtök sveitarfélaga um endurskipulagningu almenningssamgangna með það að markmiði að skipulagning á sérleyfisakstri færist til þeirra en Vegagerðin úthluti styrkjum til þeirra. Nokkur ákvæði núgildandi laga koma í veg fyrir að þessi tilhögun nái markmiðum sínum um aukna hagkvæmni og skilvirkni almenningssamgangna. Um misræmi er að ræða í framsetningu á ákvæðum um sérleyfi og einkaleyfi sem lagfæra verður til að taka af tvímæli um heimild til þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru. Er lagt til að við því verði brugðist til að unnt verði að ljúka samningsgerð með tilheyrandi úrbótum á almenningssamgöngum milli sveitarfélaga.
    Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að merking hugtakanna einkaleyfi og sérleyfi verði samræmd. Þannig fæst samræmi í lagatextann og tekin verða af tvímæli um að heimilt sé að veita einkaleyfi á tilteknum leiðum eins og venja er þegar um sérleyfi er að ræða. Í ljósi þess að einkaleyfi og sérleyfi hafa sama tilgang, þ.e. að tryggja einkarétt til reglubundinna fólksflutninga, þykir rétt að taka af öll tvímæli um að sömu reglur gildi um þessi leyfi.
    Í öðru lagi er lagt til að tekin séu af tvímæli um að landshlutasamtök sveitarfélaga geti fengið úthlutað einkaleyfi til allra almenningssamgangna á starfssvæði sínu, hvort sem er innan svæðisins eða út fyrir það, en vafi þykir leika á þessu eins og núgildandi lög eru orðuð.
    Í þriðja lagi er tekið sérstaklega fram að einkaleyfishafi geti eins og sérleyfishafi notað bifreiðar sem gerðar eru fyrir átta farþega og færri.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.