Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 204  —  199. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um vestnorrænt samstarf um listamannagistingu.



Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna möguleika á samstarfi við Færeyjar og Grænland um að gefa listamanni frá einu af vestnorrænu löndunum árlega kost á gistingu í öðru vestnorrænu landi. Tilgangurinn væri sá að gera vestnorrænum listamanni eða rithöfundi kleift að dvelja um skeið í öðru vestnorrænu landi og njóta innblásturs frá náttúru og menningu þess lands í listsköpun sinni.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2011 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst.
    Vestnorrænu löndin eiga sér sameiginlega sögu og menningu og er samstarf þeirra á menningarsviðinu eitt af mikilvægustu markmiðum Vestnorræna ráðsins. Með tilliti til þessa hefur ráðið átt frumkvæði að ýmsum atburðum og má þar nefna barna- og ungmennaverðlaun ráðsins, sem veitt eru vestnorrænum rithöfundi annað hvert ár. Ráðið hefur einnig unnið að því að árlega sé haldinn vestnorrænn menningardagur.
    Vestnorrænu löndin hafa upp á mikið að bjóða á menningarsviðinu. Það er t.a.m. rík sagnahefð í löndunum þremur og margir vestnorrænir rithöfundar hafa notið alþjóðlegrar velgengni. Í vestnorrænu löndunum er mikill gagnkvæmur áhugi á list og menningu landanna. Þetta býður upp á ýmsa möguleika.
    Markmið með tillögu þessari er að þróa enn frekar samstarf vestnorrænu landanna á menningarsviðinu og styrkja vináttu þeirra og menningartengsl með því að gefa vestnorrænum listamönnum og rithöfundum tækifæri til að eiga vinnudvöl í einu hinna vestnorrænu landanna til að njóta innblásturs frá menningu þess og list í listsköpun sinni.
    Rétt er að taka fram að ekki er um að ræða að byggja sérstaka listamannabústaði, aðeins að boðið verði upp á aðgang að gistirými sem þegar er til. Þetta gætu t.d. verið íbúðir eða hús í eigu hins opinbera, leiguíbúðir, bændagisting o.s.frv. Þá mundu ríkisstjórnir landanna aðeins taka að sér að greiða fyrir gistingu, ekki mat eða önnur útgjöld. Þessi ráðstöfun fæli því í sér tiltölulega takmarkaðan kostnað fyrir hið opinbera.