Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 267. máls.

Þingskjal 289  —  267. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili,
nr. 85/2011 (kæruheimild).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kæra má til æðri dóms úrskurð dómara um hvort lagt verði á nálgunarbann eða brottvísun af heimili, svo og úrskurð sem gengur í máli um slíka kröfu, ef hann getur sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála. Um kæru gilda sömu reglur og um kæru úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, öðluðust gildi 30. júní 2011 og féllu um leið úr gildi lög nr. 122/2008, um nálgunarbann. Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 er vísað til þess að um málsmeðferð fyrir héraðsdómi gildi ákvæði XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Þá er í 18. gr. laganna kveðið á um að ákvæði laga um meðferð sakamála gildi um málsmeðferð samkvæmt lögunum, eftir því sem við á. Í frumvarpi þessu er lagt til að gerð verði breyting á 15. gr. laganna þannig að við ákvæðið bætist ný málsgrein er mæli fyrir um heimild til þess að kæra úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann og eða brottvísun af heimili til æðri dóms. Gert er ráð fyrir að kæruheimildin taki jafnt til úrskurðar þar sem fallist hefur verið á slíka kröfu eða henni hefur verið synjað. Kæruheimildin verði þannig sambærileg kæruheimild vegna úrskurðar um gæsluvarðhald, sbr. l-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Jafnframt er lagt til að aðra úrskurði sem nauðsynlegt reynist að kveða upp í máli um nálgunarbann eða brottvísun af heimili verði unnt að kæra til æðri dóms ef slíkur úrskurður getur sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála.
    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu í samráði við þá fulltrúa ríkissaksóknara og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er sátu í starfshópi þeim er vann frumvarp það er varð að lögum nr. 85/2011 og réttarfarsnefnd. Breytingartillögur frumvarpsins eru lagðar til í framhaldi af dómi Hæstaréttar frá 14. október 2011 í máli nr. 557/2011. Í dóminum er vísað til þess að sérstaka kæruheimild sé ekki að finna í lögum nr. 85/2011. Þá segir að þótt ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skuli gilda um málsmeðferð samkvæmt lögunum eftir því sem við á, sbr. 18. gr. þeirra, falli hinn kærði úrskurður ekki undir neina af kæruheimildum 192. gr. laga nr. 88/2008 og slík heimild yrði heldur ekki fundin annars staðar í lögum. Var það því niðurstaða Hæstaréttar að ekki væri fyrir hendi heimild til kæru úrskurðarins og var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
    Ljóst er að hinum nýju lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili var ekki ætlað að fella úr gildi heimild til þess að bera úrskurð héraðsdóm undir æðri dóm enda felur slík heimild í sér að betur er gætt að réttaröryggi þeirra sem í hlut eiga. Er því í frumvarpi þessu lagt til að lögunum verði breytt á þá leið að í þeim verði að finna sérstaka kæruheimild að því er varðar úrskurði héraðsdóms, svo sem áður hefur verið rakið. Er þá ráðgert að sömu reglur gildi um slíka kæru, þar á meðal um fresti, form hennar, efni og meðferð, og kæru úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum um meðferð sakamála, sbr. XXX. kafla laganna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann
og brottvísun af heimili, nr. 85/2011 (kæruheimild).

    Í frumvarpi þessu er lagt til að kæra megi úrskurð dómara samkvæmt lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili til æðra dómsstigs og skulu þá við málsmeðferð gilda ákvæði laga um meðferð sakamála. Gera má ráð fyrir að fá slík kærumála komi til umfjöllunar á ári hverju og því munu auknar skyldur sem lagðar eru á dómstóla með frumvarpinu rúmast innan gildandi fjárheimilda.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa teljandi útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð.