Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 201. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 206  —  201. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um vestnorrænt samstarf á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar.

Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á mennta- og menningarmálaráðherra að láta gera athugun á möguleikum þess að auka vestnorrænt samstarf um framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem hefjist með ráðstefnu með þátttöku fagfólks á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar í vestnorrænu löndunum þremur.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2011 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst.
    Eitt af sérkennum vestnorrænu landanna er sérstakt landslag og náttúra sem gefur fjölmarga áhugaverða möguleika á framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsþátta. Framleiðsla á slíku efni er þó nokkuð takmörkuð á Vestur-Norðurlöndum, að hluta til vegna skorts á tækniþekkingu og reynslu.
    Vestnorræna ráðið telur að aukið samstarf á þessu sviði gæti falið í sér mikilvægt framlag til menningarsamstarfs landanna þriggja og veitt vestnorrænu löndunum möguleika á að læra af reynslu hvers annars og þekkingu á þessu sviði. Aukið samstarf og tækniþekking á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar gæti einnig haft í för með sér efnahagsleg tækifæri, t.d. með auknum útflutningi á vestnorrænum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum til annarra landa.