Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 205  —  200. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um ráðstefnu um tónlistarhefðir vestnorrænu landanna og möguleika til tónlistarmenntunar til hagsbóta fyrir vestnorrænu löndin.

Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að halda ráðstefnu í samvinnu við Færeyjar og Grænland um tónlistarhefðir vestnorrænu landanna með þátttöku tónlistarmanna og hagsmunaaðila. Tilgangurinn með ráðstefnunni verði annars vegar að lýsa tónlistarhefðum landanna þriggja og hins vegar að varpa ljósi á hvaða möguleika löndin þrjú hafi til að þróa tónlistarhefðir sínar og viðhalda þeim.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 6/2011 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst.
    Sérstaða vestnorrænu landanna kemur skýrt fram í tónlistarhefðum þeirra. Þær hafa verið óaðskiljanlegur hluti af sjálfsmynd landanna þriggja og þjóna ennþá því hlutverki að viðhalda lífsmáta fólksins og sjálfstæðum tjáningarformum. Þær eru ómetanlegur þáttur í menningarlegum hæfileikum þess. Það er því vestnorrænu löndunum í hag að tryggja varðveislu upplýsinga um hinar fornu en lifandi tónlistarhefðir sínar og auka skilning á og virðingu fyrir þeim.
    Það er því eðlilegt að menningarsamstarf Vestnorræna ráðsins líti til tónlistar og skyldra listgreina. Vestnorrænu löndin hafa einnig þá sérstöðu að vera lítil og strjálbýl og því er erfitt að bjóða upp á tónlistarnám fyrir alla. Ráðstefnan mundi einnig gera tillögur að lausn á því vandamáli.
    Ráðstefna um vestnorrænar tónlistarhefðir í breiðum skilningi gæti átt þátt í að skapa grundvöll fyrir frekari þróun á þessu sviði, ekki einungis með því að varðveita tónlistarhefðir
eins og þær eru nú heldur einnig með því að tryggja að eðlileg þróun þeirra haldi áfram og með því að komandi kynslóðir hafi þær í hávegum.
    Hægt væri að halda ráðstefnuna í framhaldi af þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins og gætu stjórnir landanna þriggja skipulagt hana í samvinnu við Vestnorræna ráðið.
Lagt er til að hvert land leggi fram 550.000 kr. til ráðstefnunnar.